Fimmtudagur 28.02.2013 - 00:07 - FB ummæli ()

Áhugaverður hægri maður

David Brooks, pistlahöfundur á New York Times, er uppáhalds hægri maðurinn minn. Það er hægt að vera honum sammála um sumt. Þó styður hann Repúblikana, þann skelfilega flokk, – svona upp að vissu marki.

Pistlar hans sýna almennt mikinn skilning á samfélaginu í Bandaríkjunum og eru oft mjög athyglisverðir.

Það sem einkennir Brooks er víðsýni, raunsæi og einlægur vilji til að bæta samfélagið. Hann er ekki bara að hugsa um að bæta hag þeirra ríku, eins og ráðandi öfl í Repúblikanaflokknum gera þessi misserin. Honum leist til dæmis ekkert allt of vel á Mitt Romney sem forsetaframbjóðanda og gagnrýndi málflutning hans.

Brooks hefur áhyggjur af auknum ójöfnuði í bandarísku samfélagi. Hann óttast einnig þann mikla klofning sem fylgir ójöfnuðinum og vaxandi pólitískri sundrungu. Hann er lausnamiðaður og vill fjárfesta í framtíðar velferð bandarískra barna (sjá t.d. hér).

Hann segir stærð ríkisvaldsins ekki vera vandamálið – heldur gæði þess sem ríkið aðhefst. Hann vill betra ríkisvald sem nær betri árangri, endurdreifa útgjöldunum svo þau hitti betur í mark. Hann hatar ekki rikisvaldið og lýræðið eins og frjálshyggjumenn gjarnan gera, heldur vill hann beita því á skynsaman hátt til að bæta mannlífið í samfélaginu.

David Brooks sér því ekki skynsemina í linnulausu þrátefli milli Repúblikana og Demokrata um fjárlög ríkisins. Hann vill skattleggja ríka fólkið meira og skerða bætur til þeirra til að bæta stöðu og tækifæri fátækra barna, efla menntun, vísindi og tækni og efla samgöngumannvirki og starfstækifæri fyrir ungt fólk.

Hann vill hagvöxt með meira réttlæti og sanngirni. Hann er augljóslega í minnihluta í Repúblikanaflokknum. Heldur sig þó samt til hægri. Raunar talar hann stundum eins og hófsamur en skynsamur miðjumaður.

Eftir frjálshyggjubyltinguna sem ágerðist uppúr 1980 má segja að svona hægri menn séu orðnir sjaldgæfari, bæði í Bandaríkjunum og víðar á Vesturlöndum. Frjálshyggjubyltingunni fylgir öðru fremur draumur um að veikja ríkisvaldið og velferðarríkið, lækka skatta á ríka fólkið og að færa fjármálaöflunum meira frelsi til að braska og græða – jafnvel á kostnað samfélagsins.

Á Íslandi er Sjálfstæðisflokkurinn fulltrúi hinna hörðu frjálshyggjuviðhorfa sem sæma harðlínunni í Repúblikanaflokknum.

Ég held þó að hér séu enn til Sjálfstæðismenn sem hugsa í anda David Brooks. Sjálfstæðismenn af gamla skólanum. Þeir eru hins vegar í minnihluta, því miður.

Braskarar frjálshyggjunnar og óheftrar auðhyggju ráða ferðinni í nýja Sjálfstæðisflokknum – flokki ríka fólksins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar