Fimmtudagur 20.06.2013 - 14:17 - FB ummæli ()

Hótfyndni ríkisstjórnar um veiðigjöld

Sérkennilegt hefur verið að fylgjast með helstu röksemdum ríkisstjórnarinnar fyrir að fella niður um 10 milljarða veiðgjald á næstu tveimur árum þegar stefnir í harkalegan niðurskurð ríkisútgjalda.

Ástæðan á að vera sú að það sé svo afskaplega flókið að innheimta þessi afnotagjöld af útgerðarmönnum.

Hvað er svona flókið? Enginn hefur útskýrt það í mín eyru. Gjaldið virðist byggja á upplýsingum sem að veiðigjaldsnefnd ætti vel að geta aflað sér, fái hún til þess lagaheimildir, en á það virðist skorta. Það vandamál ætti að vera sáraeinfalt að leysa.

Það sýnir ekki mikla virðingu fyrir umræðu í landinu að snúa þessu máli upp í útúrsnúninga um að það sé svo voðalega flókið að innheimta gjöld af þessum toga.

Almennt sýnist mér þetta gjald í núverandi mynd vera ágætlega í samræmi við gjöld sem oft eru tekin af fyrirtækjum sem stunda nýtingu náttúruauðlinda (á ensku svokölluð ´Production sharing agreements´ sjá hér). Gjöld af þessu tagi eru algeng þegar í hlut eiga fyrirtæki sem nýta náttúruauðlindir með blessun ríkisins.

Við nýtingu náttúruauðlinda takmarkar ríkið sókn annarra í þessar auðlindir og skapar þannig rentu til þeirra sem nýtingarréttinn fá. Þá þykir almennt skynsamlegt að ríkið selji þennan rétt með einhverjum hætti, enda er ríkið að búa til verðmæti fyrir þessi fyrirtæki með því að takmarka aðgang annarra. ´Production sharing agreement´er ein útfærsla á þessari leið en í henni er fólgið að ríkið fái ákveðna hlutdeild í rentunni sem skapast. Uppboð er annað form og kannski einfaldara. (Hér í New York borg, til dæmis, þá takmarkar borgin fjölda leigubíla af ástæðum sem eru umdeildar. En þetta skapar rentu. Hérna þýðir þetta að þegar ný leyfi fyrir leigubíla akstur eru gefin út eru þau einfaldlega sett í uppboð og skapa þannig tekjur fyrir borgina, sjá t.d. hér. Með sama hætti mætti auðvitað setja fiskveiðikvóta á uppboð).

Mér sýnist að oft sé miðað við í ´production sharing agreements´ að 80 prósent rentunnar gangi til ríkisins og 20 prósent til fyrirtækisins sem réttinn fær, oftast er hér um olíu að ræða. Í íslensku löggjöfinni virðist þetta heldur hóflegra, því að mér sýnist að þar sé gert ráð fyrir að útgerðin fái í kringum 40 prósent í sinn hlut.

Á síðasta ári skilst mér — af fréttum að dæma — að hrein auðlindarrenta hafi verið í sögulegu hámarki (Einhvers staðar sá ég tölur á bilinu 60 til 80 milljarðar? Ábending um áreyðanlegar tölur væri vel þegin í athugasemdum). Því er spáð að hún verði enn hærri í ár. Er ákaflega ósannsgjarnt að eigandi auðlindarinnar fái einhvern hluta þessarar rentu? Myndi okkur þykja eðlilegt ef að vinir okkar Norðmenn gæfu rentu sína af olíunni úr Norðursjó beint til besta vinar aðal? Vegna þess að það sé svo voða flókið að reikna út hvað olía og vinnsla hennar kostar?

Og ætlar einhver að segja mér að það sé flóknara að skilgreina afnotagjöld veiða á fiski úr sjó, en þegar um er að ræða olíunýtingu, þar sem fyrirtæki þurfa að leggja upp í gífurlega háar fjárfestingar til mjög langs tíma (og stundum er borað lang undir sjó) og óvissan er gífurleg um heimtir og framtíðarverð vörunnar?

Nú kann vel svo að vera að til séu góð rök fyrir þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Gott og vel. En þá er lágmark að ástæður ríkisstjórnarinnar fyrir þessari 10 milljarða stefnubreytingu séu settar á borðið með skýrum rökum en ekki útúrsnúningum og hótfyndni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur