Föstudagur 25.03.2016 - 22:58 - FB ummæli ()

Forsætisráðherra og vanhæfni

Upplýsingarnar um fjármál forsætisráðherra Íslands eru stærstu tíðindi sem ég hef séð í íslenskri stjórnmálasögu síðan hrunið varð 2008. Viðbrögð stjórnmálanna og fjölmiðla eru prófsteinn á hvort íslenskt þjóðfélag einfaldlega ræður við að glíma við mál af þessu tagi, þar sem allir þekkja alla, og allt verður umsvifalaust sett ofan í persónulegar og pólitískar skotgrafir. Ég ætla að víkja hér að einum anga þessa máls, sem kom upp í fésbókarspjalli mínu við nokkra lögmenn íslenska í gærkvöldi sem ég ber mikla virðingu fyrir, en ég hef enn ekki náð botni í þessa hlið málsins, né heldur séð henni gerð fullnægjandi skil í íslenskum fjölmiðlum. Kannski lesendur geti hjálpað mér í þessu efni með ábendingum í athugasemdum.

Eitt af því sem stendur upp úr hjá mér, er að félag sem skrifað er á konu forsætisráðherra í Tortólueyju á kröfu á þrotabú bankanna sem nemur hálfum milljarði króna. Á sama tíma átti forsætisráðherra í vandasömum viðræðum við þessa sömu kröfuhafa. Þjóðarhagsmunirnir voru gífulegir, miklu stærri en í nokkruð öðru máli í íslenskri stjórnmálasögu. Svo virðist sem forsætisráðherra líti svo á að þetta hafi jafnvel verið hans helsta hlutverk í pólítík. Hann segir í Fréttablaðinu: “Ég held að menn geti viðurkennt að ég hafi leitt þessa umræðu og fylgt henni eftir.” (þ.e. um samninga við kröfuhafa).

Það fyrsta sem kom mér á óvart er hversu há þessi fjárhæð er. Af fréttum að dæma á Tortólafélagið eignir, umfram þessar kröfur á bankana, sem metnar eru á um það bil einn milljarð. Lýstar kröfur á þrotabú bankana eru því á við um helming allra núverandi eigna Tortólafélagsins sem virðist grunnurinn af auðæfum forsætisráðherra og frúar hans.

Það er rétt að staldra við og setja þessar tölur í samhengi. Mér af vitandi (þótt ekki hafi ég lagst í rannsóknarvinnu um þetta efni) hefur forsætisráðherra eingöngu starfað áður sem fréttamaður á Sjónvarpinu áður en hann fór inn á Alþingi, en mér skilst að hann hafi komið beint inn á þing úr ókláruðu framhaldsnámi. Ég geri ráð fyrir að tekjur hans hjá RÚV í samskonar starfi í dag borgi vel undir einni milljón á mánuði. Varlega áætlað, er því ef til vill sanngjarnt að halda því fram að þær tekjur sem hann fær nú sem forsætisráðherra á mánuði, um 1.5 milljón, eru líklega heldur hærri en hann mætti gera ráð fyrir ef hann hefði ekki hellt sér út í pólítík. Skiptir þetta máli?

Já, því þegar maður leggur mat á hagsmuni, er mikilvægt að hafa í huga hversu stórir þeir eru. Það segir sig sjálft. Í þessu tilfelli er um að ræða hálfa milljarða króna kröfu á þrotabú bankana, sem er upphæð sem jafngildir uppsöfnuðum launum forsætisráðherra í 27 ár (fyrir skatt). Tvennt er því ljóst. Í fyrsta lagi erum við að tala um stærðargráðu hagsmuna sem vega þyngra en öll þau laun sem ætla má að Sigmundur fengi yfir starfsævi sína haldi hann núverandi starfi. Í öðru lagi eru þessar kröfur, hálfur milljarður, á jafns við um það bil helming þess fés sem þetta tiltekna Tortóla félag á í öðrum eignum í dag. Í stuttu mál, hvernig sem málunum er snúið, og nú má beita ýmsum ráðum til að leggja mat á væntar ævitekjur osfrv. sem ég held að sé vel þess virði að skoða betur, blasir það við að þeir hagsmunir sem hér er um að tefla hafa raunveruleg áhrif á ævitekjur og auðævi fjölskyldu forsætisráðherra.

Það er erfitt að ímynda sér annað en að hagsmunir af þessari stærðargráðu hafi einhver áhrif á það hvernig hver maður lítur á silfrið. Því er hins vegar ekki að neita að það kann vel að vera að slíkt eigi alls ekki við um Sigmund Davíð. Hann hefur einmitt upplýst þjóðina sérstaklega um það í Fréttablaðinu í gær, að þvert á móti, hafi hann viljað lágmarka endurheimtur Tortólafélagsins úr þrotabúi bankana íslensku þjóðfélagi til heilla. En þá er rétt að staldra við og viðurkenna, að ef svo er, telst Sigmundur Davíð óvenjulega viljasterkur. Vegna þess hversu sjaldgæfur slíkur viljastyrkur er, og hversu erfitt er að leggja mat á niðurstöðu flókinna samninga eftir á, hafa flest lýðræðisríki í veröldinni tiltölulega strangar reglur og lög er varða hagsmunaárekstra og stjórnmál. Og almennt tel ég að það sé ekki prívat einkamál stjórnmálamannana sjálfra að leggja mat á hvort þessir hagsmunir skipti máli eða hvort frá þeim þurfi að segja. Í þessu tilfelli er málið sérlega alvarlegt, því að nánast öll íslensk stjórnmálabarátta frá hruni hefur í raun og veru hverfst um eina og aðeins eina spurning: Hvernig á að ganga frá uppgjöri hinna hrundu banka? Hver fær peningana? Allar ákvarðanir stjórnvalda hafa haft áhrif á úrlausn þessa máls.

Eins og ég sagði áður mótast sjónarhorn mitt að einhverju leiti af því að hafa búið í Bandaríkjunum síðustu 19 ár, þar sem stjórnkerfið er auðvitað talsvert frábrugðið. Allir ráðherrar bandarískir, sem og allir æðstu embættismenn, fara í gegnum viðamikla skattrannsókn IRS, og rannsókn á vegum FBI, þar sem meðal annars er farið vandlega yfir eignasöfn þeirra, áður en skipan þeirra er staðfest af öldungadeildinni. Það er jafnvel farið yfir atriði eins og til dæmis þau, hvort menn hafi sagt satt og rétt frá um ferilskrá sína og skólagöngu. Allt er þetta gert til að koma í veg fyrir hagsmunatengsl, og einnig það, að einhverjar upplýsingar séu til sem hægt sé að nýta sér gegn ráðherra til að hafa áhrif á embættisverk hans með hótunum um uppljóstranir um upplýsingar sem gætu reynst óþægilegar. Rannsóknir af þessu tagi eru mjög ítarlegar, og ég hef orðið vitni að nokkrum slíkum á ýmsum stigum bandarísks stjórnkerfis. Ég minnist þess að þegar Hank Paulson, sem var fyrrum forstjóri Goldman Sachs fjárfestingarbankans, var skipaður fjármálaráherra af George Bush voru allar hans eigur settar í “blind trust.” Eins og nafnið gefur til kynna þýddi þetta að hann hafði ekkert með eignastýringuna auðæva sinna að gera, og vissi ekki einu sinni um samsetningu þeirra. Ég held að upplýsingar af því tagi sem hér um ræðir hefðu því alltaf legið fyrir áður en forseti formlega skipaði ráðherra og þingið staðfesti þá skipan mála. Almennt held ég að menn séu betur vakandi fyrir hagsmunatengslum hérna, þótt því fari auðvitað fjarri að Bandaríkin séu fullkomin í þessu efni. Það er nú einmitt það sem drífur áfram vinsældir Bernie Sanders og að einhverju leiti Donald Trump´s.

Þegar ég starfaði við Seðlabanka Bandaríkjanna í New York þurfti ég til dæmis alltaf að víkja af fundum bankans ef málefni Lehman bankans komu upp, því að konan mín var við vinnu þar. Því fór fjarri að þeir hagsmunir væru af stærðargráðu af þessu tagi í hlutfalli við okkar eignir eða væntar ævitekjur. Ég minnist þess líka að sussað hafi verið á forseta bankans á fundi í miðju hruni, Timothy Geithner, sem síðar varð fjármálaráðherra Barak Obama, þegar hann ætlaði að segja einhverja skemmtisögu af viðskiptum sínum við Íslendinga. Var bent á að það væri Íslendingur á svæðinu og því ekki eðlilegt að slík mál kæmu til umræðu vegna hagsmunatengla (ég er ennþá afskaplega forvitinn um efni þessara sögu en hún hafði víst eitthvað með Davíð Oddsson að gera!).

Frá mínum sjónarhóli séð get ég einfaldlega ekki skilið hvernig þessi hagsmunatengsl geta samræmst íslenskum stjórnsýslulögum sem eiga víst að taka á hagsmunaárekstrum. Ég verð þó að taka skýrt fram að ég hef ekki neitt vit á lögum almennt, hvað þá heldur íslenskum, heldur miða við þann veruleika sem blasir við mér hérna úti.

Ég stóðst reyndar ekki mátið, og googlaði stjórsýslulög rétt í þessu. Þau eru hér. Þau eru stutt og laggóð og á kjarnyrtri íslensku. Þar segir um vanhæfnisástæður í II kafla, 3 gr. að aðili sé vanhæfur ef að “hann er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar.” Um um áhrif vanhæfis segir í II kafla, 4 gr: “Sá sem er vanhæfur til meðferðar máls má ekki taka þátt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn þess.”

Forsætisráðherra landsins lýsir því yfir í stærsta dagblaðið landsins um viðræður við kröfuhafa að “ég held að menn geti viðurkennt að ég hafi leitt þessa umræðu og fylgt henni eftir.” Einn þessara kröfuhafa var konan hans sem átti kröfu sem nam hálfum milljarði króna sem er verulegt hlutfall núverandi eigna þeirra hjóna, eða sem mælt sem hlufall af væntanlegum ævitekjum þeirra, hvernig sem málum er snúið. Viðræðurnar vörðuðu stærstu þjóðhagslegu hagsmuni í sögu landsins.

Það væri forvitnilegt að heyra í lögfróðum mönnum íslenskum um hvort þetta kveiki upp lagaleg álitaefni. Eins og ég segi, er ég í engri stöðu til að leggja mat á slíkt, því hvorki er ég lögfræðimenntaður, og að auki fer þetta væntanlega eftir íslenskri dómahefð sem ég hef enga þekkingu á. Þessi hlið málsins er lögfræðileg, en ekki pólitísk, og kemur í sjálfur sér ekkert þeim einstaklingi við sem hér um ræðir, né heldur því í hvaða flokki hann stendur. En ég hef enn ekki séð skýra greiningu á þessu atriði. Það er hlutverk fjölmiðla að upplýsa okkur um þetta.

En málið er auðvitað miklu stærra en að vera þröngt íslenskt lögfræðilegt álitaefni, og ekki vil ég gera lítið úr þeim þætti málsins. Mér finnst hann bara blasa meira við. Hin lögfræðilega spurning út frá íslenskum lögum sem ég þekki ekki vel er þrengri og er væntanlega auðveldara að svara án þess að pólitík komi þar mikið við sögu. Hins vegar hvernig brugðist er við af íslensku stjórnmálalífi, og ekki síst af fjölmiðlum, er fordæmisgefandi og mun hafa stór áhrif í framtíðinni fyrir íslenskt samfélag og stjórnmálalíf. Mér sýnist einnig á fréttum að mál þessi komi innan skamms til kasta erlendra stórmiðla því að rannsóknin á sér víst rætur erlendis frá. Við vitum ekki ennþá hvort þar komi fram nýjar upplýsingar en nú þegar liggja fyrir. Víst er, að forsætisráðherra telur það ekki vera sérlegt hlutverk sitt, að greina frá hagsmunatengslum sínum á nokkurn hátt, þannig að kannski eru ekki öll kurl komin til grafar. Það verður fróðlegt að bera sama fréttamat erlendra miðla við það sem við sjáum í íslenskum blöðum í dag.

Líklega er rétt að benda Alþingismönnum á það, hvar í flokki sem þeir standa, að þeirra næstu skref geta haft stór áhrif á efnahagslegan trúverðugleika Íslands til framtíðar, sem Íslendingar hafa eytt síðustu árum í að byggja upp með hörðum höndum eftir bankahrunið. Ég get sagt af eigin reynslu, að sá trúverðugleiki er ekki sérlega hár á alþjóðlegum vettvangi, og ég efast ekki um að slíkt hafi áhrif á viðskiptahagsmuni landsmanna. Því held ég að það væri skynsamlegt að reyna að persónugera ekki málið, heldur spyrja sig þeirrar spurningar hvernig eðlilegt sé að brugðist sé við af upplýsingum að þessu tagi út frá almennum og málefnalegum sjónarmiðum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur