Þriðjudagur 07.02.2017 - 22:55 - Lokað fyrir ummæli

Ert þú í ábyrgð fyrir lánum annarra?

Mörg mál hafa komið inn á borð til mín þar sem einstaklingar vilja láta athuga hvort hvort ábyrgðir haldi, sem þeir hafa gengist í fyrir þriðja aðila. Komið hefur í ljós í mörgum málum að ábyrgðaryfirlýsingar fyrir lánum 3ja aðila eru ógildar og er það oftar ekki vegna lélegs frágangs lánaskjala. Einnig er mjög algengt að ekki hafi verið rétt staðið að framkvæmd greiðslumats og svo fylgiskjala því tengdu. Komið hefur á daginn í seinni tíð að fjármálafyrirtæki hafa í reynd ekki gætt heldur nægilega vel að því að varðveita fylgiskjöl tengdum t.d. greiðslumati sem svo eiga að sanna að staðið hafi verið rétt að greiðslumatinu. Nokkur mál hafa komið inn á borð hjá mér sem snúa einmitt að þessu atriði er varðar varðveislu gagna banka. Nokkur mál hafa fallið þannig að umrædd fjármálafyrirtæki hafa þurft að ógilda ábyrgðir ábyrgðarmanna einmitt vegna þessa. Er þetta t.d. mjög áberandi í þeim tilvikum þar sem bankar tóku yfir fjármálafyrirtæki sem féllu í bankahruninu en í þeim tilvikum virðist t.d. ekki hafa verið gætt nægilega að því að gögn og fylgiskjöl lána hafi verið flutt yfir til þess fjármálafyrirtækis sem tóku yfir lánsöfn fallinna banka.

Oft reyna fjármálafyrirtæki að fá einstaklinga til að skilmálabreyta eða jafnvel endurfjármagna lánasöfn þar sem einmitt þetta á við. Með því virðist sem viðkomandi fjármálafyrirtæki ætli sér að bæta stöðu sína t.d. gegn ábyrgðarmönnum með slíkum gerningum og þá koma í veg fyrir að ábyrgðir ógildist vegna þessa. Veit undirritaður um nokkur slík dæmi og því mikilvægt fyrir alla þá sem í ábyrgðum eru vegna lána sem tekin voru fyrir hrun að gæta réttar síns og um leið athuga hvort í reynd þeir séu þá í ábyrgðum.

Flokkar: Lögfræði · Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur