Föstudagur 19.08.2016 - 06:25 - FB ummæli ()

Rentukóngurinn – Amish áhrifin

Þegar rentukóngur hefur komið sér þægilega fyrir á markaði með vöruna sína tekur við lögmál sem kalla mætti Amish-áhrifin. Amish-áhrifin lýsa sér í því að vöruþróun hægir á sér eða stöðvar alveg, fjölbreytni minnkar, nýir aðilar geta ekki reynt fyrir sér, öldungaráð eða nefnd ákveður verð og ný lönd eru ekki numin.

Það verður að taka skýrt fram að þótt Amish-samfélög séu stöðnuð bændasamfélög, er ekki þar með sagt að Amish-áhrifin eigi við um alla kima íslensks landbúnaðar. Einn kimi er þó ofurseldur Amish-áhrifunum. Það er ostakiminn. Eins ljúffengir og þeir eru nú íslensku ostarnir, þá verður að segjast eins og er að úrvalið er heldur takmarkað.

OsturErVeislukosturEhaggi

Ostur er veislukostur — ef hann er íslenskur. Útlenskur ostur er ekki veislukostur vegna þess að veisluhöldurum gefst ekki kostur á að kaupa hann.

Eitt af skilyrðum rentukóngsins þegar hann tekur að sér að sinna markaði með velferð þjóðarinnar og ríkiskassans að leiðarljósi er að hann þurfi ekki að eiga á hættu að útlendingar dembi jafnvel niðurgreiddum vörum sínum inn á svæðið hans. Skilyrðin voru aldeilis ekki svikin í sambandi við ostinn, enda bundin í lög og höfð utan samkeppnislaga (geri aðrir betur í samningum!).

Að vísu þurfti rentukóngurinn að gefa örlítið eftir vegna gargs í ósanngjörnum og uppivöðslusömum fýlupúkum sem vildu hafa val. Í samvinnu við vini sína í ráðuneytum og frændur sína stjórnmálaflokkunum gaf hann einum og einum útlenskum fýluosti landvistarleyfi. En til þess að enginn tæki upp á þeirri ósvinnu að ánetjast útlenska ostinum var samið þannig að fyrir hvern innfluttan ost þurfti að greiða toll sem gerði hann næstum virði þyngdar sinnar í gulli.

Hvað fjölbreytnina varðar eða öllu heldur skortinn á henni þá birtast Amish-áhrifin einnig í því að nöfn fyrirtækja rentukóngsins eru ósjaldan höfð með greini. Osta og smjörsalan og Mjólkursamsalan eru fyrirtaks dæmi um þetta. Í draumaríki rentukóngsins er aðeins einn aðili sem sinnir þörf markaðarins á hverju sviði. Amish-áhrifin er ljótur púki í þeim annars fallega draumi.

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur