Miðvikudagur 05.10.2016 - 14:04 - Lokað fyrir ummæli

Uppstokkun á fjármálakerfinu og nýtt húsnæðiskerfi

Nú hefur framsóknarflokkurinn kosið sér nýja forrystu sem sýnir enn og aftur það að framsóknarflokkurinn er ávallt tilbúinn að taka áskorunum og ganga í það að endurnýja umboð sitt og um leið forrystu þegar áföll koma upp og vanstraust myndast. Flokkurinn gerði þetta eftir hrunið og nú aftur eftir áföll fyrrverandi formanns.

Hvað sem því líður þá hef ég lítið viljað taka beinan þátt í stjórnmálum. Hins vegar sá ég mig knúinn til að ganga inn í framsóknarflokkinn og taka þátt í þeirri hugmyndafræði sem þar er að grassera þegar kemur að húsnæðismarkaðinum og velferð fólksins í landinu í tengslum við fjármálageirann. Mér hefur í langan tíma leiðst aumingjaskapurinn í kringum marga stjórnmálaflokka þegar kemur að því að stokka upp í fjármálakerfinu hér á landi. Mér hefur fundist framsóknarflokkurinn ganga lengst í því að taka á þessu. Það er orðið tímabært að kerfið sé stokkað upp og um leið gert að verkum að fjármálageirinn taki á sig ábyrgð þegar kemur að samskiptum og uppgjöri við sína viðskiptavini, gróðahyggja og glæpsamleg græðgi á ekki að þrifast í litlu samfélagi eins og okkar.

Hér þarf að starfa fjármálakerfi sem veitir viðskiptavinum sínum lánafyrirgreiðslu sem gengur ekki öll út á að rukka ofuvexti af lánum t.d. til íbúðarkaupa eða rekstur fyrirtækja. Afnema þarf verðtrygginguna og um leið gera venjulegu fjölskyldufólki kleift að kaupa húsnæði fyrir sig og fjölskyldu sína þannig að ekki þurfi að ráðstafa meira en 30% af ráðstöfunartekjum í íbúðarkaupin. Eins þarf að stoppa alla ofubónusa og græðgishyggju sem gengur út á það að bankinn leggur ofuráherslu á innheimtu til að tryggja starfsmönnum sínum bónusa sem eru ekkert í takt við raunveruleika almennings í landinum.

Ég lýsi því yfir hér með að ég legg alla áherslu á að beita mér fyrir uppstokun í kerfinu líkt og fram kemur í nýsamþykktri stefnuskrá flokksins samhliða því að byggja hér upp húsnæðiskerfi þar sem hvorki ofurvextir né verðtrygging verður við líði. Það er kominn tími til að stjórmálamenn átti sig á staðreyndum í þessum efnum og að til að tryggja hér góða velferð þarf að vera fyrir hendi fjármálakerfi sem er í takt við það sem er réttlát og eðlilegt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur