Laugardagur 12.07.2014 - 14:23 - FB ummæli ()

Rogoff mælir með afskrift skulda

Hinn þekkti fjármálasérfræðingur og prófessor við Harvard háskóla, Kenneth Rogoff, segir í nýrri grein að ekki verði lengur horft framhjá þörf fyrir afskriftir skulda í Evrópu.

Rogoff var áður aðalhagfræðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hefur unnið að víðfrægum rannsóknum á fjármálakreppum í heiminum síðustu átta aldirnar, ásamt Carmen Reinhart (sjá t.d. hér).

Reynslan af fyrri fjármálakreppum hefur sýnt að skuldir hins opinbera, heimila og fyrirtækja aukast yfirleitt í kreppunni, stundum verulega. Það á ekki síst við um þær þjóðir sem fara dýpst í kreppuna (sjá hér).

Meiri skuldabaggi leiðir svo að öðru jöfnu til hægari hagvaxtar.

Rogoff telur að ein mikilvæg ástæða hins hæga efnahagsbata í Evrópu sé í senn niðurskurðarstefna og hinn mikli skuldabaggi, sem ekki síst plagar þær þjóðir sem hvað dýpst fóru í kreppuna. Hann tekur einnig undir með Keynesískum hagfræðingum (t.d. Bradford DeLong og Larry Summers, sem og Paul Krugman) sem mæla með örvunaraðgerðum, jafnvel þó þær auki skuldir tímabundið.

Nú er hins vegar komið að því að beita skuldaafskriftum í meiri mæli, segir Rogoff. Erfitt sé að sjá fulla lausn á efnahagsvandanum í Evrópu án verulegrar endurskipulagningar skulda. Beita þurfi öllum tegundum skuldaúrræða („the full debt toolkit“).

Þetta þýðir að alþjóðlegir fjárfestar og bankar þurfa að taka á sig auknar byrðar (enda græddu þessir aðilar gríðarlega í bólunni fyrir kreppu).

Í þessu samhengi hefur verið athyglisvert að sjá hversu mikil andstaða hefur verið við hugmyndir Framsóknarmanna um skuldalækkun til heimila á Íslandi.

Sömu aðilar og hafa lagst gegn slíkum stuðningi við heimilin hafa ekki gert athugasemdir við miklu meiri skuldaafskriftir sem fyrirtæki hér á landi hafa notið (sjá hér).

Mest undrandi getur maður verið á því hve vinstri stjórnmálamenn hafa verið andvígir skuldalækkunum til heimila. Það hefðu þeir átt að styðja kröftuglega (jafnvel þó þeir vildu aðra útfærslu á framkvæmdinni).

Skuldalækkun til heimila er mjög í anda klassískra velferðaraðgerða sem jafnaðarmenn ættu alla jafna að styðja.

Hvers vegna er þetta svona öfugsnúið á Íslandi?

Kanski vinstri menn hér á landi ættu að kynna sér skrif alþjóðlegra fjármálafræðinga, eins og Kenneth Rogoff og Carmen Reinhart.

Eða jafnvel sjónarmið Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (sjá hér).

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar