Mánudagur 16.03.2020 - 10:40 - FB ummæli ()

Atvinnulausir þurfa mest á aukinni vernd að halda

Í skammtíma efnahagskreppu eins og nú gengur yfir vegna Covid-19 veirunnar verða þeir sem missa vinnuna fyrir mestum þrengingum.

Þeir verða fyrir minnst 30% kjaraskerðingu með því að fara á atvinnuleysisbætur sem eru einungis 70% af fyrri heildarlaunum viðkomandi. Þær bætur eru einungis veittar í 3 mánuði og þá fara þeir sem áfram eru atvinnulausir á flatar bætur, sem nú eru einungis 289.510 kr. á mánuði miðað við 100% bótarétt.

Þá verður kjaraskerðingin miklu meiri.

Sá sem er t.d. með 580 þúsund krónur á mánuði í heildarlaun missir helming tekna sinna eftir fyrstu 3 mánuði í atvinnuleysi.

Það er gríðarlegt áfall sem setur framfærslu fjölskyldunnar í kreppu. Afborganir lána eða húsaleigu verða mikið vandamál.

Þeir sem missa vinnuna, að fullu eða að hluta, eru því alla jafna í mestum vanda. Þá þyrfti að verja betur en núverandi atvinnuleysistryggingakerfi býður uppá, ef menn vilja að þeir beri ekki hlutfallslega mestar byrðar af kreppunni, sem þeir eiga svo sannarlega ekki sök á.

Og hverjir eru alla jafna í mestri hættu á að missa vinnu á samdráttartíma?

Jú, atvinnuleysi eykst venjulega mest hjá láglaunafólki.

Þeir sem halda fullum launum sínum í gegnum kreppuna þurfa hins vegar enga aðstoð við afborganir lána eða annars í framfærslu sinni.

Nú þarf því ekki að huga sérstaklega að skuldabyrði hjá almenningi, ólíkt því sem var í kjölfar fjármálakreppunnar 2008. Líkur á miklu verðbólguskoti eru litlar. Vextir eru að auki óvenju lágir.

 

Hvað þarf að gera?

Það eru því fyrst og fremst þeir sem missa vinnuna sem eru í brothættri stöðu og þeir eiga að vera í forgangi.

Það er best gert með því að tryggja þeim betri atvinnuleysisbætur á meðan kreppan gengur yfir, sem færir þeim helst fullar tekjur áfram. Þá geta þeir og fjölskyldur þeirra haldið lífi sínu og skuldbindingum í eðlilegu horfi. Siglt áfallalaust í gegnum kreppuna – ef heilsan leyfir.

Til að þetta markmið náist þarf að hækka launahlutfall atvinnuleysisbóta fyrstu 3 mánuðina úr 70% af fyrri heildarlaunum í 100%. Einnig þarf að halda því opnu að lengja bótatímabilið á tekjutengdum bótum ef uppsveiflan eftir að faraldurinn er genginn yfir tefst eitthvað, t.d. úr 3 mánuðum í 5 eða 6. Loks mætti hækka þakið á tekjutengdu bótunum upp í jafnvirði meðallauna.

Þá væri einnig æskilegt að þeir sem þegar eru orðnir atvinnulausir fái hækkun á flötu atvinnuleysisbótunum, til dæmis úr 289.510 kr. í 317.000 krónur, til jafns við lágmarkslaunatrygginguna. Flötu bæturnar eru alltof lágar í dag.

Reynslan af áhrifum fjármálakreppunnar 2008 á fjárhagsþrengingar almennings í 30 Evrópulöndum sýnir skýrlega að þar sem atvinnuleysisbótakerfið var veikara fyrir þar jukust fjárhagsþrengingar almennings mest (sjá ítarlega umfjöllun um það hér). Það er því til mikils að vinna með því að efla atvinnuleysisbæturnar.

Íslenska atvinnuleysisbótakerfið í núverandi mynd er ekki nógu öflugt til að veita fullnægjandi vernd í atvinnuleysiskreppu.

Þegar um er að ræða skammtímakreppu er tiltölulega ódýrt fyrir ríkið að efla varnir atvinnuleysisbótanna til skamms tíma. Þar með væri launafólk varið á viðunandi hátt og samfélagið stæði sterkar eftir.

Slíkar verndaraðgerðir má vel tengja við heimild fyrirtækja til að færa fólk tímabundið í hlutastarf og fá það sem vantar uppá full laun greitt úr atvinnuleysistryggingasjóði, en slíkt úrræði ásamt lengingu bótatímabilsins gafst vel í kjölfar hrunsins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar