Sunnudagur 29.07.2012 - 11:04 - FB ummæli ()

Villandi tölur um tekjur á Íslandi

Nú er sá tími árs er tímaritið Frjáls verslun og dagblöð birta tölur um tekjur Íslendinga, upp úr skattskrám. Margir hafa áhuga á þessu enda sjálfsagt í lýðræðisþjóðfélagi að fyrir liggi upplýsingar um slíkt sem og um skattgreiðslur.

Hitt er verra að þær tölur sem birtar eru og kynntar sem upplýsingar um “tekjur” Íslendinga í ólíkum starfsgreinum eru vægast sagt villandi.

Það sem birt er eru vísbendingar (út frá útsvarsálagningu) um “launatekjur fyrir skatta”, sem er bara hluti af “tekjum” fólks. Það sem helst vantar eru fjármagnstekjur. Ef þær væru meðtaldar myndu tölurnar fara nærri því að sýna “heildartekjur fyrir skatt”.

Skiptir það máli?

Jú það skiptir verulegu máli, einkum fyrir upplýsingarnar um tekjur hátekjufólks, sem er með langmestar fjármagnstekjur.

Þær tölur sem birtar eru vanmeta því stórlega hærri tekjurnar í samfélaginu, einkum hjá hærri stjórnendum í einkageira. Frávikið er svo mikið að tölur Frjálsar verslunar og dagblaða um tekjur hærri stjórnenda og stóreignafólks eru nær marklausar.

Í eftirfarandi töflu má sjá hve stór hlutur fjármagnstekna er eftir tekjuhópum. Það sýnir það sem vantar inn í tölur Frjálsrar verslunar og blaða  um “tekjur” fólks í ólíkum tekjuhópum.

Miðað er við fjóra tekjuhópa: lágtekjufólk, miðtekjufólk, efstu 10% fjölskyldna og efsta 1% (ofurtekjufólk).

Hjá lágtekjufólki og millitekjufólki hefur hlutur fjármagnstekna verið lítill (2-5% heildartekna) og skiptir því almennt litlu máli þar. Nokkur aukning var eftir hrun (2008-9) vegna verðbólgu og hærri vaxta sem skilaði hærri vaxtatekjum af innstæðum í bönkum. Það hefur nú lækkað aftur.

Hjá hátekjufólki skipta fjármagnstekjur hins vegar umtalsverðu. Ef litið er á ofurtekjufólkið (tekjuhæsta 1% fjölskyldna) þá fór hlutur fjármagnstekna úr 16,5% 1995 upp í 85-86% á árunum 2005 til 2007. Launatekjurnar sem Frjáls verslun birti þá sem “tekjur hátekjufólks” voru innan við 15% af heildartekjum þeirra þau árin!

Tekjuhæsta fólkið er fyrst og fremst með fjármagnstekjur, ekki síst í góðæri eða bóluhagkerfi.

Hjá tekjuhæstu 10% fjölskyldna var hlutur fjármagnstekna 50-61% af heildartekjum á þessum árum.

Eftir hrun hafa fjármagnstekjur lækkað, en alls ekki horfið. Árið 2010, á botni kreppunnar, var tekjuhæsta 1% fjölskyldna með tæpan helming heildartekna sinna sem fjármagnstekjur og efstu 10% fjölskyldna voru með um 18%.

Nú í nýjasta skattframtali hafa fjármagnstekjur hækkað frá 2010 um á annan tug prósenta. Hlutur fjármagnstekna er því meiri nú en á árinu 2010.

Það virðist því ljóst að í tekjutölur hærri stjórnenda í einkageira, sem birtar hafa verið, vantar nú að jafnaði um og yfir helming heildartekna fyrir skatt, þ.e. fjármagnstekjurnar.

Tekjur tekjuhæstu hópanna eru því vantaldar sem þessu nemur í þeim upplýsingum sem Frjáls verslun og dagblöð birta núna.

Tölur um eignir stóreignafólks, sem nú eru líka birtar í blöðum, eru einnig stórlega vantaldar – en það er önnur saga.

 

PS!

Þar eð taflan er lítil og óskýr hef ég teiknað tölurnar úr henni á eftirfarandi mynd:

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar