Sunnudagur 9.3.2014 - 15:35 - FB ummæli ()

Tollmúrar á bjór

Þótt bjórbannið hafi verið einhver hallærislegasti og heimskulegasti kafli Íslandssögunnar (og er þá af nægu að taka) hafði bannið eitt gott í för með sér. Það eru engir verndartollar á bjór – enn. Ef Íslendingar hefðu verið svipað sinnis og Danir og leyft bjórnum að njóta sín en ekki ákveðið að halla sér að sterkari drykkjum (til að vernda æskuna) væru hér eflaust öflug framleiðendasamtök með ítök í stjórnmálaflokkunum og tollmúrar á bjór. Þá væru svör við óskum um meira úrval eitthvað á þessa leið: Við verðum að vernda höfuðatvinnuveginn fyrir ódýrum, niðurgreiddum bjór frá útlöndum sem framleiddur er við vafasamar aðstæður. Þetta snýst um matvælaöryggi! Það er hér kerfi sem við þurfum að vernda.

Tæland er gott dæmi um muninn á frelsi og ófrelsi. Tælenskur matur er einhver besti matur í heimi. Gríðarlega fjölbreyttur, hollur og vinsæll um gervallan heim, enda reyndi enginn að stjórna matarmenningu þeirra að ofan (ólíkt okkur). En úrvalið af tælenskum bjór er sama og ekkert. Tvær tegundir eru ráðandi. Það er vegna þess að leyfi til bjórframleiðslu voru takmörkuð. Tveir framleiðendur ráða markaðnum. Og til að vernda innlenda og ómissandi gæðabjórinn sinn hafa Tælendingar reist tollmúra.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 7.11.2013 - 18:46 - FB ummæli ()

Eignarétturinn heilagi

Ég vona að það fari ekki framhjá neinum að gjaldeyrishöftin á Íslandi eru árás á einn af hornsteinum vestræns lýðræðis. Eignaréttinn. Slík árás er ef til vill réttlætanleg um skamman tíma, eins og til dæmis í þá mánuði sem þau áttu upphaflega að vara þegar þau voru sett. Allt umfram það er kjánaskapur.

Með gjaldeyrishöftunum setur íslenska þjóðin sig á stall með ríkjum sem hún ber sig aldrei saman við. En þótt Íslendingar geri það ekki, gera aðrir það. Þessir „aðrir“ eru meðal annarra aðilar í viðskiptalífi heimsins sem hafa eyru og augu opin fyrir tækifærum. Verðmætasköpun á Íslandi er mjög lítil um þessar mundir og má skrifa þann slaka árangur að stórum hluta á gjaldeyrishöftin. Engin með réttu ráði leggur fé í fjárfestingu í landi sem kemur þannig fram við stjórnarskrána sína og alþjóðlega samninga um frjálst flæði fjármagns.

Nú eru 168 dagar liðnir síðan ríkisstjórnin tók við og höftunum hefur ekki verið aflétt. Það syrtir meira og meira í álinn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 27.7.2013 - 00:45 - FB ummæli ()

Já, en hvað með höftin?

Hvurslags aumingjaskapur er það að hafa það að stefnu að gera „lífið innan haftanna bærilegra“? (Sbr. Birgir Tjörvi Pétursson í Mbl. í dag föstudag 26. júlí.) Gera þessir menn sér ekki grein fyrir að höftin eru brot á mannréttindum, stjórnarskránni og EES-samningnum? (Ætlar enginn að kæra þetta?) Höftin koma í veg fyrir að Íslendingar geti tekið eðlilegan þátt í viðskiptalífi heimsins og skapað nauðsynleg verðmæti til að koma efnahag landsins á réttan kjöl. Höftin eru meira að segja svo gáfuleg að Íslendingar sem eiga lögheimili utan Íslands geta ekki selt nokkur hlutabréf í íslenskum fyrirtækjum fyrir krónur til að borga reikninga á Íslandi (jafnvel þótt þau hafi verið keypt fyrir mörgum árum). Viðkvæðið er: „Það má ekki selja bréfin, þau skilgreinast sem skuld Íslands við útlönd.“ Ríkisstjórnin verður – VERÐUR – að afnema þau að fullu og það strax. Annars á hún ekki von á góðu frá kjósendum í næstu kosningum því í höftum dregst landið aftur úr og eykur heift og vonleysi þeirra sem ekki verða farnir (fjölgun í hópnum „Virkir í athugasemdum“ er óumflýjanleg ef svo fer fram sem horfir). Ef það þarf að kasta krónunni þá verður að hafa það. Höftin eru stærsta vantraustsyfirlýsing á íslensku krónuna sem um getur.

Það þarf ekki að gera lífið bærilegra undir höftum, það þarf að aflétta höftunum svo lífið verði bærilegt.

Það þarf ekki að gera lífið bærilegra undir höftum, það þarf að aflétta höftunum svo lífið verði bærilegt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 1.5.2013 - 15:31 - FB ummæli ()

Blóðnasir 1. maí.

ÚTI. KÆNUGARÐUR – DAGUR
1. maí. Kröfuganga svo langt sem augað eygir. Skilti, borðar með slagorðum: ÖREIGAR ALLRA LANDA SAMEINIST, KAPÍTALISMINN ER DAUÐUR, rauð flögg með hamri og sigð. Lenín, Stalín, Marx ofl.

Einn þátttakendanna finnur eitthvað leka úr nefni sér. Það er BLÓÐ. Hún er með BLÓÐNASIR. Hún lítur á næsta mann. Hann er líka með BLÓÐNASIR. Þau líta í kringum sig. ALLIR eru með blóðnasir. ÖRVÆNTING grípur um sig…

Svona var 1. maí í Kænugarði 1986 þegar kjarnorkuslysið í Chernobyl átti sér stað. Yfirvöld höfðu þaggað málið niður og ekki birt fréttir um það í fjölmiðlum með þeim afleiðingum að „baráttuganga verkalýðsins“ breyttist í martröð. Mögnuð sena en að sama skapi ekki geðsleg.

Mér finnst það ekki boða gott fyrir náttúruvernd ef það á að breyta þessum degi í baráttudag fyrir hana. Ekki tókst vel til fyrir verkalýðinn. Amk. ekki í löndum verkalýðsins.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 26.11.2012 - 17:07 - FB ummæli ()

Jeg gef ykkur 6 mánuði

Danirnir stóðu sig vel í föðurlegum umvöndunum gagnvart Íslandi misserin fyrir hrun. En hvernig var ástandið hjá þeim sjálfum? Fyrir um það bil mánuði datt mér þessi skopteikning í hug. Fréttin um Danske Bank á Eyjunni í dag er gott tilefni til að birta hana.

„Jeg gef ykkur 6 mánuði,“ segir fulltrúi Danske Bank um Ísland.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 15.11.2012 - 05:17 - FB ummæli ()

Nú er mælirinn fullur

Ferð höfundarins

Augu Obama að bregðast við kvikmyndinni Titanic.

„Nú er mælirinn fullur“ fær aðra og nýja merkingu ef horft er til þess að líkaminn er í raun mælir. Mælir sem vegur gæði bíómyndarinnar sem hann horfir á í það og það skiptið. Líffæri líkamans eru blessunarlega laus við tilgerð og algerlega laus við gáfur. En líkaminn er engu að síður barmafullur af visku og innsæi. Skiptingin „góð“ eða „slæm“ á ekki við hér. Líffærunum er alveg sama um hana. Ef til dæmis áhorfandi kemur út af bíómynd þar sem hann grét, svitnaði í lófunum, fékk hnút í magann og hló, en segir að myndin hafi verið innantóm og léleg afþreyingarmynd, hefur hann þá rétt fyrir sér? Ekki ef marka má líkamann.

Hlátur áhorfenda í bíó er ef til vill skýrasta dæmið um líkamsviðbragð, en hvaða fleiri líffæri bregðast við sögum? Svefnstöðvarnar eru nærtækar. Ef kvikmynd er langdregin eða leiðinleg, nema hvort tveggja sé, bregst líkaminn oft við með því að slökkva á sér. Það gerist stundum þótt æðstistrumpurin (gáfumennið) í höfðinu vilji fyrir alla muni vaka. Vinur minn sem fór í sérstaka hópferð til Kanada til að vera viðstaddur frumsýningu á nýju Stjörnustríðsmyndinni,  Skuggaógninni  (The Phantom Menace) 1999, svaf yfir megninu af henni.

Stundum er sagt að blóðið hafi frosið í æðunum. Við hvaða aðstæður gerist það? Er það ekki annað orð yfir að vöðvar líkamans hafi orðið stjarfir, og þá af hræðslu eða spennu?

Það eru margskonar kirtlar í líkamanum sem seyta úr sér vökva við örvun. Adrenalínframleiðslan fer ósjaldan á fullt á hasarmyndum. Hjartsláttur eykst, andardráttur verður örari, augun blikka oftar, hárið rís á húðinni og nasavængirnir þenjast út.

Ferð höfundarins

Líffærin segja sannleikann, er meðal þess sem fram kemur í bókinni.

Í Ferð höfundarins er fróðlegur kafli sem fjallar um líffæri líkamans og hvernig þau bregðast við sögum og list almennt. Höfundur bókarinnar, Christopher Vogler sagðist hafa lært að nota líkamann sem mæli um gæði þeirra kvikmyndahandrita sem hann vann við að lesa yfir. „Ég treysti æ meira á visku líkamans við að meta styrk sögu,“ skrifar Vogler. „Góðu sögurnar höfðu þau áhrif á skrokkinn að hann hresstist við og líffærin kvikuðu til lífsins hvert af öðru. Hann varð árvakur, léttur og glaður og dældi vellíðunarvökva til heilans.“

Það væri trúlega öllum hollt að hlusta meira á líkamann vegna þess að hann er ekki eins vitlaus og hann lítur út fyrir að vera.

Flokkar: Menning og listir

Fimmtudagur 8.11.2012 - 19:19 - FB ummæli ()

Ferð höfundarins 2. útg. komin út

Christopher Vogler

Rögnvaldur Skúli Árnason listamaður teiknaði myndirnar en Björn Hermann Jónsson auglýsingateiknari hannaði kápuna.

Ferð höfundarins 2. útgáfa eftir Christopher Vogler er komin út á íslensku.

Það eru 150 bls. af nýju efni í þessari útgáfu, meðal annars greinar um kvikmyndirnar TitanicReyfara, Með fullri reisn og Stjörnustríðsbálkinn, og ritgerðir um kaþarsis, póla og Rumputusk eða Hrossabrest eins og hann hét í gamla daga. Rumputuski kemur við sögu í kafla sem heitir „Sögur eru lifandi verur“. Rumputuski hjálpaði, eins og frægt er orðið, stúlku að spinna gull úr stráum svo hún yrði ekki höfðinu styttri. Í laun vildi hann lítilræði; fyrsta barn hennar. Stóð hún við samninginn?

Kaflinn „Viska líkamans“ er einkar áhugaverður. Líffærin bregðast við sögum og þau viðbrögð eru engin látalæti eða misskilningur og síst af öllu „gáfumannsleg“ sem er næsti bær við misskilning eða eitthvað þaðan af verra. Hrollur sem hríslast um líkamann eða kökkur í hálsinum eru óvéfengjanleg skilaboð um að saga sé góð, eða að minnsta kosti áhrifarík.

Bókin er í handhægu kiljuformi og er prýdd fjölda ljósmynda úr kvikmyndum sem varpa ljósi á viðfangsefnið. Kaflarnir eru skreyttir ákaflega fallegum goðsögulegum teikningum eftir listakonuna Michele Montez, en hún lést fyrir aldur fram úr brjóstakrabbameini. Teikningar Michele eru og í ensku útgáfunni.

Eins og margir þekkja er Ferð höfundarins dregin af verkum goðsögufræðingsins Josephs Campbell. Hún sýnir hvaða aðferðum sagnaþulir á borð við Steven Spielberg og George Lucas hafa beitt við að semja sögur, hvernig kvikmyndir þeirra endurspegla goðsögulegan arf sem borist hefur milli kynslóða frá upphafi vega.

Bókin er afar hagnýt þeim sem fást við ritsmíðar og unna góðum sögum og kvikmyndum. Hún afhjúpar hið dulda mynstur sem býr í goðsögunum, mynstur sem varpar ljósi á líkamsbyggingu mannssálarinnar.

Bókin sýnir rithöfundum og kvikmyndagerðarmönnum hvernig söguþráður er byggður upp og við hvaða aðstæður persónur bera grímur stofngerðanna, til dæmis fórnarlambsins eða elskhugans. Tekinn er fjöldi dæma úr kvikmyndum og goðsögum, meðal annars norrænum.

Frá því fyrsta útgáfan kom út 1997, hef ég öðru hvoru frétt af fólki sem tekið hefur ástfóstri við bókina og jafnvel haft hana langtímum saman í pússi sínu eins og farsíma eða húslykla. Það er ánægjulegt. Ég vona svo sannarlega að þessi nýja útgáfa falli í kramið hjá lesendum, ekki síst yngri kynslóðum, og að hún verði til þess að auka lífsskilning og víkka sjóndeildarhring þeirra eins og hún gerði hjá mér þegar ég var yngri og vitlausari.

Ferð hetjunnar er ósjaldan frá vanþroska til þroska.

Flokkar: Menning og listir

Þriðjudagur 17.4.2012 - 05:07 - FB ummæli ()

Nóbelshagfræðingur um krónuna

Roert Mundell

Robert Mundell prófessor í hagfræði við Columbia háskólann í New York hlaut Nóbelsverðlaunin fyrir rannsóknir sínar á heppilegri stærð myntsvæða (e. Optimal Currency Areas). Útvarpsþátturinn Planet Money sem er framleiddur af National Public Radio í Bandaríkjunum (sambærilegt við RÚV) spjallaði við Robert sl. föstudag í þætti sem heitir: „Should Iceland kill the krona?“ Hluti af spjalli þeirra fer hér á eftir (í þýðingu minni):

David Kestenbaum: „Er Ísland of lítið til að halda úti eigin gjaldmiðli?“

Robert Mundell: „Ég tel það afar erfitt, það er mjög erfitt að stjórna gjaldmiðli í svo litlu landi.

Baldur Héðinsson: „Hann sagði vandamálið vera það að ef þú ert lítill, geta markaðirnir leikið þig grátt.

Robert Mundell: Lítil lönd standa frammi fyrir þeirri hættu að ofurríkir einstaklingar, Carlos Slim, Bill Gates eða sambærilegir, gætu keypt upp allan gjaldmiðilinn.

David Kestenbaum: „Eða framkvæmdastjóri lífeyrissjóðs í Kaliforníu?“

Robert Mundell: „Já, gæti keypt upp gjaldmiðilinn og eyðilagt [ógreinilegt]. En það er mjög óvenjulegt.“

David Kestenbaum: „Hann sagði að það myndi ekki gerast í raunveruleikanum, en það setur á vissan hátt málið í samhengi, ekki satt? Ef heimurinn fær örlítið meiri áhuga á Íslandi en venjulega og örlítill hluti af fjármagni heimsins flæðir til Íslands, getur það haft stórkostlegar afleiðingar á krónuna. Til dæmis, segir hann, að í þenslunni hrúgaðist fé til Íslands og krónan styrktist. Styrktist mjög mikið.

Baldur Héðinsson: „Já, almenningur á Íslandi keypti dýra innflutta bíla. Fjölskyldan mín fór í ferðalög til útlanda. Við höfðum það öll mjög gott.“

David Kestenbaum: „En, þegar kreppan skall á, hraðaði fjármagnið sér snarlega úr landi og öllum fannst þeir vera mjög, mjög fátækir. Þetta, segir Bob Mundell vera eina ástæðu þess að efnahagurinn er í rúst um þessar mundir. Landið er með mjög lítinn gjaldmiðil. Stærra hagkerfi með stærri gjaldmiðil væri öruggara.

Robert Mundell: „Því stærra sem landið er, þetta er eins og stöðuvatn. Hverskonar áfall, stór steinn sem fellur í stórt vatn, hefur ekki nein áhrif. En stór steinn sem fellur í litla tjörn myndar mikla gusu. Áhrifin eru hlutfallslega miklu meiri. Það er málið með stærðina.“

(David Kestenbaum er fréttamaður á Planet Money. Baldur Héðinsson er Íslendingur sem var um tíma í starfsþjálfun (intern) í þættinum og er nokkurskonar fréttaritari Planet Money á Íslandi.)

Þáttinn má hlusta á í heild hér.

Hér er þetta sama spjall á enskri tungu:

David Kestenbaum: „Is Iceland too small to have its own currency?“

Robert Mundell: „I think it is very difficult to do it, it is very difficult to manage a currency in a small country like that.“

Baldur Héðinsson: „He said the problem is that If you are small, it is easy to get pushed around by the markets.“

Robert Mundell: „If you have a very small country, one of the big wealthy people in the world, Carlos Slim or Bill Gates or someone like that, could buy up the whole currency.“

David Kestenbaum: „Or some pension fund manager in California?“

Robert Mundell: „Yes, buy up the currency and destroy (ógreinilegt). But you don’t get that normally.“

David Kestenbaum: „That wouldn’t actually happen, he said, but that sort of sets the scale of the problem, right? If the world gets slightly more interested in Iceland and a tiny bit of the worlds money flows into Iceland, that can have a huge effect on the value of the krona. For example, he says, during the boom money rushed into Iceland and the krona appreciated. It got a lot stronger.

Baldur Héðinsson: „Yes, people in Iceland bought expensive imported cars. My family took trips abroad. We all lived a very good life.“

David Kestenbaum: „However, when the crisis hit, a lot of that money rushed out of Iceland and everyone felt really, really poor. This, Bob Mundell says is one reason your economy is a wreck right now. It has a very small currency. Larger economy with larger currency would be safer.

Robert Mundell: „The bigger you are, it’s like a lake. Any kind of shock, a big stone coming into a lake, a big lake doesn’t have any effect, but coming into a small pond it has a big splash. So the effect is proportionally high, and that is the issue of size.“

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 12.4.2012 - 04:48 - FB ummæli ()

Bjargvættinum bjargað

Krónan er sannkölluð ofurhetja.

Það fer ekkert á milli mála að íslenska krónan bjargaði öllu sem bjargað varð í hruninu. En svo krónan gæti bjargað okkur, þurfti fyrst að bjarga krónunni. Innrita á Landspítalann og tengja við járnlunga og gervinýra, skipta um lifur, heiladingul og gangráð, setja aftur í fitusog og gefa slakandi og örvandi næringu í æð. Þessar mikilvægu björgunaraðgerðir eru kallaðar höft til einföldunar. Meðan krónan er að jafna sig á björguninni hafa góðir menn tekið að sér að hjúkra henni og munu hugsanlega þurfa að gera það eitthvað áfram.

Það var mikið lán hve krónan var vel á sig komin líkamlega fyrir aðgerðirnar, annars hefði hún ekki lifað þær af. Einu aukaverkanirnar sem greindar verða — og það verður að teljast ótrúlega lítið — er að krónan er svolítið rugluð. Það er eins og hún hafi bætt við sig persónuleikum. Fyrir voru náttúrlega þessir tveir sem hún hefur flakkað á milli í þrjátíu ár, 1) Lánakróna og 2) Launakróna, sem illa gengur að lækna hana af. Færustu geðlæknar landsins, sem hafa verið með hana til meðferðar, hafa greint tvo persónuleika til viðbótar: 3) Aflandskróna og 4) Útboðskróna.

Læknarnir skilgreindu persónuleikana í greininni „Fjögur andlit Krónu“ sem birtist nýlega í virtustu læknatímaritum heims. Helstu niðurstöður þeirra eru þessar:

  1. Lánakróna. Í þessum ham er hún yfirlætisfull og frek og veit allt manna best. Hún reynir að fresta öllum hlutum eins lengi og kostur er vegna þess að hún veit að á meðan hækkar verðtryggingin.
  2. Launakróna. Í þessum ham er hún bljúg og þæg og lætur allt yfir sig ganga og fagnar hverri nýrri krónu sem prentuð er sem væri hún gamall vinur. Fréttum af nýjum tíuþúsundkrónaseðli tók hún svo vel að hún fór með kvæði um krónuna sem hún hafði ekki farið með síðan tvö núll voru fitusogin af henni.
  3. Aflandskróna. Þegar hún er í þessum ham er sjálfsvirðingin engin og það þarf að setja hana í spennitreyju og binda ofan í rúmið svo hún fari sér ekki að voða. Meðan hún gekk laus klæddi hún sig í efnislítil klæði og falbauð blíðu sína fyrir smánarlega upphæð í skuggalegasta hverfinu í Hamborg.
  4. Útboðskróna. Í þessum ham er hún í krónísku kvíðakasti og nagar neglurnar á sér niður í kviku. Á nóttunni þylur hún heilu kaflanna úr fræðum Marx utanbókar og rökræðir þess á milli við sjálfa sig um Fylkinguna og Trotsky. Á daginn miklar hún allt fyrir sér og hefur stórkostlegar efasemdir um eigið ágæti.

Einhverjir kynnu að halda að eins sjúk og hún var gæti krónan tæplega bjargað miklu. Það er misskilningur. Hún bjargaði atvinnulífinu í heild sinni og kom í veg allir nema ríkisstarfsmenn misstu vinnuna með því að gengisfella stórkostlega laun þeirra sem þó höfðu vinnu. Það er ekki lítið afrek af helsjúkri hetju. Atvinnuleysi á Íslandi er ekki nema 6,9% (ef frá er talið fólkið sem flutti burt í atvinnuleit, en það skiptir ekki máli vegna þess að það getur étið það sem úti frýs). Til samanburðar má geta þess að atvinnuleysið í Evrópusambandinu er 10,1% og í Bandaríkjunum 8,3%. Munurinn er sláandi eins og allir sjá.

Alþjóðlegir fjárfestar, sem á mannamáli eru kallaðir fólk með peninga sem langar að ávaxta þá, munu að sjálfsögðu vilja flykkjast hingað eftir að þeir sjá hve vel er búið um krónuna og efnahagslífið. Það er víst svo auðvelt að reka alþjóðleg fyrirtæki á Íslandi um þessar mundir, ef eitthvað er að marka Össurarmenn. Og sjáið Samherja og alþjóðleg dótturfyrirtæki hans. Þau eru mjög áhugsöm um að stunda viðskipti á Íslandi meðan krónan er í læknismeðferðinni. Með þessu áframhaldi verður Ísland hrein paradís á jörðu og skjaldborgin loksins verða að veruleika.

Fróðlegt væri að heyra frá mönnum í stjórnarandstöðunni hvort þeir treysti sér til að setja krónuna á göngudeild ef þeir komast til valda. Það myndi hjálpa kjósendum að ákveða sig hvað á að merkja við á kjörseðlinum, að minnsta kosti mér. Þótt allir Íslendingar sem einn séu stoltir af krónunni sinni þá getur verið örlítið lýjandi að hafa hana sjúka lengi, ég tala nú ekki um ef persónuleikaflakkið heldur áfram. Mun hún geta gengið óstudd í framtíðinni?

Matador-peningar eru ekki verri gjaldmiðill en hver annar.

Ekki að ég sé að leggja það til, þá eru dæmi þess að tækin hafi verið tekin úr sambandi, einkum ef sérfæðingar úrskurða að sjúklingurinn sé sannarlega heiladauður. Enginn er að halda því fram nema örfáir galnir menn að krónan sé heiladauð. Hún er eingöngu að jafna sig og mun hressast um leið og nýi heiladingullinn byrjar að dingla. Mikilvægt er þó að meta stöðuna af yfirvegun og skynsemi. Kalt, eins og sagt er. Vona hið besta en vera viðbúin hinu versta. Hvaða kostir aðrir eru til dæmis í stöðunni ef hið óhugsandi gerðist? Myndi ekki vera skynsamlegast í þeirri stöðu að taka upp Matador-peninga? Ég á svo margar fallegar minningar frá því spili frá því ég var krakki. Það var hægt að kaupa götur og hús inni í lítilli og fallegri sápukúlu spilsins, algerlega laus við heimskuleg og vitlaus markaðslögmálin.

Alþjóðlegar myntir koma að sjálfsögðu ekki til greina fyrir ofurhagkerfi eins og Ísland. Þótt aðrar smáþjóðir hafi látið glepjast og hætt að halda úti eigin gjaldmiðlum, eins og Panama til dæmis, þá er engin ástæða fyrir Ísland að feta þá óheillabraut. Þar er allt flatt og leiðinlegt, sama og ekkert atvinnuleysi, engar gengisfellingar, aldrei nein spennandi áföll á borð við fjármálahrun og efnahagshrun. Bara hundleiðinlegur stöðugleiki og stórlega skert tækifæri fyrir stjórnmálamenn að bora göt fyrir kjördæmin sín. Hvílíkur hryllingur!

Að lokum langar mig að birta ljóðið um krónuna, en það var spilað af geisladiski á ársfundi Seðlabankans nýlega.

Krónan er komin að kveða burt snjóinn,
að kveða burt leiðindin, það getur hún.
Már hefur sagt mér, að senn komi Ólinn,
saksókn í dali og húsleit í tún.
Hún hefur sagt mér til syndanna minna,
ég svindli of mikið og vinni ekki hót.
Hún hefur sagt mér að vakna og vinna
og vonglaður taka nú höftunum mót.

Flokkar: Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 10.3.2012 - 17:13 - FB ummæli ()

Kannabisbúgarðurinn Ísland

Ekki má skera upp um of, það er kallað blóðmjólkun og arðrán í tungutaki sumra.

Skattar eru að sumu leyti eins og rentur sem verðmætasköpun gefur af sér. Eins og afurðir t.d. kannabisbúgarðs. Akurinn þolir að skorið sé upp af honum ákveðið magn afurða, t.d. 30%. Ef of mikið er skorið upp, t.d. 70%, nær stofninn ekki að halda sér við og visnar eða jafnvel deyr og gefur ekkert af sér framar. Tölur  frá Íslandi (t.d. innlend fjárfesting, úttekt séreignarsparnaðar) benda til þess að renturnar af íslenska kannabisbúgarðinum fari minnkandi. Plönturnar ná sér ekki á strik fyrir dugnaði og ósérhlífni bóndans.

Flestir vita að það er bannað að eiga og rækta kannabisplöntur á Íslandi, almannaheill krefst þess víst. En krefst almannaheill einskis þegar kemur að skatta- og gjaldahækkunum? Eru virkilega engin takmörk fyrir því hvað löggjafinn getur lagt á marga skatta og hækkað þá sem fyrir eru? Er ekkert í stjórnarskránni sem veitir honum aðhald? Er ekkert þar sem verndar tekjur fólks, sem það vinnur fyrir í sveita síns andlits, fyrir ásælni ríkisins? Er ekki verið að ganga á eignarrétt okkar æ meira? Verndar stjórnarskráin ekki eignarréttinn? Er í lagi að klípa hann smátt og smátt í burtu á nokkrum mismunandi stöðum, VSK, vörugjöld, tekjuskattur, eignaskattur, bílaeldsneyti (39 milljarðar af því einu 2012), kolefnisgjald os.frv, fyrir utan launaskerðinguna við sífallandi gengi gjaldmiðilsins?

Þessi skattheimta (rauða kakan) leggst ofan á aðra skattheimtu. Er það eðlilegt?

Í 72. grein stjórnarskrárinnar segir: „Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“

Og í 77. grein segir: „Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.“ Og: „Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu.“

„Eignarétturinn er friðhelgur.“ Það stendur skýrum stöfum. En það má skattleggja eignina. Og hvað er þá eign? Er það hús, íbúð, land eða seðlarnir undir koddanum? Hvað þýðir þá friðhelgi? Orðabókin: „Réttur (einstaklings) til að vera laus við utanaðkomandi afskipti eða ónæði.“ Hvernig getur skattlagning eignar átt rétt á sér þegar stjórnarskráin kveður sérstaklega á um að eignarétturinn sé friðhelgur? Það er engu að síður gert og það duglega. En gott og vel, skattlagningin er í nafni almenningsþarfa, það þarf að borga fyrrverandi stjórnmálamönnum eftirlaun, reka elliheimili, sjúkrahús, menntastofnanir, stjórnmálaflokka, forsetaembætti, greiða vexti af gjaldeyrisvopnabúrum, bora göng í gegnum fjöll og svo framvegis. En hvar eru þá mörkin? Hvað má taka mikið af eigninni áður en gengið er á friðhelgan eignaréttinn? 10, 20, 50, 99%?

Eignarétturinn er friðhelgur, nema þegar kemur að því að klípa hann smátt og smátt í burtu með sköttum og gjöldum.

Stjórnarskráin sem verndar friðhelga eignaréttinn veitir okkur sem sagt enga friðhelgi fyrir því til dæmis ef galinn stjórnmálamaður með galinn (eða kúgaðan) þingmeirihluta á bak við sig ákveður að öll verðmætasköpun í landinu skuli vera eign ríkisins, skattar og gjöld séu hér með 100% af öllu. Hæstiréttur gæti hugsanlega komist að þeirri niðurstöðu að það samræmdist ekki almannahagsmunum að skattar væru 100%. Á móti myndi forsætisráðherra geta sagt að það sé sannarlega almannahagsmunir að skattarnir séu 100% vegna þess að þannig sé loksins hægt að fullkomna skjaldborgina sem ríkisstjórnin sé að slá um þjóðina svo smjör geti dropið af hverju strái og norræn velferð nái hámarki. Og farið sínu fram án tillits til réttarins, eins og reynslan sýnir.

Ég tel að Það þurfi að bæta við 77. greinina ákvæðum um hámark skatthlutfalls og skilgreiningu á hvað skattur er (t.d. að tekjur hins opinbera séu skattar, sama hvaða nafni þær nefnast). Það þarf að setja í plaggið að skattur opinberra aðila á einstaklinga megi t.d. aldrei fara samanlagt yfir 30% af heildartekjum, og 15% af tekjum fyrirtækja. Um þetta mætti kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslu meðfram þingkosningum, hver og einn myndi ákveða skatthlutfallið með því að skrifa það í auðan reit. Þá gæfist þjóðinni kærkomið tækifæri til að ákveða sjálf hve miklu af tekjum sínum hún ver til samfélagsins. Meðaltalið yrði hið nýja skatthlutfall. Fyrir slíka atkvæðagreiðslu myndi án efa myndast fjörleg umræða um ríkisfjármál, hvað er bruðl, hvað er óþarfi, hvað er nauðsyn og sérfræðingar myndu reikna út hve hlutfallið yrði að vera hátt til að þetta eða hitt væri á könnu ríkisins. Umræðan um Icesave-kosningarnar sýndi að þjóðin er miklu betur fær um að komast að skynsamlegri niðurstöðu en Alþingi (sem virðist í gíslingu nokkurra frekja, eins og glögglega mátti ráða af ræðum þingmanna sem mæltu Icesave frumvarpinu bót). Internetið hefur tryggt að margfalt fleiri sjónarmið í hverju máli njóta sín en áður. Sá tími er liðinn að samtryggingarfjölmiðill stjórnmálamanna RÚV geti stjórnað umræðunni, eða Morgunblaðið eða Fréttablaðið. Bloggheimar, netmiðlar og Snjáldra eru orðin að Alþingi íslensku þjóðarinnar, þar er fjörug umræða um landsins gagn og nauðsynjar alla daga.

Skattar þurfa að vera 100% svo það sé hægt að fullkomna skjaldborgina og norræna velferð.

Og í 72. greininni þarf að árétta að Alþingi þurfi að samþykkja alla skattheimtu eftir skilgreininguna. Eins og fyrirkomulagið er núna virðist vera hægt að færa skattheimtuna frá löggjafarvaldinu og í hendur framkvæmdavaldsins og fyrirtækja í opinberri eigu án þess að nein viðvörunarljós blikki. Um það var nýlega fjallað í Vefþjóðviljanum. Holræsagjaldið (skítaskatturinn svokallaði) er nú orðinn að fráveitugjaldi í umsjón Orkuveitunnar.

Nauðsynlegt er að fara í saumana á þessum grundvallarmálum, málum sem virðast ekki hafa lotið neinni stjórn hingað til og bara vaxið og bólgnað út, eins og aukning ríkisútgjalda undanfarið ber glögglega með sér. Mikilvægt er að þjóðin taki þátt í þessari vinnu og ákveði sjálf hvað er fyrir bestu í þessum efnum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur