Á undanförnum árum hefur samfélag okkar gengið í gegnum breytingar sem hafa haft víðtæk áhrif á fjölskyldugerð og uppeldisaðstæður barna. Þetta er sambærileg þróun og hefur átt sér stað í öðrum vestrænum ríkjum. Margbreytileiki fjölskyldugerðar og hreyfanleiki í þeim skilningi að börn geta átt marga ólíka aðila sem gegna foreldra- og systkinahlutverki á bernskuskeiði sínu, hefur skapað nýjan veruleika sem horfast verður í augu við. Þessu til viðbótar hafa breytingar á sviði margmiðlunar og samskiptatækni haft djúpstæð áhrif á félagsleg tengsl og samneyti, vissulega skapað tækifæri til þroska fyrir börnin en líka ógnir og ný úrlausnarefni sem takast verður á við ef ekki á illa að fara. Þróunin í þessum efnum er hröð og það er í senn skylda og áskorun fyrir foreldra og samfélagið allt að bregðast við henni til þess að tryggja börnum okkar eins hagfellda útkomu eins og frekast er kostur.
Meira fjármagn í börn er besta fjárfestingin
Mörgum börnum sem er hætta búin í því ölduróti sem að ofan greinir eru í viðkvæmri stöðu og sum njóta alls ekki þess atlætis og umönnunar sem tryggir þroskavænleg uppvaxtarskilyrði og vernd frá áföllum á bernskuárum. Hraði og krefjandi margmiðlunartækni nútímans getur ógnað tengslum við uppalendur sem eru hverju barni nauðsynleg. Gáum við ekki að okkur getur geðheilbrigði barna versnað og ýmsar vísbendingar benda til þess að þetta hafi þegar gerst, sbr. fjölgun ungs fólks á örorku vegna geðheilbrigði. Það er ekki einungis réttur barnsins að samfélagið bregðist við þessari þróun heldur er það skynsamlegt fyrir okkur sem þjóð að verja auknu fjármagni í þessi verkefni. Ekki síst í ljósi rannsókna sem leitt hafa í ljós að hver króna sem við ráðstöfum til að bæta hag barna sparar að minnsta kosti átta krónur síðar á lífsleiðinni – sé einungis litið til fjármagns.
Þurfum „snemmtæka íhlutun“
Hugtakið „snemmtæk íhlutun“ felur í sér tvíþætta merkingu. Annars vegar að börn fái aðstoð og hjálp sem fyrst á lífsleiðinni. Hins vegar að liðsinnið sé veitt áður en vandamálið ágerist með skaðlegum afleiðingum sem geta verið óafturkræfar.
Ein stærsta áskorun stjórnmálanna er að ávarpa þetta viðfangsefni með það fyrir augum að fanga börn í áhættu áður en það er um seinan, bregðast við með viðeigandi hætti og tryggja þeim stuðning og nauðsynlega þjónustu svo þau geti tekið virkan þátt í samfélaginu, námi, tómstundum og menningarstarfsemi á hverjum tíma, frá bernsku til fullorðinsára. Í því skyni að treysta þessi markmið þarf að endurskoða velferðarkerfi okkar svo unnt sé að bregðast við erfiðleikum barna með viðeigandi hætti og tafarlaust þegar þeir gera vart við sig.
Aukum samvinnu milli kerfa og brjótum niður ósýnilega múra
Forsendur slíkrar snemmtækrar íhlutunar eru að stofnanir samfélagsins sem koma að málefnum barnaleggi sig fram við að brjóta niður ósýnilega múra á milli ólíkra málaflokka, stjórnsýslustiga og stofnana og tryggja þverfaglega nálgun og samstarf allra sem bera ábyrgð gagnvart börnum. Frjáls félagasamtök hafa í mörgum tilvikum stoppað upp í götin í velferðarkerfinu með margháttuðum stuðningi við börn. Fram þarf að fara markviss umræða um verkaskiptingu og samstarf hins opinbera hjálparkerfis og frjálsra félagasamtaka um fyrirkomulag snemmtækrar íhlutunar. Mikilvægt er að í þessu samhengi sé hugsað út fyrir ramma hefðbundins þankagangs.
Náum samstöðu um breytingar
Undanfarið hef ég átt fundi með fjölmörgum félagasamtökum og einstaklingum um það sem að ofan greinir. Það hefur sannfært mig um að rétt sé að hefja formlega ferli sem miðar að því að innleiða í auknu mæli snemmtæka íhlutun í málefnum barna, þörf er á samhæfingu og samstarfi stofnana samfélagsins.
Sem ráðherra málefna barna og barnafjölskyldna tel ég rétt að endurskoða gildandi lagaumhverfi með það fyrir augum að styrkja stöðu barna, tryggja í auknu mæli snemmtæka íhlutun, treysta rétt barnsins í málsmeðferðinni sem og að bæta umgjörð barnafjölskyldna. Samhliða þessu er nauðsynlegt að endurskoða verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, einkum með hliðsjón af forvörnum, aðgerðum til að koma í veg fyrir ofbeldi gegn börnum og ennfremur ábyrgð á sérhæfðum úræðum fyrir börn og fjölskyldur.
Við þessa vinnu verður leitað fyrirmynda hjá þeim ríkjum sem fremst standa, enda óþarft að finna upp hjólið. Við erum fámenn, vel menntuð og fjársterk þjóð í alþjóðlegum samanburði og því eru góðar líkur á að okkur takist að komast í fremstu röð þjóða sem tryggja réttindi barna og velferð þeirra til framtíðar.
(Þessi grein birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. apríl 2018)