Föstudagur 20.01.2017 - 15:28 - Lokað fyrir ummæli

Hugleiðingar um stöðu sakborninga

Það fer víst ekki framhjá neinum hversu mikill harmleikur er í gangi varðandi mannshvarfsmálið. Mörgum spurningum er enn ósvarað en svo virðist sem myndin sé að skýrast. Það er þyngra en tárum taki að hugsa til þess að ung manneskja í blóma lífsins skuli lenda í þessum aðstæðum. Hamagangurinn í þjóðfélaginu hefur svo verið með ólíkindum að á köflum skammast maður sín fyrir samlanda sína sem sýna bæði lögreglu og aðstandendum aljört tillitsleysi. Þetta mál hefur svo margar hliðar og snúa þær að málsaðilum þess sem eru fjölmargir.

Sem lögmaður veltir maður fyrir sér lagalegu hlið málsins óneitanlega og ber saman atburðarásina við réttarfarið næstum sjálfkrafa í huganum. Í þeim samanburði er eitt atriði sem vefst fyrir mér og varðar það sakborninga og öryggisreglur sakamálaréttarfars. Í fyrsta lagi á sá sem grunaður er um refsivert athæfi rétt á því að njóta aðstoðar verjanda eða lögmanns og í annan stað verður svokallaður þagnarréttur virkur, viðkomandi er ekki skylt að tjá sig um sakarefni eða með öðrum orðum á viðkomandi rétt á því að fella ekki á sig sök. Þótt lögspekingar hafi stundum deilt um nákvæmt tímamark þess hvenær þessi réttindi vakna þá má almennt segja að þau verði virk þegar grunur um refsivert athæfi beinist að einstaklingi. Felst þá í framangreindum réttarreglum að sakborningur á rétt á því að fá að vita hvort verið sé að leggja fyrir hann spurningar um málið af því að grunur beinst að honum og viðkomandi eigi þess þá kost að neita að tjá sig um málið. Að baki þagnarréttinum liggur sjónarmið um vernd gegn pyndingum og að enginn verði þvingaður til játninga.

Því má velta fyrir sér hvenær grunur lögreglu beindist að þessum tilteknu sakborningum þessa hryllilega mannshvarfsmáls og þá samhliða hvenær bar að gæta ofangreindra réttarfarsreglna. Var þetta tímamark komið áður en sérsveitarmenn lögreglunnar stigu um borð í Polar Nanoq á leið þess til landsins eða síðar. Voru sakborningarnir handteknir af sérsveitarmönnum á hafi úti eða teknir til hliðar í skipinu eða fóru handtökur fram eftir að skipið lagðist að höfn og lögregla steig um borð. Af fréttaflutningi að dæma virðist sem sakbornignar hafi verið spurðir spurninga af lögreglu sem tóku yfir stjórn skipsins á hafi úti. Hafi grunur beinst að þessum tilteknu mönnum áður en sérsveitarmenn stigu um borð þá vaknar sú spurning hvort og með hvaða hætti staðið var að því að gæta að réttarreglum um aðstoð verjanda og þagnarrétt um borð í skipinu. Um þetta höfum við í raun engar upplýsingar að svo stöddu. Réttast hefði verið að bíða með allar efnisspurningar þar til í land var komið og hægt að fylgja reglum réttarfars. Lögreglan hefur auðvitað getað aflað gagna og tryggt rannsóknarhagsmuni með hefðbundnum aðgerðum.

Við þurfum ávallt að gæta að reglum réttarríkisins óháð málum og tilfinningum. Ekki má fara út fyrir þann ramma sem við höfum sett okkur og afmarkar réttarvernd og réttaröryggi. Það er hlutverk réttarvörslukerfisins í heild að gæta þess.

 

Flokkar: Lögfræði

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur