Maður sem býr í útlöndum heimsótti Ísland nýlega. Hann var staddur í boði í heimahúsi síðla kvölds þegar einn gestanna bjóst til brottfarar og símaði á leigubíl. „Ég ætla að panta leigubíl í Flyðrufold 70, takk,“ sagði gesturinn. Maðurinn veitti þessu athygli og fannst hann vera horfinn á vit fyrri tíðar.
Ástæðan fyrir því að honum þótti þetta eftirtektarvert var sú að þar sem hann býr er ekki lengur hringt eftir leigubílum upp á gamla mátann heldur þeir pantaðir með sérstöku forriti í snjallsímanum. Á skjánum birtist kort sem sýnir hvar leigubíllinn er, hvað langt er í hann, nafn bílstjórans og mynd af bílnum auk einkunnagjafar. Ennfremur er hægt að sjá áætlað fargjald á skjánum.
Ástæðan fyrir því að nútíminn hefur ekki haldið innreið sína á Íslandi í þessu efni er sú að rentukóngar hafa komið sér svo vel fyrir á markaðnum að svigrúm til framfara og frelsi til að keppa er lítið sem ekkert.