Sunnudagur 17.03.2013 - 09:25 - FB ummæli ()

Framsókn býður kjarabætur

Það eru tíðindi þegar Framsóknarflokkurinn er orðinn stærstur flokka í landinu samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum.

Icesave-dómurinn gaf Framsókn góðan vind í seglin eftir að flokkurinn hafði verið í lágmarksfylgi allt kjörtímabilið, þrátt fyrir ákafa og á köflum mjög háværa stjórnarandstöðu.

Síðan strengdu Framsóknarmenn loforðabogann og buðu hrjáðum heimilunum miklar kjarabætur, með stórtækri niðurfellingu skulda og afnámi verðtryggingar – og skattalækkanir í kaupbæti.

Það hittir í mark.

Almenningur virðist sjá í gegnum loforð Sjálfstæðismanna, minnugur þess að þeir með sitt auðmannadekur munu fyrst og fremst lækka skatta á þá betur stæðu. Einn af hverjum fimm sem áður kusu Sjálfstæðisflokkinn hefur fært sig yfir á Framsókn.

Sjálfsagt hefur óánægja með forystu Sjálfstæðisflokksins líka eitthvað með þessa sókn Framsóknar að gera. Vafningsferill Bjarna Benediktssonar í viðskiptalífinu og baksætisforysta Davíðs og Hannesar hugnast sífellt færri.

Á meðan sitja stjórnarflokkarnir með lágmarksfylgi, þó þeir hafi náð ágætum árangri við hreinsunarstarf og endurreisn, ekki síst miðað við aðrar kreppuþjóðir í Evrópu. Þeir bjóða upp á áframhaldandi ábyrga fjármálastjórnun.

Enginn hefur áhuga á því.

Kjósendur vilja kjarabætur. Það er líka skiljanlegt.

Heimilin höfðu fallið í þá freistingu að skuldsetja sig mörg of mikið á bóluárunum og svo þegar krónan hrundi um ca. 50% á árinu 2008 þá magnaðist skuldavandinn og kaupmátturinn hrundi, um 20% að meðaltali.

Þó lágtekjufólki hafi verið hlíft að hluta við kjaraskerðingunni þá er kaupmáttur ráðstöfunartekna flestra enn alltof lítill. Hann hækkaði á árinu 2011 en ekkert á árinu 2012 og virðist líka ætla að standa í stað á yfirstandandi ári. Þrátt fyrir afskriftir og verulega hækkun vaxtabóta eru kjörin sem sagt enn alltof lök.

Þar er við aðila vinnumarkaðarins að sakast. Þeir bera mesta ábyrgð á stöðu kaupmáttarins. En þeir eru ekki í framboði til Alþingis. Þeir stýra bara úr baksætum samráðsins.

Það er því skiljanlegt að þeir sem bjóða heimilunum mestu kjarabæturnar fái mesta fylgið. Hvort hægt er að efna slík loforð er svo auðvitað allt annað mál.

En hví skyldi fólk ekki láta á það reyna? Mig grunar að margir hugsi einmitt þannig.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar