Fimmtudagur 27.03.2014 - 23:47 - FB ummæli ()

Léttvægt framlag Sjálfstæðisflokks

Framlag stjórnarflokkanna til skuldaúrræðanna er mjög misjafnt. Framlag Sjálfstæðisflokksins er mun veigaminna og beinist meira til þeirra tekjuhærri.

Þegar litið er til baka má segja um skuldaúrræði vinstri stjórnarinnar að þau hafi einkum beinst að þeim sem verst voru staddir, þeim sem höfðu mesta þörf fyrir stuðning. Mörgum þótti það viðeigandi í aðstæðum þar sem verið var að ráðstafa fjármunum sem taka þurfti að láni – í óvenju erfiðu ástandi.

Helsta gagnrýnin á þau úrræði var sú, að ekki hafi verið gengið nógu langt í að lækka skuldir eða létta greiðslubyrði heimila. Almenningur vildi meiri stuðning og þegar stjórnarflokkarnir töldu sig ekki geta meira gert snéru kjósendur sér annað í síðustu kosningum. Skiljanlega.

Framsóknarflokkurinn svaraði kalli heimilanna með vænum loforðum, en Sjálfstæðisflokkurinn var sífellt að hugsa um skattalækkanir til milli og hærri tekjuhópa og fyrirtækja – til kjósenda sinna í Garðabæ og á Seltjarnarnesi.

Almennt fagna ég því að gripið er til þessara úrræða sem kynnt voru á ný í vikunni.

Þegar maður les plöggin sem ríkisstjórnin lagði fram nú og útreikninga á því hvernig skuldalækkunin skiptist á þjóðfélagshópa þá finnst mér nokkrir veikleikar áberandi.

  • Framsókn er ein um að skila raunverulegri lækkun höfuðstóls húsnæðisskuldanna með beinum fjárstuðningi frá stjórnvöldum. Hlutur Sjálfstæðisflokksins í úrræðunum er að mestu greiddur af skuldurunum sjálfum, með séreignasparnaði þeirra.
  • Það er tilfærsla á sparnaði frá lífeyri til húsnæðis. Skattaívilnanirnar verða að vísu varanlegar nú, en ekki tímabundin seinkun eins og áður var (það er eina viðbótin, en hún lendir á ríkisstjórnum framtíðarinnar).
  • Það virðist vera sem Sjálfstæðismenn (og Vigdís Hauksdóttir) hafi fengið því framgengt að vaxtabætur voru lækkaðar í fjárlögum þessa árs og sérstöku vaxtabæturnar aflagðar. Það var ótímabært og dregur úr árangri skuldalækkunarinnar nú.
  • Loks er sú ákvörðun gagnrýniverð að draga það frá nýju úrræðunum sem heimili fengu í stuðning á síðasta kjörtímabili. Það snertir einkum heimilin sem eru í verstu stöðunni, þ.m.t. sum millitekjuheimili. Það fólk er enn í slæmri stöðu, en fær fyrir vikið lítið út úr aðgerðunum núna.

Sá bragur Sjálfstæðisflokksins að veita með annarri hendi en klípa til baka með hinni og að setja hærri tekjuhópa í forgang er sem sagt of áberandi í nýju úrræðunum.

Til að úrræði sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur að verði í þágu almennings þarf alltaf að sveigja hann af leið, með þrýstingi. Annars hjálpar hann bara yfirstéttinni.

Framsókn hefði átt að beita Sjálfstæðisflokkinn meiri þrýstingi við frágang þessara úrræða. Samfylkingin brenndi sig líka á því að láta of mikið eftir Sjálfstæðismönnum í ríkisstjórn Geirs Haarde. Alltof mikið.

Framsókn er vissulega að skila verðmætum stuðningi við heimilin í þessum úrræðum. Án Framsóknar væru engin alvöru úrræði að skila sér núna. Meira mátti það þó vera.

Sjálfstæðisflokkurinn var allan tímann á bremsunni gagnvart skuldalækkuninni og skilar nú heimilunum litlu inn í pakkann.

Hann býður skuldugu fólki einfaldlega að færa sparnað sinn úr einum vasa í annan – og kallar það “úrræði stjórnvalda”. En það eru úrræði skuldaranna sjálfra.

Þetta er heldur léttvægt framlag hjá Sjálfstæðisflokknum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar