Mánudagur 28.10.2013 - 10:17 - FB ummæli ()

Almenningur skýrir hrunið

Hulda Þórisdóttir lektor í stjórnmálafræði kynnti athyglisverða könnun á viðhorfum almennings til hrunsins, á ráðstefnu um félagsvísindi í HÍ á föstudag.

Þegar almenningur er spurður um hverjum hrunið sé að kenna verður niðurstaðan sú sama og kom fram í sambærilegri könnun árið 2009.

Þessa telur almenningur helstu orsakavalda hrunsins.

  • Viðskiptabankarnir
  • Fjármálaeftirlitið
  • Seðlabankinn
  • Sjálfstæðisflokkurinn
  • Ríkisstjórn Geirs Haarde

Þó almenningur hafi ekki tækifæri til að fara ofan í staðreyndir málsins fara flestir þó nærri um hvar meginábyrgðin liggur. Niðurstaðan er svipuð niðurstöðu Rannsóknarnefndar Alþingis, sem kafaði ofan í gögnin.

Þó er eitt frávik frá niðurstöðu Rannsóknarnefndar Alþingis. Hún taldi að eftir 2006 hefði ekki verið hægt að afstýra hruninu, heldur hefði mátt veita viðspyrnu og draga úr umfangi þess. Að því leyti var ríkisstjórn Geirs Haarde ekki beinn orsakavaldur hrunsins heldur má segja að hún hafi ekki gert nægilega mikið til að draga úr umfangi þess, ekki brugðist nægilega við – en það var einnig niðurstaða Landsdóms.

Niðurstöður almennings eru líka ekki fjarri niðurstöðum fjármálafræðanna sem tengja bóluhagkerfi og fjármálakreppur almennt við of mikið frelsi og lausatök á fjármálamarkaði, sem leiðir til of mikillar skuldasöfnunar með tilheyrandi áhættum (sjá hér og hér).

Bankar eru lykil gerendur í slíkri þróun og opinberir eftirlitsaðilar eiga að veita viðspyrnu og aftra því að illa fari. Þar berast böndin að Seðlabanka og Fjármálaeftirliti. Sjálfstæðisflokkurinn er svo sá aðili sem mest beitti sér fyrir innleiðingu aukins frelsis á fjármálamarkaði og einkavæðingunni sem kom hinum nýju eigendum að bankarekstrinum. Flokkurinn stjórnaði fjármálum þjóðarinnar samfellt í 18 ára og sú ferð endaði með hruninu. Tveir formenn flokksins (DO og GH) voru í lykilhlutverkum í þeirri þróun, frá byrjun til enda.

 

Almenningur sakar Sjálfstæðisflokkinn – en flokksmenn saka útlendinga

Það er skondið þegar niðurstöður eru skoðaðar eftir fylgi svarenda við flokka. Þá hafa stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins sérstöðu.

Á meðan flestir kjósendur kenna Sjálfstæðisflokknum um hrunið (beint og óbeint) þá kenna Sjálfstæðismenn sjálfir útlendingum um! Þeim reynist erfitt að horfast í augu við hinar innlendu orsakir hrunsins. Það er skiljanlegt.

Annað sem Hulda Þórisdóttir bendir á er að almenningur var meðvitaður um hlut beggja núverandi stjórnarflokka í aðdraganda hrunsins, en kaus þá samt. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut reyndar ekki miklu meira fylgi nú en árið 2009, þegar það var í sögulegri lægð, en Framsókn bætti stórlega við sig.

Að mati Huldu er ástæðan góð frammistaða Framsóknar í Icesave-málinu og vænleg loforð um mikla skuldaniðurfellingu.

Forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, ítrekaði um helgina einlægan ásetning sinn og flokksins um að standa við þau fyrirheit. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur ítrekað talað mjög skýrt um það. Í ljósi dræms áhuga Sjálfstæðismanna á skuldalækkunarleið Framsóknar er ásetningur þeirra afar mikilvægur. Enda mikið í húfi – bæði fyrir flokkinn og heimilin.

 

Síðasti pistill: Auðræði – þjóðfélagstilraun samtímans

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar