Þriðjudagur 3.11.2009 - 05:41 - FB ummæli ()

Misheppnuð ferð á McDonalds

Eins og rithöfundurinn í kvikmyndinni Misery hafði fyrir vana að kveikja á kerti og fá sér rauðvínsglas þegar hann hafði lokið við skáldsögu, er það komið í vana hjá mér að fara á hamborgarastað eftir vinnustofuna á þriðjudögum. Ég missi af kvöldverðinum þann dag og veiti mér því þann munað síðar um kvöldið. En vaninn minn fór í vaskinn á þriðjudaginn var. Ástrósu langaði að fara í bíó og ég skutlaði henni í bíóið á leiðinni í vinnustofuna. Á heimleiðinni sótti ég hana í bíóið og hugðist svo fara á hamborgarastaðinn. Þetta auka umstang tók um hálftíma. Það var nóg. Þegar við komum á McDonalds var búið að loka, var greinilega lokað klukkan tíu (klukkan var nokkrar mínútur gengin í ellefu). Ég vissi um annan stað í nágrenninu og bjóst kannski við að hann væri opinn (sumir eru opnir allan sólarhringinn), en hann var lokaður líka. Nær dauða en lífi úr hungri ruddist ég inn í pizzubúllu og keypti mér eina pepperóní sneið sem ég tróð í mig í einum bita.

Um svipað leyti og ég á í þessum vandræðum les ég svo að það eigi að loka McDonalds á Íslandi (hvílík tilviljun!) og breyta staðnum í Brúnó, eða hvað þetta á að heita. Þótt ég fái mér BigMac einu sinni í viku er ég enginn sérstakur aðdáandi staðarins, þetta eru jú bara hamborgarar og það eru takmörk fyrir því hve nánum tilfinningaböndum hægt er að tengjast þeim. Samt þykir mér lokunin á Íslandi frekar dapurleg – séu forsendurnar sem sagðar eru, réttar. Það er hálf hallærislegt að það sé varla hægt að reka erlenda hamborgarakeðju á Íslandi. Þegar krónan var hvað sterkust var McDonalds hamborgarinn sá dýrasti í heimi samkvæmt hinni frægu vísitölu (og þar með krónan of hátt verðlögð). Þegar gengið hrynur og fer nær því sem eðlilegt er miðað við vísitöluna er ekki lengur grundvöllur fyrir rekstrinum. Hm…

Fréttin um lokun McDonalds á Íslandi hefur vakið talsverða athygli úti í hinum stóra heimi því það þykir mörgum skringilegt að þetta sé að gerast. Héldu eflaust að þetta væri bara sjálfsagður hlutur. Þetta er jú bara hamborgarastaður. Þægilegur valkostur fyrir þá sem vilja ekki hafa of mikið fyrir matnum, vita að hverju þeir ganga og ekki borga of mikið (ég er þar á meðal).

Ég tel að þessi lokun sé ekki síst vegna krónunnar okkar sem svo margir elska. Krónan viðheldur sjálfsblekkingu, ýmist um fátækt eða ríkidæmi og kostar miklar fjárhæðir í skriffinsku og umstangi á nánast öllum sviðum efnahagslífsins. Hún ruglar fólk í ríminu um raunveruleg verðmæti vöru og þjónustu og er fórnarlamb óheiðarlegra manna með nokkur fjárráð, enda minnsti gjalmiðill í heimi. Hún gefur ráðamönnum peningamála á Íslandi þá tálsýn að þeir séu mikilvægir menn í hagstjórnarleik þegar það blasir við að hagkerfið sveiflast sem lauf eftir alþjóðlegum efnahagsvindum og þeir eru raunverulega heimóttarleg viðundur sem ekkert geta né kunna í þessum efnum. Ég veit það núna og þeir líka, en það kostaði eitt stykki hrun.

Þótt það kosti fórnir, held ég að atvinnuleysi sé skömminni skárra en þessi krónu-blekkingarleikur. Menn fara þá að hugsa upp nýjar leiðir í verðmætasköpun í stað þess að hökta eins og aumingjar á launum í gjaldmiðli sem er ekki pappírsins virði. Í sögu landsins hefur þessi skipan mála aðeins verið við lýði í stuttan tíma. Þetta er tilraun sem mistókst. Því fyrr sem við horfumst í augu við þá staðreynd, því betra.

Fyrst ég er farinn að tala um McDonalds verð ég að víkja að þeirri þórðargleði sem virðist hafa gagntekið suma yfir því að staðurinn er að hætta á Íslandi. Er hægt að vera öllu plebbalegri? Lítilla sanda, stranda, sæva og snæva? Hvaða máli skiptir það þótt amerísk keðja selji mat á íslandi? Af ofsafengnum viðbrögðum fólks, nánast óðri gleði yfir endalokum keðjunnar, má greina ákveðna sýki. Og það er ánægjulegt að þetta skyldi koma upp, því þá kemur þetta fólk út tréverkinu og afhjúpar sig. Sýkin er því svæsnari sem lengri munur er á milli ímyndarinnar af Íslandi og raunveruleikans. McDonalds er eins og fleinn í holdi ímyndarinnar um „hreint og ómengað“ ísland. Minnisvarði um óæskileg amerísk áhrif. Á þessu svekkir einhver sig haldandi á PepsiMax dós og Tommaborgaranum í Levi’s gallabuxunum sínum, horfandi á Elvis á Youtube milli þess sem hann uppfærir Facebook statusinn.

Drauma-Ísland er hin nýja trú. Mótsagnarkennd og órökrétt, en samt furðu útbreidd. Og ákafastir virðast þeir vera sem telja sig trúlausa.

Jæja, ég ætla ekki að æsa mig yfir þessu frekar og hugga mig við að enn um sinn get ég etið minn hamborgara á McDonalds á þriðjudagskvöldum hér í Kaliforníunni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 16.10.2009 - 06:08 - FB ummæli ()

Lífið eftir krónu

Ég hef verið að velta fyrir mér hvernig megi losna við gjaldmiðilinn okkar. Að mínum dómi eru kostirnir við að halda úti lögeyri í landinu miklu færri en gallarnir.

Kostirnir eru einkum þeir að með lækkandi gengi er í raun verið að lækka laun sem aftur gerir fyrirtækjum auðveldara með að halda í starfsmenn; þurfa ekki að segja upp fólki. Þessi röksemd fyrir tilverurétti krónunnar er raunar veik núna vegna þess að þrátt fyrir stórkostlegt gengisfall er atvinnuleysið mikið.

Gallarnir eru ma. þeir að krónan er „hagstjórnartæki“ þeirra sem fara með völdin í landinu. Þegar stjórnmálamenn með ranghugmyndir um efnahagsmál halda um stjórnartauma (eins og tilfellið er núna) er auðveldara fyrir þá að glutra efnahagsmálum niður með krónuna að vopni heldur en dali svo dæmi sé tekið. Án krónu er meira aðhald í ríkisfjármálunum. Miklu meira aðhald. Það að Seðlabankinn eigi að heita sjálfstæð stofnun er bara píp, og það er ekki bara píp á Íslandi, heldur í Bretlandi líka. Það sást glöggt í fyrra þegar litlu mennirnir í Stóra Bretlandi beittu Ísland hryðjuverkalögum.

Undanfarin ár hefur gengi krónunnar verið allt of hátt skráð sem kostað hefur útflutningsatvinnuvegina gríðarlegar fjárhæðir. Ferðamenn streyma til landsins nú þegar gengið er veikt. Hversu mörgum ferðamönnum missti landið af undanfarin ár vegna óeðlilega strerkrar krónu? Það eru án efa háar upphæðir. Fyrir utan þetta blekkti of sterk króna flesta landsmenn til að halda að þeir væru ríkari. Það leiddi til aukinna fjárfestinga og meiri viðskiptahalla.

Ísland er lítið land og það er erfitt fyrir embættismenn og stjórnmálamenn að standast þá freistingu að hygla einum á kostnað annars. Þetta kemur glöggt fram ef skoðuð er viðskiptasaga landsins. Flugfélag Íslands sem þá var átti greiðan aðgang að ríkisábyrgðum á meðan Loftleiðir og önnur fyrirtæki í landinu nutu ekki þeirrar fyrirgreiðslu. Þetta olli stórkostlegri markaðmismunun og skaðaði viðskiptalíf landsins mjög. Án krónu væri opinber stjórnsýsla í peningamálum, með tilheyrandi kostnaði, miklu minni og líkurnar á misnotkun því minni að sama skapi.

Til að losna við byrðina sem krónan leggur á þjóðina ættum við að gera gjaldeyrismál frjáls og leggja niður sérstakan lögeyri á Íslandi. Hver og einn getur þá höndlað með þann gjaldmiðil sem hann kýs. Fyrirtæki sem selur vöru í dölum getur greitt laun í dölum, fyrirtæki sem selur vöru í evrum getur greitt laun í evrum, og svo framv. Í stað fyrirfram ákveðinna launa sem taka ekkert tillit til gengi vöru eða þjónustu á markaði er réttast að taka upp skiptahlutskerfi (eins og tíðkast hefur í sjávarútvegi um aldir), þannig að ef verð á vöru eða þjónustu hækkar, hækka laun til samræmis við það. Varðandi laun opinberra starfsmanna væri eðlilegast að miða við myntkörfu þeirra gjaldmiðla sem mynda tekjur ríkisins. Ef það væri halli á rekstri ríkisins ættu tekjur opinberra starfsmanna að minnka hlutfallslega til að jafna út þann halla og að sama skapi ættu tekjur þeirra að hækka ef það væri afgangur.

Ef notast væri við alþjóðagjaldmiðla á Íslandi myndi verðmætasköpun og eignamyndun almennt vera miklu skýrari. Verð á vörum og þjónustu væri gagnsærra og einfaldara að bera saman milli landa. Með krónuna eru allir í þoku um raunveruleg verðmæti og eignir. Erlendir aðilar sem hugsanlega hefðu áhuga á að fjárfesta á Íslandi eða stofna þar fyrirtæki, þyrftu ekki að klifra yfir krónuhindrunina (setja sig inn í „hagstjórnina“) og taka á sig þá áhættu sem fylgir gjaldmiðlinum.

Það væri sársaukafullt að sumu leyti að vera án krónu, en sá sársauki væri jafn og þéttur, en kæmi ekki í bylgjum eins og verið hefur undanfarna áratugi í krónuumhverfinu.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 9.10.2009 - 05:03 - FB ummæli ()

Látúnsbarki með stút

Eins og aðdáendur mínir vita var ég að hugsa um að kaupa notaða, evrópska ryksugu í stað þeirrar amerísku sem skaddaði heyrn mína enn frekar um daginn án þess þó að ryksuga drulluna. Í gær var haldið í ryksuguleiðangur, en sá leiðangur var árangurslaus. Það voru engar hefðbundnar ryksugur til! Ef einhver aðdáenda minna trúir mér ekki, ætti hann að skoða myndina sem fylgir þessari færslu. Hún var tekin í ryksuguhorninu í Goodwill. Bara „vondar“ ryksugur þarna. Ekki vantar að þær líta út fyrir að soga í sig allt sem fyrir verður, en það er ekki svo. Svona tæki eru eftirbátar þeirra ryksuga sem ég hef kynnst og eru þær margar ryksugurnar sem orðið hafa á vegi mínum í gegnum tíðina. Einu sinni hjálpaði ég móður minni vetrarpart við skúringar á leikskóla, svo dæmi sé tekið. Man ekki af hvaða tegund ryksugan var sem við notuðum, en það var Nilfisk ryksuga sem sá um drulluna á æskuheimili mínu. Um það undratæki samdi ég eitt sinn ljóð:

Nilfisk ryksuga.

Villt geimvera á akri teppis?

Látúnsbarki með stút

kyssir rykhnoðra

og syngur ástaróð

á innsogi.

Ryksugur

Uppréttar ryksugur eru ekki eins góðar og þær líta út fyrir að vera.

Ekki er öll nótt úti enn um það hvort mér takist að kaupa ryksugu því ég á eftir að fara í verslun Hjálpræðishersins. Kannski verð ég heppinn, kannski ekki.

(Dickens endaði framhaldssögur sínar, sem hann skrifaði fyrir blöð og tímarit, oft á svokölluðum „cliffhangers“ – spennuþrungnum augnablikum sem gerðu aðdáendur hans eftirvæntingarfulla eftir að lesa næsta kafla. Ég ætla að taka þann mikla meistara til fyrirmyndar og skilja lesendur eftir algerlega að míga í sig af spenningi um hver niðurstaðan í ryksugumálinu verður.)

Flokkar: Menning og listir

Þriðjudagur 6.10.2009 - 05:01 - FB ummæli ()

Bréfpokar og plastpokar

Víða í útlöndum hafa viðskiptavinir verslana val um hvort þeir fái vörurnar settar í plastpoka eða umhverfisvæna bréfpoka. En í sumum búðum, þeim „mest umhverfismeðvituðu“, er ekki hægt að fá neitt annað en bréfpoka, td. í Trader Joe’s. Reyndar eru alltaf settir tveir pokar saman undir vörurnar í Trader Joe’s vegna þess að einn bréfpoki ber svo lítið. Það er áhugaverð spurning og jafnvel heimspekileg, hvort það sé betra fyrir umhverfið að nota 1000 bréfpoka eða 500 plastpoka fyrir sama magn af vörum. Hvort tveggja má endurvinna, en hvort ætli sé fyrirferðarmeira í 10 hjóla trukknum sem reykspúandi og eldsneytisgleypandi ekur með það í reykspúandi og eldsneytisgleypandi endurvinnsluna?

Ég vel alltaf plastpoka undir vörurnar. Ekki af því að ég hafi neitt á móti bréfpokunum, síður en svo. Þeir eru kósí og flottir. En það stendur á miða niðri í ruslageymslu: Allt rusl á að vera í plastpokum með vel bundið fyrir. Ef ég notaði ekkert annað en bréfpoka í búðinni myndi ég þurfa að kaupa sérstaklega plastpoka undir ruslið. Ég væri með öðrum orðum tvöfaldur umhverfissóði. Fyrst með bréfpokunum og síðan með plastpokunum.

Enda er það svo með þá allra umhverfisvænustu að þeir lauma einni og einni plastpokarúllu í innkaupakerruna þegar þeir fara út að versla í umhverfisvænu búðinni sinni svo þeir geti hent ruslinu án þess að það fjúki út um allt með tilheyrandi sóðaskap. Þetta er það sem kallað er á góðri og gildri íslensku: Hræsni.

Kannski er ég einn um það, en mér finnst eins og það sé ákaflega stutt á milli umhverfisverndar og hræsni. Ágætt dæmi um það eru nýju ljósaperurnar sem Evrópusambandið ætlar að troða í hvert perustæði með lagaboði. Þær eru víst fullar af eiturefnum sem stórvarasamt er að farga með hefðbundnu sorpi. Gamla góða glóperan er kannski ekki eins slæm og af er látið? Hún er að minnsta kosti ekki eins slæm og sumir vilja vera láta.

Og fyrst ég er farinn að tala um umhverfismál get ég ekki sleppt því að skella inn hlekk á Ágúst H. Bjarnason, en á síðu hans er ekkert minna en kostuleg mynd um ísöldina sem var rétt handan við hornið 1977 (með skelfilegum afleiðingum fyrir mannkynið). Röksemdafærslan og tónninn, vísindamennirnir, allur umbúnaðurinn, minnir á mynd sem þrjátíu árum síðar fór um heimsbyggðina eins og eldur í sinu og fjallaði um alheimssteikinguna sem er víst rétt handan við hornið (með skelfilegum afleiðingum fyrir mannkynið).

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál

Mánudagur 5.10.2009 - 06:38 - FB ummæli ()

Tinni og Indiana Jones

Tinni var og er hetjan mín. Svo kom Indiana Jones og hann varð hetjan mín um tíma eins og Súperman, Spiderman, Rambó, Jason Bourne og margir fleiri sem ég man ekki eftir í svipinn. En Indiana Jones og Tinni voru víst tengdir, voru „frændur“. Sagan segir að Spielberg hafi verið í samningaviðræðum við Hergé um að gera kvikmynd um Tinna, en Hergé hafi látist áður en samkomulag náðist, svo ekkert varð úr Tinnamyndinni. Í staðinn ákvað Spielberg að gera mynd um Tinna, nema kalla hann ekki Tinna heldur Indiana. Fyrsta myndin um Indiana Jones, Leitin að týndu örkinni, er einhver besta hasarmynd sem gerð hefur verið. Ef ég man í hvaða bíói ég sé mynd, þá er hún virkilega góð. Svo komu framhaldsmyndir sem voru nokkrir eftirbátar fyrstu myndarinnar. Það sem fór mest fyrir brjóstið á mér í framhaldsmyndunum var að kafað var ofan í sálarlíf söguhetjunnar, endalausir komplexar og axarsköft úr fortíðinni voru dregin fram í dagsljósið. Kaldur faðir, svik við æskuástina og eitthvað fleira sem ég er viljandi búinn að þurrka út úr minninu. Ég spurði mig: Af hverju er Indiana Jones ekki bara að eltast við vondu kallana og redda málunum? Af hverju þarf að láta hann dragnast með fortíðina á bakinu?

Í hvert skipti sem ég opna Tinnabók er Tinni mættur á svæðið, keikur og ferskur, reiðubúinn að leysa ráðgátur og koma óþokkum bak við lás og slá. Aldrei er hann í rusli yfir uppeldinu eða kvennamálum. Alveg eins og Indiana Jones var í fyrstu myndinni. Þannig vil ég hafa mína hasarhetju. Ekki það að ég hafi engan áhuga á komplexuðum hetjum, ég er mikill aðdáandi Hamlets til dæmis. En það eru annars konar hetjur. Ég held að þeir sem bjuggu Indiana Jones til hafi farið út af sporinu strax í sögu númer tvö; urðu hetjuvilltir eða of uppteknir af aukaatriðunum. Að vísu telja margir að hetjan sé ekki áhugaverð nema hún kljáist við fortíðardrauga. Aldrei saknaði ég þess varðandi Tinna. Tinni heldur áfram að vera hetjan mín á meðan aðrar hetjur, Indiana Jones og Rambó til dæmis, koma og fara.

Flokkar: Menning og listir

Þriðjudagur 29.9.2009 - 05:47 - FB ummæli ()

Borð og stólar á hjólum

Það er ekkert langt síðan það komst í tísku að hafa hjól undir húsgögnum. Þetta eru trúlega áhrif frá verksmiðjum og lagerum þar sem vinnuborð, bekkir og aðrir hlutir hafa lengi verið á hjólum. Mér varð hugsað til þessa fyrirbæris þegar ég þurfti að strauja skyrtu og það var bara til borð-straubretti á heimilinu (straubretti sem er með 20 sm. háum fótum). Er ég leitaði að hentugum fleti undir litla straubrettið rak ég augun í lága bókahillu á hjólum. Með einu handtaki gat ég togað hana frá veggnum og notað sem borð undir straubrettið. Hafði, áður en þessi lausn birtist mér sem lítið kraftaverk, hugsað mér að kaupa kannski venjulegt straubretti, en þær fyrirætlanir eru nú út úr myndinni.

Þessu borði má ýta til hliðar ef einhver vill dansa fyrir framan sófann

Þessu borði má ýta til hliðar ef einhver vill dansa fyrir framan sófann.

Menn eru mismiklir aðdáendur húsgagna á hjólum. Það eru til dæmis fjögur húsgögn á hjólum í íbúðinni okkar heima á Íslandi, baðborðið, bæði náttborðin og lítið sjónvarpsborð. Faðir minn er mikill hjólahúsgagnakall. Hann setti til dæmis hjól undir sófaborðið og nýlega setti hann hjól undir hægindastólana í stofunni. Stórsniðugt finnst mér, þótt aðrir í fjölskyldunni geri grín að þessu. Ég held að ég hafi ekki erft þessa hjólaáráttu frá honum, en ég veit að bróðir minn er mjög hrifinn af öllu sem er á hjólum. Ég man eftir honum uppveðruðum yfir eldhússtólum sem voru á hjólum. Hann sagði að slíkir stólar væru eina vitið við eldhúsborðið. Þar sem hann ræður öllu heima hjá sér varð ekkert af kaupum.

Í eldhúsinu í íbúðinni sem við dveljumst nú í er lítið borð sem er á tveimur hjólum, en tveir fætur eru hjólalausir. Það er heppilegt fyrirkomulag vegna þess að þá er borðið ekki á fleygiferð um allt eldhúsið. Maður þarf að lyfta öðrum endanum á því til að þoka því úr stað. Sjálf eldhúsinnréttingin er ekki á hjólum, en Þjóðverjar ættu að athuga að setja hjól undir eldhúsinnréttingarnar hjá sér. Þar í landi tíðkast nefnilega að flytja eldhúsinnréttinguna með sér þegar íbúð er seld eða leiga útrunnin.

Svona hjól fást í IKEA veit ég, vegna þess að þar keypti ég þau undir baðborðið á sínum tíma. Þeir sem vilja kaupa enn ódýrari hjól ættu að fara í Góða hirðinn. Þar eru oft hrörleg húsgögn á góðum hjólum. Ég man að ég keypti eitt sinn skenk fyrir slikk sem undir voru þessi fínu hjól. Skenkinn notaði ég aldrei og gaf til Hjálpræðishersins, en hjólunum hélt ég eftir og eru þau nú í geymslunni. Kannski ég setji þau undir klósettið. Það er gott að geta ýtt því til hliðar við þrif.

Flokkar: Dægurmál

Laugardagur 26.9.2009 - 17:46 - FB ummæli ()

Ferð höfundarins

Nýlega hófst ég handa við að þýða nýja útgáfu bókarinnar Ferð höfundarins. Sú útgáfa sem hér um ræðir er þriðja útgáfa bókarinnar, en árið 1997 kom út í íslenskri þýðingu minni fyrsta útgáfa hennar. Í þriðju útgáfunni eru einar 100 blaðsíður með nýju efni. Þessi bók er að vísu bara fyrir skrítið fólk sem hefur gaman að jaðarkúltúr eins og lífinu, goðsögum, bókmenntum og kvikmyndahandritum. Mér er sönn ánægja af að segja frá því að fyrsta útgáfa bókarinnar er fyrir löngu uppseld og því kominn tími á endurútgáfu. Meðal efnis í nýju útgáfunni er afar fróðleg greining á kvikmyndinni Titanic sem sökk svo eftirminnilega á skjánum fyrir nokkrum árum. Nýju útgáfuna prýða fallegar teikningar sem tengjast goðsögunum. Bókin kemur vonandi út einhvern tíma á næsta ári. Fyrri útgáfan var í harðspjaldi, en þar sem Ferð höfundarins er nokkurs konar handbók, verður nýja útgáfan í handhægu kiljuformi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.9.2009 - 06:04 - FB ummæli ()

Brauðbrettagaur

Aðdáandi brauðbretta er ég mikill. Brauðbretti eru í mínum huga heppilegasti hluturinn til að borða mat af. Mannskepnan borðaði trúlega um þúsundir ára af brauðbrettum, eða brauðdiskum og vitaskuld öskum, áður en keramikið varð til. Keramikdiskar, eða brenndir leirdiskar hafa jú verið í umferð um langa hríð, en ég hef það sterkt á tilfinningunni að á norðurslóðum hafi trétau haft vinninginn yfir leirtau. Bæði var auðveldara að búa til trétauið og það brotnaði síður. Ég veit ekki til þess að á forsögulegum tíma hafi verið til brennsluofn á Íslandi, en það gæti verið rangt hjá mér. Ég held að það sé innbrennt í genin mín að þykja þægilegra að borða af tré en leir. Vissulega eru þrif á leirtaui mun auðveldari en á trétaui. Leirtauið fer beint í uppþvottavélina, en ef trétauið fer þangað verpist það og skemmist.

Um daginn keypti ég tvö brauðbretti, annað lítið og hitt stærra. Bæði eru af sömu tegund og með djúpri rauf meðfram ytri brúninni. Mylsna og annað fer í raufina en brauðið og maturinn í þverrraufina. Ég er ánægður með nýju brauðbrettin mín. Lífsgleði mín hefur aukist umtalsvert síðan þau komu í eldhúsið. Genin mín eru glöð og hlæja.

Þó verð ég að viðurkenna að ég borða enn flestar máltíðir af keramikdiskum. En smátt og smátt hyggst ég hverfa frá keramikinu. Heiðrún gerir óspart grín að mér fyrir að vera svona mikill brauðbrettagaur. „Brauðbretti út um allt! Er ekki hægt að fækka þeim aðeins?“ Næst þegar ég kaupi eldhúsinnréttingu ætla ég að hafa borðið úr brauðbrettaviði. Þá er borðið í raun eitt stórt skurðarbretti.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.9.2009 - 05:12 - FB ummæli ()

Spegill á Benz ’98 bílstjóramegin

Faðir minn varð fyrir því óláni að brjóta spegilinn bílstjóramegin af bílnum sínum í hinni allt of þröngu Suðurgötu er hann mætti bíl. Suðurgatan var nýlega gerð upp eftir höfði þeirra sem hafa andúð á einkabílnum. Gangstéttin var breikkuð til muna þannig að nú eiga bílar erfitt með að mætast í götunni. Um þetta samdi ég ljóð:

Einkabíllin vondur bíll er í þessum heimi hér,

þrengjum kost hans mjög mikið,

gangandi vegfarendur eru betri.

Rútur hótela og Jón Valur öskra á þingið

meðan Hólavellingar sofa svefni hinna dauðu.

Tunglið hlær að ösnum malbiksins.

Faðir minn fór á stúfana og hugðist kaupa nýjan spegil. En verðið reyndist vera í kring um 100 þúsund krónurnar. Slagaði hátt í verð bílsins. Hann bað mig að kanna fyrir sig hvort ekki fengist ódýrari spegill í henni Ameríkunni, en í því landi eru margir jepparnir. Ég fór samviskusamlega á netið og leitaði að varahlutnum. Jú það kom upp vongóður hlekkur, heimilsfang eigi allfjarri mér. Ég fór í bíltúr og hugðist kaupa varahlutinn. En þegar ég kom á staðinn reyndist heimilisfangið vera venjulegt íbúðarhús í venjulegu íbúðarhúsahverfi. Engin útsölumarkaður með varahluti í Benz. Það voru nokkur vonbrigði. Ég hef þó ekki gefið upp alla von og hyggst leita frekar að speglinum. Það er raunar ekki nema hluti spegilsins sem er ónýtur; spegillinn og hulstrið. Mótorinn er í fínu lagi.

Faðir minn kær, ef þú ert að lesa þetta, veistu að sonur þinn í útlöndum er að leita að speglinum fyrir þig.

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál

Miðvikudagur 23.9.2009 - 05:42 - FB ummæli ()

(Skömmtunar)Seðlabanki eða Moggi?

Nú er Davíð Oddsson hugsanlega að gerast ritstjóri. Hvort er heppilegra fyrir andstæðinga hans að hann sé (skömmtunar)seðlabankastjóri eða ritstjóri? Var etv. best að hafa hann í bankanum áfram?

Menn sem eru reknir eiga það til að endurfæðast.

Carl Jung óskaði þeim til hamingju sem voru reknir en sendi þeim sem hlutu stöðuhækkun samúðarkveðju.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur