Þriðjudagur 19.04.2016 - 21:01 - FB ummæli ()

Um hvað verður kosið?

Það eru farnar að skýrast línurnar í forsetakosningunum. Öllum að óvörum, virðast þær ætla að verða áhugaverðar nú þegar Ólafur Ragnar býður sig fram enn og aftur eftir að hafa hætt við að hætta, annað skiptið í röð í ljósi “óvissu”.

Það sem er einkum áhugavert í þessum kosningun er að í fyrsta skipti svo ég muni virðist vera raunverulegur málefnaágreiningur milli frambjóðenda til forseta. Þetta er ekki bara fegurðarsamkeppni.

Andri Snær Magnason hefur gert það að grunnstefi í sínu framboði að nota eigi niðurstöður þjóðfundarins og þess ferlis sem gat af sér nýtt stjórlagafrumvarp til að breyta stjórarskrá Íslands.

Ólafur Ragnar er á móti nýju stjórnarskránni og öllu því ferli sem að baki hennar lá, til að mynda niðurstöðum Rannsóknarskýrslu Alþingis sem hann sagði “uppfulla af rangfærslum og villum” (sjá til dæmis hér)

Andri Snær hefur haldið því fram að hrunið og eftirleikur þess gefi tilefni til að endurskoða stjórnsýslu landsins þar sem samþykkt stjórnarskrár er grundvallaratriði. Ólafur Ragnar heldur því fram þvert á móti að eftirleikur hrunsins og pólitík síðustu ára sýni styrk stjórnarskrárinnar og íslenskrar stjórnsýslu. Um þetta verður kosið á Íslandi í sumar.

Andri Snær hefur lagt áherslu á mikilvægi þess að virkja ekki fleiri náttúruauðlindir að óþörfu, enda verið að selja orkuna á lágu verði og verið sé að fórna gulleggi þjóðarinnar, sem er óspillt náttura. Hún er ástæða þess að nú flykkist fólk til landsins sem túristar sem skapar langtum meiri tekjur en orkuframleiðsla á tombóluprís. Ólafur Ragnar skrifaði undir lög um Kárahnjúkavirkun þrátt fyrir að tugir þúsunda skoruðu á hann að vísa þeim lögum til þjóðaratkvæðagreiðslu, fleiri en í tilfelli fjölmiðlalaganna ef ég man rétt. Við þessu varð Ólafur ekki en tók það hins vegar að sér að leggja hornstein að Kárahnjúkavirkjun 2006 (sjá hér).

Andri Snær hefur minnst á mikilvægi ákvæðis nýrrar stjórnarskrár um að auðlindir landsins, líkt og fiskurinn í sjónum, fallvötnin, jöklarnir og hálendið, séu eign allrar þjóðarinnar. Ekki fárra útvalinna. Ólafur Ragnar hafnaði því að vísa lögum þeim til þjóðarinnar sem afléttu veiðigjöldum af útgerðarmönnum. Fyrir þá sem ekki muna var það fyrsta verk ríkisstjórnarninnar að stórlækka veiðgjöld á útgerðamenn (auk þess að afnema auðlegðarskatt). Ólafur Ragnar skrifaði undir þau lög þótt fyrir lægju undirskriftir 35 þúsund landsmanna um að vísa lögunum til þjóðaratkvæðagreiðslu — á grundvelli þess að eðlilegt sé að útgerðamenn greiði markaðsvirði fyrir afnot af eign þjóðarinnar fremur en fá þau afnot ókeypis —  fleiri undirskrifendur en í tilfelli fjölmiðlalaganna og á svipuðu reki og í Icesave II undirskrifasöfnuninni.

Annað gerir þessar kosningar mjög óvenjulegar en í leiðinni afar áhugaverðar. Í fyrsta skipti að því er ég man er forseti fulltrúi tiltekinna pólitískra afla.

Einn fyrsti maðurinn til að lýsa yfir stuðningi við framboðið, að því er ég best kemst næst, var forsætisráðherra landins, Sigurður Ingi. Ég man ekki til þess að slíkt hafi áður gerst í forsetakosningum sem ég hef orðið vitni að á Íslandi, að forseti sé beinlínis studdur opinberlega af forsætisráðherra (þó mér skiljist að slíkt hafi gerst fyrir mína daga, sjá hér, en frambjóðendur forsætisráðherra munu þó alltaf hafa tapað í sögunni).

Segja má að Ólafur Ragnar sé guðfaðir ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs en þó ekki síst núverandi ríkisstjórnar með því að koma í veg fyrir þingrof sem hefði leitt til nýrra Alþingiskosningar fyrir nokkrum vikum. Það er vandséð hvaða rök lágu að baki því að ekki væri tilefni til að slíta Alþingi og efna til kosninga, eftir stærstu mótmæli Íslandssögunnar. Krafa þeirra mótmæla var afsögn forsætisráðherra og Alþingiskosningar. Einhvern veginn tóks Ólafi Ragnari, hins vegar, að komast að þeirri niðurstöðu að þessi mótmæli kölluðu á að hann kæmi í veg fyrir þingrof, fyrstur forseta í sögu Íslands (og að meðtöldum Danakonungi sem gengdi því hlutverki áður), og þvert á móti kölluðu stærstu mótmæli Íslandsögunnar á að lappa þyrfti uppá ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks með sérlegum fundarhöldum og að í kjölfarið þyrfti hann sjálfur að bjóða sig fram enn og aftur til forseta Íslands, þvert á fyrri orð, og með sérlegri stuðningsyfirlýsingu nýskipaðs forsætisráðherra. Það er erfitt að skilja hvernig friðsöm mótmæli af þessu tagi gegn ríkisstjórn landsins og stjórnarmeirihluta á Alþingi leiddu hann að þessari niðurstöðu.

Að mörgu leiti munu því kosningarnar snúast um hið “gamla” eða “nýtt” Ísland. Líkt og allir fyrri forsetar Íslands var Ólafur Ragnar fæddur áður en Ísland var sjálfstætt ríki, eða 1943, ári fyrir lýðveldisstofnun. Ef hann tapar kosningunum verður næsti forseti að öllum líkindum fyrsti forseti Íslands sem er ekki fæddur sem þegn Danakonungs. Mig grunar að sú kynslóð Íslendinga sem fæddist ekki undir dönskum kóngi muni hafa aðra sýn á hlutverk þessa embættis í framtíðinni, og að slík endurnýjun verði öllum til góða.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur