Eins og flestir vita er atvinnufrelsi í leigubílaakstri af skornum skammti á Íslandi. Er það gert til að vernda þjóðina (einkum unglingsstúlkur) og spara í ríkisrekstrinum (ekki viljum við hafa of marga leigubíla, það kostar svo mikinn gjaldeyri að flytja þá inn!). Þetta ástand er sorglegt og hlægilegt. Hlægilegt vegna þess að rökin eru út í hött og sorglegt vegna þess að bann við frelsi til að keppa á þessum markaði dregur stórlega úr nýsköpun í atvinnulífinu.
Stutt saga gefur vísbendingu um tjónið sem Ísland hefur orðið fyrir á þeim áratugum sem þessi atvinnugrein og aðrar svipaðar hafa verið „í böndum“. Tjónið er að vísu ekki mælanlegt í tölum vegna þess að það sem aldrei byrjar, verður aldrei neitt. Tjónið er engu að síður gríðarlegt.
Akstur leigubifreiða er atvinnugrein sem krefst ekki mikillar sérþekkingar. Hún er kjörin fyrir ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref í atvinnulífinu — eins og til dæmis Alfreð Elíasson stofnanda og forstjóra Loftleiða. Þegar Alfreð var 18 ára hóf hann að reka leigubíl. Um tvítugt var hann kominn með tvo bíla. 22 ára ákvað hann að læra til flugmanns, seldi leigubílana og fór til Kanada í flugnám.
Auðvelt er að gera sér í hugarlund hvað Alfreð sá fyrir sér meðan hann ók farþegum um Reykjavík: Hann áttaði sig á tækifærunum sem voru að verða til í flutningum farþega með flugvélum. Alfreð er einn af brautryðjendum farþegaflugsins á Norður-Atlantshafi. Það er viðurkennt á alþjóðavettvangi. Loftleiðir voru stærsta fyrirtæki landsins.
Án frelsis til að keppa — eins og ástandið er í dag — hefði Alfreð ekki fengið tækifæri til að spreyta sig á þessum markaði, ekki tekið fyrstu skrefin í fyrirtækjarekstri á þessu sviði. Ekki er víst að hann hefði áttað sig á tækifærunum í farþegaflutningum í lofti sem voru að verða til með stærri og fulkomnari flugvélum.
Ég vona að þessi saga sýni hve skaðlegt það er að skerða frelsi til að keppa á markaði og sérstaklega á markaði sem hentar ungu athafnafólki vel. Það er miklu skaðlegra en virðist í fyrstu.