Sunnudagur 05.05.2013 - 01:18 - FB ummæli ()

Stærsti efnahagsvandi næstu ríkisstjórnar

Úrslit kosninganna eru býsna fróðleg. Sigmundur Davíð og Framsóknarflokkurinn eru auðvitað sigurvegarar kosninganna. Ég er líka ekki frá því að Bjarni Ben hafi unnið nokkurn varnarsigur, að minnsta kosti miðað við að flokkurinn var á tíma í frjálsu falli eftir að tepokahreyfingin tók yfir landsfund Sjálfstæðisflokksins. Það hlýtur því að teljast frekar líklegt að þessir tveir flokkar sameinist í stjórn og alls ekki óeðlilegt í ljósi niðurstöðu kosninganna.

Ég var í dálitlu pallborði hérna í New York um kosningarnar og var þá spurður hver yrði helsti efnahagsvandi sem næsta ríkisstjórn þarf að glíma við. Ég svaraði eitthvað á þessa lund: Helsti efnahagsvandi ríkisstjórnarinnar verður kosningaloforð tilvonandi stjórnarflokka Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Það er að segja ef þeim var alvara í aðdraganda kosninganna.

Það er erfitt að sjá hvernig stórtækar skattalækkanir Sjálfstæðisflokksins fara saman við skuldaniðurfellingu Framsóknar, án þess að ríkissjóður fari á hliðina. Ekki síst vegna þess að samhliða þessu sá ég eingöngu loforð um aukin – en ekki minni – útgjöld ríkissjóðs. Það verður mjög fróðlegt að sjá hvernig þetta fer. Að minnsta kosti verða eftirtekjur haglabyssu og kylfuleiðangurs ríkisstjórnarinnar á lendur erlendra kröfuhafa að vera ansi ríkulegar til að allt gangi upp. Það verður líka áhugavert að sjá hvað verður um skattlagninguna sem vinstri stjórnin tók upp á sjávarútveginn. Í ljósi þess hversu dýr kosningaloforðin eru, kann að vera snúið að sleppa takinu af þessari skattheimtu. Ekki síst af þeirri ástæðu að hún er afar hagkvæm og því óskynsamlegt að fella hana niður útfrá öllum eðlilegum sjónarmiðum við núverandi aðstæður.

Sjálfur vona ég – og reikna reyndar fastlega með – að ný ríkisstjórn taki svipaða stefnu og Besti flokkurinn eftir sinn kosningasigur í Reykjavík. Þá getum við líklegt fundið stærstu og stórkarlalegustu kosningaloforðin á svipuðum slóðum og ísbjörninn í húsdýragarðinum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur