Sunnudagur 16.09.2012 - 09:02 - FB ummæli ()

Góð frétt: Frjálshyggju-vísitalan lækkar!

Nú berast fregnir af því að frjálshyggju-vísitala Íslands hafi lækkað eftir hrun.

Biskup frjálshyggjunnar, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, hefur sjálfur sent út fréttatilkynningu um þessi tíðindi (sem birt er á Pressunni og hinum ókristilega vef amx-veitunnar).

Biskupinn er með böggum hildar yfir þróuninni og hefur boðað sérlegan talsmann vísitölunnar til landsins, alla leið frá Norður Ameríku. Sá er þekktur hægri öfgamaður og mun hann tala á fundi frjálshyggjumanna í Reykjavík á mánudagsmorgun, segir í tilkynningunni.

Markmið fundarins mun vera að auka enn frekar áhrif frjálshyggjunnar á stefnu Sjálfstæðisflokksins. Sumum þykja þau þó ærin fyrir.

Fyrir allt venjulegt fólk eru þetta þó góð tíðindi. Það er vegna þess að frjálshyggju-vísitalan mælir fátt sem þjónar hagsmunum almennings.

Fyrst þegar þessi vísitala var sett fram var hún kölluð “frelsisvísitala”. Það þótti víðast hvar frekar hlægilegt, því vísitalan snýst varla um neitt sem venjulegt fólk kallar “frelsi”. Þess vegna var skipt um nafn á henni og hún kölluð “Index of Economic Freedom” (vísitala efnahagsfrelsis). Hólmsteinn biskup kallar hana hins vegar “atvinnufrelsisvísitölu”. Öll þessi heiti eru þó villandi.

Þessi vísitala  er fyrst og fremst mælikvarði á frelsi auðmanna og fjárfesta. Þegar menn skoða hvernig vísitalan er samsett þá kemur það berlega í ljós (sjá hér).  Há frjálshyggju-vísitala þýðir almennt betri skilyrði fyrir auðmenn og fjárfesta til að auðgast enn frekar – oft á kostnað almennings.

Vísitalan er almennt hærri þar sem velferðarríkið er minna, þar sem skattar á hátekjufólk og fjárfesta eru lægri, þar sem frelsi á fjármálamarkaði er meira og eftirlit minna, þar sem hagur erlendra fjárfesta er betur tryggður og einkaeignaréttur betur varinn, m.a. með mikilli bankaleynd.

Þá er frelsisvísitalan hærri þar sem auðveldara er að reka fólk úr vinnu, þar sem engin lágmarkslaun eru, þar sem verkalýðshreyfing hefur engin áhrif, og þar sem opinberar reglur eru almennt veikari og eftirlit sem minnst.

Margt af þessu sem frjálshyggju-vísitalan mælir eru einmitt þættir sem taldir eru hafa átt mikinn þátt í að auka ójöfnuð og steypa heiminum út í fjármálakreppuna sem nú ríkir.

Raunar var það svo að frelsi auðmanna, atvinnurekenda og fjárfesta tók víða að aukast mjög mikið frá því um 1980, samhliða aukningu ójafnaðar, vegna aukinna áhrifa frjálshyggju á stefnu margra stjórnvalda. Þá hækkaði frjálshyggju-vísitalan hratt.

Þetta má sjá á myndinni hér að neðan, en hún sýnir frjálshyggju-vísitöluna fyrir Ísland og meðaltal allra þátttökuþjóða vísitölunnar, frá 1975 til 2009 (heimild: Fraser frjálshyggjuveitan). Hún sýnir sem sagt þróun frjálshyggjuáhrifa.

Myndin sýnir líka hvernig Ísland fór langt framúr öðrum þjóðum í innleiðslu frjálshyggjufrelsis. Hér náði frjálshyggjufrelsið hámarki frá um 2000 til 2006, er Ísland var í 11. til 12. sæti á þessum heimslista frjálshyggjunnar.

Þá var einmitt vörðuð leiðin að hruninu!

Nú hefur frjálshyggju-vísitalan sem sagt lækkað og líklega boðar talsmaður vísitölunnar að frekari lækkun hafi orðið á árinu 2010, á þessum fundi frjálshyggjumanna á mánudag. Það er í góðu lagi, ef rétt reynist.

Þó við eigum að styðja við frjáls viðskipti og frelsi almennings til að geta lifað farsælu lífi þá er engin sérstök þörf á að auka mikið frelsi auðmanna með útþenslu óhefts kapítalisma. Óheftur kapítalismi brást herfilega og færði okkur hrunið.

Öflugt velferðarríki í blönduðu hagkerfi hefur sýnt sig að vera besta leiðin til að ná árangri í hagsæld og farsæld þjóða – ekki leið frjálshyggjunnar. Hún eykur bara ójöfnuð og flæði fjár í erlend skattaskjól.

Þegar frjálshyggju-vísitalan lækkar þá þýðir það einfaldlega að áhrif frjálshyggju fara minnkandi – og það er gott fyrir almenning.

Það eru því góðar fréttir ef þessi vísitala er nú lækkandi á Íslandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar