Mánudagur 18.04.2016 - 23:32 - FB ummæli ()

Óvissuástandið

Þá fer að draga að forsetakosningum. Og Ólafur Ragnar Grímsson gefur íslenskum kjósendum kost á að framlengja setu sína í forsetastóli í 24 ár.

Rök hans fyrir framboði sínu í þetta sinn eru þau sömu og fyrir fjórum árum. Svo mikil óvissa ríkir í íslensku samfélagi að hann þarf enn um sinn að gegna starfi forseta. Til þess að tryggja stöðugleika.

Þetta þykir mér sérkennileg röksemdafærsla þjóðarleiðtoga vestræns lýðræðisríkis. Stöðugleiki og festa vestrænna lýðræðisríkja felst ekki í því að sömu mennirnir vermi valdastólana áratugum saman, jafnvel þótt þeir séu óumdeildir eða jafnvel óvenjulega hæfileikaríkir. Þvert á móti er stöðugleiki lýðræðisríkja einmitt fólgin í því að hægt er að skipta um æðsta yfirmann ríkisins, forseta, án þess að því fylgi nein sérstök óvissa eða órói í samfélaginu.

Valdaseta í meira en 20 ár er fáheyrð í vestrænu lýðræðisríki þar sem leiðtogi er þjóðkjörinn – leita þarf til ríkja þar sem lýðræði er á mjög frumstæðu stigi til að finna svipuð fordæmi í dag. Mér sýnist í fljótu bragði (sjá hér) að á lista yfir 25 þaulsetnustu þjóðarleiðtoga heimsins í dag (þjóðarleiðtogar sem setið hafa lengur en 15 ár en eru ekki konungsbornir) sé aðeins einn þjóðarleiðtogi frá vesturlöndum: Forseti Íslands. Svo virðist sem — að minnsta kosti tölfræðilega séð — að langur valdatími kjörinna þjóðarleiðtoga sé því fyrst og fremst mælikvarði á vanþroskað lýðræði.

Hér í Bandaríkjunum urðu forsetaskipti áður en seinni heimstyrjöldinni lauk. Forsetaskipti urðu í tvígang þegar Bandaríkin voru í stríði í Víetnam. Enn voru hermenn í Írak þegar Barak Obama tók við að George Bush. Með öðrum orðum, það er oft á tíðum gífuleg pólitísk óvissa í Bandaríkjunum þegar skipt er um stjórnartauma. Hér í Bandaríkjunum ríkir oft óvissa, átök og jafnvel stríð — með öðrum orðum ástand sem á lítið sameiginlegt við hið friðsama Ísland í dag — og þó sjá þeir sér fært að færa vald frá einum forseta til annars. Og allt virðist þetta ganga slysalaust fyrir sig.

Raunar var það svo að Franklin Delano Rosevelt (FDR) dó í embætti rétt áður en seinni heimstyrjöldinni lauk. Hann hafði þá setið – fyrstur manna í bandarískri stjórnmálasögu – í meira en tvö kjörtímabil. Hann rökstuddi sitt endurkjör með þeirri óvissu sem seinni heimstyrjöldin skapaði.

Hin tveggja kjörtímabils hámarksregla um valdasetu forseta sem nú gildir í Bandaríkjunum hafði verið óformlega í gildi í 150 ár, áður en hún var brotin af FDR, eða allt frá stofun lýðveldisins þegar George Washington sóttist ekki eftir kjöri í þriðja sinni. Rök George Washington voru meðal annars þau að tvö kjörtímabil væru ”meira en nóg fyrir hvaða forseta” og taldi að með lengri valdasetu væri forsetaembættið líkara konungsstól.

Í kjölfar þess að FDR braut hina óskrifuðu reglu Georgo Washingtons, var stjórnarskrá Bandaríkjanna breytt 1951 í víðtækri pólitískri sátt. Stjórnarskrá Bandaríkjanna kveður nú á um – líkt og fyrsti forseti Bandaríkjanna taldi eðlilegt en batt þó ekki í lög – að enginn forseti sitji lengur en tvö kjörtímabil. Bersýnilega fannst Bandaríkjamönnum að jafnvel óvissuástand á borð við seinni heimstyrjöldina réttlætti ekki þrásetu valdahafa.

Stöðugleiki í stjórnskipan landsins á aldrei að vera bundinn einstaklingum. Hann á að byggja á almennri virðingu fyrir lagaumgjörð og lýðræði í landinu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur