Kæra Önnu Kristínar Ólafsdóttur á hendur forsætisráðuneytinu vekur mikla furðu.
Anna sótti ásamt fleirum um starf skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu. Skipuð var fagnefnd sérfræðinga til að úrskurða um hæfni umsækjenda um starfið.
Anna Kristín lenti í 5. sæti í hæfnismatinu en karlmaður sem var í 1. sæti var ráðinn. Nú vill svo til að Anna Kristín er þekkt sem Samfylkingarkona.
Hvað hefi gerst ef ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur hefði ráðið flokkssystur hennar sem hafði hafnað í 5. sæti í hæfnismatinu? Tekið hana framfyrir fjóra sem töldust hæfari. Allt hefði orðið stjörnugalið. Eðlilega!
En auðvitað réð ráðuneyti Jóhönnu þann sem var talinn hæfastur. Jafnvel þó um karlmann væri að ræða.
Hvernig gat það þá gerst að Samfylkingarkonan í 5. sæti drægi ráðuneytið fyrir dóm og krefðist 15,5 milljóna króna skaðabóta fyrir að hljóta ekki starfið?
Þar kemur súrrealisminn til sögunnar.
Kærunefnd jafnréttismála taldi sig þess umkomna að ógilda hæfnismat fagnefndarinnar og ákvað að sú í 5. sæti væri að minnsta kosti jafn hæf og sá sem var í 1. sæti. Með það fór Anna og kærði.
En er kærunefnd jafnréttismála ekki komin út fyrir sitt svið þegar hún gerist eins konar yfirmatsnefnd starfshæfnimats til allra starfa hjá hinu opinbera – á öllum fagsviðum? Svo virðist vera.
Við þyrftum að fá úttekt á starfsháttum Kærunefndar jafnréttismála. Fyrst þetta mál gat orðið svona undarlegt getur verið að víðar sé pottur brotinn í starfi nefndarinnar.
Ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur virðist hafa gert rétt í málinu, en Kærunefnd jafnréttismála fór langt út fyrir eðlilega starfshætti.
Fyrri pistlar