Föstudagur 15.12.2017 - 16:52 - FB ummæli ()

Über fækkar sjúkabílaferðum

Einhvers misskilnings virðist gæta um merkingu orðsins „hagsmunaaðili“ á Íslandi. Í frétt í Morgunblaðinu í lok september sl. um fjölgun leigubílaleyfa sagði: „Í kjöl­far um­sagna áttu sér­fræðing­ar ráðuneyt­is­ins fundi með hagsmunaaðilum, m.a. full­trúa Frama, og ráðherra hitti full­trúa leigu­bif­reiðar­stjóra frá öll­um stöðvum á höfuðborg­ar­svæðinu.“ Misskilningurinn felst í því að telja „hagsmunaaðila“ vera eingöngu þann sem veitir þjónustuna en ekki þann sem þiggur hana. Lang stærsti hagsmunaaðilinn — almenningur í landinu, ég og þú — er ekki boðaður á fund eða spurður álits. Þetta er sérstaklega bagalegt þar sem ráðherra samgöngumála var kosinn á þing af almenningi, mér og þér, sem fulltrúi okkar, en ekki stjórn Frama eða annarra bifreiðastöðva.

Nema náttúrlega hagsmunasamtök leigubílstjóra á Íslandi séu með stjórnmálamennina í vasanum, hafi látið háar upphæðir af hendi rakna í kosningasjóði þeirra. Það getur tæplega verið, nú þegar stjórnmálaflokkarnir eru komnir á ríkisjötuna (einmitt með þeim rökum að auka sjálfstæði þeirra gagnvart sérhagsmunahópum).

Það kemur betur og betur í ljós hve mikilvægt það er hverju samfélagi að það sé frelsi til að keppa í fólksflutningum. Ísland er því miður ekki frjálst samfélag að þessu leyti. Frétt frá í fyrradag rennir enn styrkari stoðum undir mikilvægi frelsisins til að keppa: Þar sem Über starfar hefur ferðum með sjúkrabílum fækkað um 7% (könnunin var gerð í 766 borgum í 43 ríkjum). Ástæðurnar eru meðal annars þessar: A) Sjúklingar eru sér ágætlega meðvitaðir hversu alvarleg veikindi þeirra eru með tilliti til þess hvor hringja þarf á sjúkrabíl eða skutlu. B) Skutlur eru áreiðanlegri en sjúkrabílar. C) Sjúklingar velja sjálfir á hvaða sjúkrastofnun þeir fara ef þeir taka skutlu en þurfa ekki að sætta sig við það sjúkrahús sem sjúkrabílstjórinn velur.

Ég hef áður bent á það á þessum vettvangi að þar sem skutlur eru leyfðar minnkar ölvunarakstur.

Annar kostur við skutlur er að þörfin fyrir að taka bílaleigubíl minnkar stórlega. Kunningi minn sem heimsótti Kaliforníu nýlega sagðist guðs lifandi feginn að þurfa ekki að dragnast lengur með bílaleigubíl. Það ætti að kæta þá sem telja bíla of fyrirferðarmikla í borgarlandslaginu í Reykjavík. Ferðamaður sem notast við skutlur tekur ekki stæði við íbúðina sem hann leigir svo dæmi sé tekið.

Það er ekki bara sjálfsögð kurteisi gagnvart almenningi í landinu að frelsi ríki í þessu efni heldur líka allverulegur sparnaður í heilbrigðiskerfinu. Ferð með sjúkrabíl kostar stórfé og því færri sem aka undir áhrifum því minni kostnaður fellur á samfélagið. Ég skil ekki eftir hverju stjórnmálamennirnir okkar eru að bíða. Af hverju er þessu sérhagsmunapoti í farþegaflutningum ekki hætt?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur