Föstudagur 12.08.2016 - 16:25 - FB ummæli ()

Rentukóngurinn – Festa über alles

Spurt er: Hefði Über getað orðið til á Íslandi? Svarið er nei, næstum örugglega ekki. Það er vegna þess að festan sem rentukóngurinn er svo duglegur að koma á hlutina er svo alltumlykjandi að nýjar hugmyndir fæðast ekki. Og þótt þær fæddust þá væri engin aðstaða til að þróa þær.

Nú eru Íslendingar yfirleitt þjóða fyrstir að taka upp nýja tækni (hæsta hlutfall snjallsímaeigenda, hæsta hlutfall tengdra við internetið osfrv.). En ekki í akstri með farþega. Það gerir festan. Hún hefur farsællega hindrað nýjungar og þróun.

Vörumerki über.

Über er eins og Loftleiðir var, flytur fólk á milli staða fyrir minna.

Þegar rentukóngurinn hefur komið festu á markaðinn (samið um einkaafnot með föðurlegri umhyggju fyrir þjóðinni og ríkiskassanum) beinist orka hans að því að viðhalda festunni. Hann horfir innávið og hlúir að sínu. Það er lítil sem engin orka eftir (hvað þá vilji) til að brydda upp á nýjungum.

Nú er Über yfir 60 milljarða dala virði. Hvað eru nokkrir milljarðar milli vina þegar festa er annars vegar? Festan. Það er hún sem gildir.

Að vísu hefur það komið í ljós að þar sem Über starfar hefur dauðsföllum vegna aksturs undir áhrifum áfengis og annarra fíkniefna fækkað. Hví skyldi það vera? Jú, það er vegna þess að það er ódýrara að ferðast með Über en hefðbundnum leigubílum. Færri freistast til að aka undir áhrifum þegar fargjaldið er lágt.

En það skiptir vitaskuld engu þegar velferð þjóðarinnar er annars vegar. Festa über alles.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Tölvur og tækni · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur