Þriðjudagur 22.9.2009 - 04:57 - FB ummæli ()

Smjörkrukkan

Fyrir mörgum árum fékk móðir mín senda krukku frá Naný frænku sem bjó í Ameríku. Krukkan, sem var úr keramiki, var byltingarkennd uppfinning varðandi geymslu á smjöri. Venjulegt smjör, eins og allir vita, harðnar sé það geymt í kæli og verður erfitt viðureignar þegar smyrja skal því á brauð. Þessi krukka var þeim eiginleikum gædd að smjörið í henni harðnaði hvorki né þránaði. Nú skal útskýrt hvers vegna. Krukka þessi var í raun tvær krukkur þar sem önnur krukkan, sú efri, rann ofan í hina, þá neðri. Í þá neðri var sett góð botfylli vatns en í þá efri var sett smjör. Þegar krukkunni var lokað fór efri hlutinn ofan í vatnið og hindraði loftflæði til smjörsins. Þannig var hægt að geyma krukkuna á eldhúsborðinu og smyrja brauðið með lungamjúku ekta smjöri alla daga.

Krukkan sem Naný sendi mömmu var notuð um tíma á heimilinu, en síðan fór hún upp í skáp og ég veit ekki hvað varð af henni. Ástæðan fyrir því að hún fór þangað var sú að við vissum aldrei hvernig átti að nota hana. Mamma stóð í þeirri meiningu að maður ætti að setja klaka í botninn til að halda smjörinu mátulega köldu. Þar sem það er nokkuð umstang að setja klaka í sífellu í krukkuna, datt notkun hennar uppfyrir.

Það var ekki fyrr en ég rakst á svona krukku í búð um daginn og keypti að ég komst að hinu sanna. Það þarf ekki að setja klaka, það er nóg að setja vatn í botninn.

Eins og ég lofaði aðdáendum mínum í síðustu færslu ætlaði ég að láta þá vita hvernig gengi að kaupa stuttbuxur og segja fréttir af ryksugumálum. Það er mér sönn ánægja að greina frá því að ég festi kaup á stuttbuxum á útsöluslánni í búðinni sem ég man ekki hvað heitir. Hef ekki enn komist í að kanna með ryksuguna. Læt vita hvernig það gengur.

Flokkar: Dægurmál

Sunnudagur 20.9.2009 - 08:40 - FB ummæli ()

Léleg ryksuga

Eins og aðdáendur mínir vita varð ég fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu á föstdag að brjóta flösku á eldhúsgólfinu. Þegar gólfið var þornað sótti ég ryksuguna inn í skáp og hóf ryksugun þess. Aldrei hef ég ryksugað með háværari og verri ryksugu en þessari. Ryksugur eru ekki meðal þeirra hluta sem Bandaríkjamenn eru góðir í að framleiða. Það var sama hvað ég rúllaði oft yfir gólfið, ekki vildu glerbrotin upp í belginn. Þó er á henni bursti sem snýst og á að gefa manni tilfinningu fyrir nú sé aldeilis verið að hreinsa. Ryksugan á fullu át þó enga drullu. Það var ekki fyrr en Heiðrún sópaði gólfið með kústi að flest glerbrotin náðust upp. Þegar ég var lítill gat maður farið með brotna flösku og fengið nýja ef tappinn var á. Ætli sú regla gildi líka hér? Best ég aki niður til Mexíkó þar sem Corona er framleiddur og skili brotna flöskustútnum. Hvert og eitt eintak af bjór er að vísu miklu meira virði á Íslandi en í Bandaríkjunum. Það er vegna þess að íslenska ríkið leggur á þá gjöld til að geta þanið sig enn meira út. Það er sorglegt. Það er ástæðan fyrir því að fólk fer ekki út á bari fyrr en undir miðnætti. Ég ætlaði að vísu að kaupa Corona Light, en var svo utan við mig í búðinni að ég keypti Corona Extra. Corona Light er miklu betri. Hann er líka með færri hitaeiningar sem er gott fyrir ístrubelgi eins og mig. Ístruflanir eru viðvarandi vandamál. Varðandi ryksuguna þá er ég að hugsa um að fara í leiðangur og kanna verð á venjulegum ryksugum (þær sem líta út eins og stórar tölvumýs). Hugsanlega fást þær á góðu verði í Goodwill. Ég er að hugsa um að kaupa stuttbuxur í leiðinni. Hlakka til að segja frá því. Fylgist með á blogginu.

Flokkar: Dægurmál

Laugardagur 19.9.2009 - 00:02 - FB ummæli ()

Ekki að verða Moggaritstjóri

Ég hef heyrt því fleygt að ég verði ráðinn næsti Moggaritstjóri. Það er ekki rétt.

Það er þó etv. ekki tilviljun að sama dag og ég gerist Eyjubloggari er ritstjórinn rekinn, en ég endurtek að ég er ekki að verða ritstjóri Morgunblaðsins. Takk samt fyrir að nefna nafnið mitt.

Nú getur blaðið hætt að gefa ESB sinnum vaselín með áskriftinni.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 18.9.2009 - 06:20 - FB ummæli ()

Jay Leno

Á mánudaginn var byrjaði nýr þáttur með Jay Leno í sjónvarpinu. Jay Leno er alltaf jafn fyndinn finnst mér og ég er þakklátur fyrir það að þátturinn nýji er eiginlega alveg eins og gamli þátturinn. Eini munurinn, fyrir utan að hann er klukkustund fyrr á dagskránni – klukkan 22 – er að grínarinn góði er ekki lengur við skrifborð heldur í Maður er nefndur stól og gestirnir sem koma í þáttinn verða að gera eitthvað annað en bara mæta og röfla og horfa á sýnishorn úr myndinni sinni. Holdgervingur kapítalismanns, Michael Moore, kom í gær og kynnti nýju myndina sína Kapítalismi, ástarsamband, og söng bara þrælvel, einn og óstuddur, lag Bob Dylans, Tímarnir breytast.

Nú er ég að horfa á þáttinn þar sem enginn annar en Eric Clapton leikur á gítarinn, svakalegt sóló í gangi akkúrat núna. Það gekk þó ekki þrautalaust að horfa á þáttinn, vegna þess að á slaginu tíu þegar ég var nýsestur fyrir framan sjónvarpið, hringdi Heiðrún og leiddist í vinnunni, en eins og allir aðdáendur Jay Leno vita er uppistandið í upphafi yfirleitt fyndnasti hluti þáttarins. Mér tókst að kveðja Heiðrúnu ótrúlega fljótt, en þá vildi svo illa til að ég missti nýopnaðan Corona Extra bjórinn á gólfið og það sullaðist meira og minna allt úr flöskunni. Sem betur fer átti ég Shamwow! tusku í skúffunni og þurrkaði bjórinn upp á örskotsstundu, en sú tuska er algert undur og getur haldið hátt í lítra af vatni án þess að nokkuð leki úr henni. Ég flýtti mér í ísskápinn til að sækja annan, en fyrir algeran klaufaskap rak ég flöskuna í hilluloftið og missti hana á gólfið svo hún brotnaði. Þá kom töfratuskan sér aldeilis vel. En ég klikkaði eiginlega á að sópa fyrst upp glerbrotin áður en ég þurrkaði upp bjórinn því glerbrotin festust í tuskunni og gerðu mér erfitt fyrir að vinda hana. Nú er ég að bíða eftir að gólfið þorni svo ég geti ryksugað það. Þriðji bjórinn í kvöld er nú búinn þótt ég hafi aðeins drukkið einn. Ég ætla að nota tækifærið á þessum vettvangi til að kvarta undan limeinu sem ég keypti í Costco. Pokinn var greinilega kominn fram yfir síðasta söludag. Costco, munið að setja ekki gamalt lime í búðina.

Flokkar: Menning og listir

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur