Benedikt Jóhannesson eigandi Frjálsrar verslunar sendir mér tóninn á Eyjunni í dag, vegna umfjöllunar um upplýsingar í tekjublaði Frjálsrar verslunar.
Fyrir utan útúrsnúninga og tal um önnur mál, staðfestir Benedikt það sem fram kemur í pistli mínum. Hann reynir hins vegar að gera lítið úr því að fjármagnstekjur séu ekki taldar með sem hluti af því sem kallað er “tekjur” í FV.
Hann véfengir heldur ekki að fjármagnstekjur séu mestar í tekjuhærri hópum og dreifist því mjög ójafnt.
Benedikt segir m.a.: “Frjáls verslun birtir ekki upplýsingar um tekjur hópa heldur um útsvarsstofn 3.000 einstaklinga”.
Ég spyr: Hvers vegna heitir blaðið þá “Tekjublað Frjálsrar verslunar”?
Hvers vegna er það sem þar birtist kynnt sem “Tekjur 3000 Íslendinga”? Er það ekki villandi, eins og ég segi?
Hvers vegna heitir blaðið þá ekki “Launablað Frjálsrar verslunar”, eða það sem réttara er “Útsvarsstofn Íslendinga“? Tekjur eru annað og víðara en laun eða útsvarsstofn.
Síðan segir hann: “Stefán og félagar hans hafa hins vegar óhikað blandað saman öllum fjármagnstekjum og launatekjum. Það er á skjön við alþjóðlegar skilgreiningar”.
Þetta er alrangt. Í algengustu tekjutölum OECD og Evrópusambandsins (heildartekjur fyrir skatta og ráðstöfunartekjur eftir skatta og bætur), sem og í tölum Hagstofu Íslands, eru fjármagnstekjur meðtaldar (en söluhagnaði hlutabréfa og annarra eigna er sleppt). Söluhagnaður er hluti fjármagnstekna, en ekki allar fjármagnstekjur!
Í alþjóðlegum rannsóknum á tekjuskiptingu er algengast að nota heildartekjur eða ráðstöfunartekjur og telja helstu fjármagnstekjur með. Það gildir um OECD, Evrópusambandið (Eurostat), Luxembourg Incomes Survey og um flesta fræðimenn á sviðinu. Sú leið sem Benedikt vill fara í mati á tekjuskiptingu er nær hvergi notuð.
Auðvitað er líka gagnlegt að skoða laun fyrir tiltekin störf. Það er bara annað viðfangsefni en tekjur og skipting þeirra.
Síðan er nær allt annað rangt sem Benedikt segir um tekjuójöfnuð, kannanir Hagstofunnar og skrif mín og félaga um það viðfangsefni.
Fjalla nánar um það síðar.
Fyrri pistlar