Þriðjudagur 05.04.2016 - 22:15 - FB ummæli ()

Ekki meir, ekki meir

Dagurinn í dag er líklega einn sá skrítnasti sem ég hef séð í íslenskum stjórnmálum, og er þó af ýmsu af taka frá síðustu vikum. Forseti landsins hafnar forsætisráðherra beiðni um umboð til þingrofs, sem fréttir segja að forsætisráðherra hafi ætlað að nota til að kúga Sjálfstæðisflokkinn til stuðnings við sjálfan sig. En þá bregður svo við að forsætisráðherra sakar forseta lýðveldisins um lygar, að hann hafi aldrei beðið formlega um umboð af þessu tagi, og forseti svarar að bragði fullum hálsi.

Þá lýsir forsætisráðherra því yfir að hann ætli að víkja úr embætti til þess að Sigurður Ingi verði forsætisráðherra, sem ég les að njóti mest traust ráðherra samkvæmt þrjú prósentum kjósenda af núverandi ráðherrum í ríkisstjórn. Það er vandséð að þetta sé heppilegt til að byggja upp traust.

Nú les ég og heyri svo hér í fjölmiðlum úti Bandaríkjunum að  forsætisráðherra Íslands hafi sagt af sér og þessu er slegið upp sem stórfrétt. Þetta er til dæmis á forsíðu vefsíðna CNN, NY Times, Washington Post, í augnablikinu. Og að því er virðist allra helstu fjölmiðla veraldarinnar.

Þegar ég hélt að atburðarrásin gæti ekki orðið furðulegri sé ég í Kjarnanum hér að það dúkkar upp fréttatilkynning úr forsætisráðuneytinu frá því í kvöld til erlendra blaðamanna þar sem segir að „Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lagði aðeins til að Sigurður Ingi Jóhannsson tæki við forsætisráðuneytinu í „óákveðinn tíma.“ Hann hefur ekki sagt af sér og mun halda áfram sem formaður flokksins.“

Jahérna.

Ekki meir, ekki meir.

Ég er farinn að fá kvíðakast þegar ég kveiki á sjónvarpinu eða opna erlend blöð.

Ég held að þetta hljóti að vera komið gott, orstír Íslands er nú þegar stórlaskaður. Ég vona að mönnum — hvar í flokki sem þeir standa — beri gæfa til hætta þessu þjarki og koma sér saman um leið til að endurvekja traust bæði innanlands sem utan um að Ísland er vestrænt lýðræðisríki með raunverulega þinghefð. Ekki eitthvert bananalýðveldi. Eftir allar þessar uppljóstranir hlýtur eðlileg niðurstaða að vera sú að allir stjórnmálaflokkar fái endurnýjað umboð í kosningum — eftir allt sem á undan er gengið. Mér sýnist að menn ættu að einbeita sér að því að ná sátt um hvernig þetta verði gert — það er áreyðanlega ekki skynsamlegt að ana út í neitt en kosningar hefðu hvort sem er verið innan skamms. Í millitíðinni finni menn einhverja tímabundna ráðstöfunum í sátt allra flokka. Menn setji þjóðarhagsmuni yfir persónulega og flokkslega hagsmuni.

Og þar með held ég að ég reyni að taka mér frí frá fréttalestri íslenskum og skrifum um þessi mál í bili. Þetta er komið gott. Það versta er að ég er hræddur um að slíkt verði erfitt, amk hvað lestur varðar, því að erlend blöð eru nú farin að sýna málinu mikinn áhuga. Þær fréttir sem maður les eru þjóðinni ekki til vegsauka.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur