Föstudagur 26.04.2013 - 12:49 - FB ummæli ()

Laun erfiðisins eru vanþakklæti

Ríkisstjórnin tók við versta búi lýðveldistímans vorið 2009. Þjóðarbúið rambaði á barmi gjaldþrots, fjármálakerfið var hrunið, krónan hafði fallið um 50%, Seðlabankinn var gjaldþrota, kjaraskerðing var þegar orðin gríðarleg, skuldabyrði þyngdist verulega og atvinnuleysi var orðið meira en áður hefur þekkst á Íslandi.

Þetta var fordæmalaus staða.

 

Góður árangur stjórnarflokkanna vekur athygli erlendis

Samfylkingu og VG tókst að snúa þróuninni við og endurreisa Ísland eftir hrunið. Hér eru nokkrar stiklur af árangurslistanum:

  • Ríkisfjármálin fóru úr meira en 200 milljarða halla í nær jöfnuð.
  • Traust á Íslandi erlendis var endurreist, með aðstoð AGS – sem hælir árangrinum í hástert.
  • Skuldir heimilanna hafa lækkað um nærri 300 milljarða (vegna úrræða stjórnvalda og gengislánadóma).
  • Útgjöld til vaxtabóta voru þrefölduð. Vaxtabætur greiða nú þriðjung vaxtakostnaðar heimila v. húsnæðislána.
  • Barnabætur voru hækkaðar um 30% í ár
  • Alvöru auðlindagjald lagt á sjávarútveg, sem notið hefur gríðarlegs hagnaðar, m.a. vegna gengisfellingarinnar sem rústaði kaupmætti heimila
  • Skattbyrði 60% heimila var lækkuð um tugi milljarða, en hækkuð hjá þeim 40% heimila sem hæstu tekjurnar höfðu.
  • Byrðar kreppunnar lögðust með meiri þunga á hærri tekjuhópa en þá lægri, öfugt við það sem algengast er í öðrum kreppulöndum
  • Hagvöxtur hefur verið meiri en í flestum vestrænum löndum frá og með 2011
  • Atvinnuleysi tókst að hemja og lækka mun betur en í öðrum kreppulöndum
  • Brottflutningur Íslendinga varð minni en spáð var og hefur hann nú snúist við
  • Jöfnuður tekna var stóraukinn eftir fordæmalausa aukningu ójafnaðar frá 1995 til 2007

Fleiri árangursþætti mætti nefna (sjá t.d. hér og hér og hér)

 

Loforð B og D lista eru veigaminni en árangur ríkisstjórnarinnar

Þegar menn rýna í það sem gert var síðustu fjögur árin þá blasir við að stærstu loforð kosningabaráttunnar nú eru minni en það sem áorkaðist á stjórnartímanum – þrátt fyrir allt.

Heildarupphæð skuldaafskrifta var nærri 300 milljarðar (Framsókn býður nú best með 240 milljarða afskriftir til viðbótar). Sjálfstæðisflokkur ætlar bara að bjóða skuldalækkun sem nemur 16-17 milljörðum á ári (66-68 milljörðum á kjörtímabilinu).

Sjálfstæðisflokkur býður skattalækkanir sem nýtast hærri tekjuhópum mest og stefna fjárhag ríkisins í mikinn halla strax – með auknum þrýstingi á niðurskurð í velferðarmálum. Velferðarútgjöld vinstri stjórnarinnar urðu hins vegar hærri árið 2011 en nokkru sinni fyrr í sögunni, vegna aukinna tekjutilfærslna til heimila og þrátt fyrir niðurskurð í heilsu og menntun.

Skuldaafskriftaloforð B og D lista munu nýtast hærri tekjuhópum mest, ef þau verða framkvæmd eins og þau eru fram sett.

Þetta eru sem sagt minni kjarabætur sem B og D listarnir bjóða nú en milli og lægri tekjuhópar fengu á síðustu fjórum árum.

Hátekjufólk mun hins vegar fá meira á næsta kjörtímabili ef loforð B og D lista yrðu efnd með þessum hætti, sérstaklega loforð Sjálfstæðisflokksins sem munu auka ójöfnuð á ný.

 

Ríkisstjórnin nýtur ekki sannmælis

Samt stefnir í mikið tap stjórnarflokkanna, ekki síst Samfylkingarinnar. Það er ósanngjarnt á alla mælikvarða og útlendingar undrast þetta margir.

Helsta ástæða óánægju þjóðarinnar er sú, að flestir hafa yfir miklu að kvarta eftir svo stórt hrun og þá miklu kjaraskerðingu sem hér varð. Það er staðreynd jafnvel þó tekist hafi að aftra mun stærri búsifjum sem í stefndi.

Kaupmátturinn er enn allt of lágur. Við aðila vinnumarkaðarins og krónuna er einkum að sakast í þeim efnum.

En fólkið kennir ríkisstjórninni um það.

Ríkisstjórnin lofaði einnig mjög miklu og ekki tókst að koma því öllu í höfn. Það virkar ekki vel, jafnvel þó þetta sé athafnamesta ríkisstjórn lýðveldistímans. Stjórn sem að auki fækkaði starfsmönnum í opinberri stjórnsýslu um 20%.

Ef kosningarnar fara sem horfir má vissulega segja að laun erfiðisins síðustu fjögur árin séu vanþakklæti.

Ég hygg þó að dómur sögunnar verði stjórn Jóhönnu og Steingríms mjög hagstæður. Hann kemur síðar, en endist sennilega lengur en útkoma kosninganna á morgun.

 

Síðasti pistill: Svona var frjálshyggjan í framkvæmd

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar