Fimmtudagur 09.03.2017 - 17:09 - FB ummæli ()

Ólöglegi naglaklipparinn

Einn góðan veðurdag í Concord-borg í New Hampshire hóf ungur maður, Michael Fisher að nafni, að snyrta neglur í leyfisleysi á túninu fyrir framan Hárklippinga-, snyrtifræða- og fegurðarmálastofu ríkisins.

Naglasnyrting er góður siður.

Þetta var í fyrsta sinn sem Michael snyrti neglurnar á öðrum en sjálfum sér. Aðspurður af fréttamanni sem var á staðnum um hversvegna hann ákvað að byrja að snyrta neglur og það í leyfisleysi fyrir framan ríkisstofnunina sem fer með þessi mál sagði hann: „Ástæðan fyrir því að ég er að þessu er sú að naglasnyrting er einn af þessum meinlausu verknuðum sem ég get gripið til, til að afhjúpa hve lögin eru ósanngjörn.“

Ekki leið á löngu þar til eftirlitsmenn frá Hárklippinga-, snyrtifræða- og fegurðarmálastofu voru mættir á „snyrtistofuna“ hans Michaels til að gera athugasemdir við starfsemina. Skömmu síðar bar lögregluna að. „Upphaflega ætluðum við bara að birta honum stefnu um að mæta fyrir rétt,“ sagði lögreglumaðurinn við fréttamanninn. „En hann gaf í skyn að hann hyggðist ekki láta af starfseminni svo við handtókum hann.“

Michael hafnaði reynslulausn og ákvað að játa sekt sína til að vekja enn meiri athygli á þessu máli.

Hér er fréttin í heild sinni:

Eins og alkunna er þá eru atvinnuleyfi gefin út með hag og öryggi viðskiptavinarins (þjóðarinnar) fyrst og fremst í huga eins og þeir sem fyrir sitja á fleti (rentukóngarnir) eru óþreytandi við að benda okkur á.

En það er önnur hlið á atvinnuleyfum og það var sú hlið sem ólöglegi naglasnyrtirinn vildi draga fram í dagsljósið. Sú hlið er viðskiptahindrunin, viðskiptahindrunin sem felst í allskyns námskeiðum, útgjöldum og kröfum sem fækka tækifærum og draga úr samkeppni, framförum og velmegun. Ennfremur eru þeir sem sækja slíkan „skóla“ að sóa dýrmætum tíma með tilheyrandi tekjutapi og jafnvel skuldasöfnun.

Eða hví skyldu fullorðnir, sjálfráða einstaklingar ekki ráða því sjálfir hvort þeir eiga með sér viðskipti um jafn einfaldan og saklausan hlut og naglasnyrtingu? Ég tala nú ekki um á vorum dögum með hið góða aðhald sem felst í gagnkvæmri einkunnagjöf á netinu (sbr. Uber, Ebay, Yelp, Tripadvisor, Facebook og Airbnb)? Hafi nokkurn tíma verið þörf á löngum lista um nauðsynlegan útbúnað og aðbúnað á snyrtistofum er hún ekki lengur fyrir hendi. Viðskiptavinirnir eru fullfærir um að meta það á eigin spýtur hvort naglasnyrtistofa er verð viðskipta þeirra.

Uppreisn Michael Fishers hefur því miður litlu skilað vegna þess að enn þann dag í dag þarf að sækja námskeið í 60 daga til að öðlast réttindi til að snyrta neglur í New Hampshire. Góðu fréttirnar eru hinsvegar þær að ekki þarf lengur sérstakt leyfi til að mega þvo lubbann á öðrum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur