Laugardagur 25.10.2014 - 11:39 - FB ummæli ()

Fúsk Hannesar Hólmsteins leiðrétt í nýrri frjálshyggjubók

Í gær fór ég á kynningu á nýrri bók um tekjudreifingu og skatta, sem frjálshyggjumenn í Reykjavík gefa út, í ritstjórn Ragnars Árnasonar og Birgis Þórs Runólfssonar.

Kynningin var haldin undir fyrirsögninni “Er ójöfn tekjuskipting óréttlát?” og fór fram í húsnæði Gamma, sem er fjármálafyrirtæki í Reykjavík.

Raunar var kynningin nokkuð öðruvísi en bókin sjálf, sem er skondið út af fyrir sig. Málshefjendum var öllum efst í huga að ekki ætti að amast við miklum ójöfnuði tekna eða einkaeign sjávarauðlindarinnar. Vöruðu sérstaklega við að auðmenn væru skattlagðir svo neinu næmi (sjá hér).

Það sem vakti mesta athygli mína við þessa bók var það, að í henni kemur fram allt önnur niðurstaða um þróun tekjuskiptingarinnar á árunum eftir 1995 en frjálshyggjumenn hafa hingað til viðurkennt.

Frjálshyggjumenn hafa með ýmsum loftfimleikum reynt að halda því fram að ójöfnuður í tekjuskiptingu hafi ekki aukist á Íslandi, þvert á skýrar staðreyndir (sjá t.d. hér).

Á blaðsíðu 12 og í kafla 3 í bókinni kemur fram að Hannes Hólmsteinn er enn að fullyrða þetta. Segir mig hafa haft rangt fyrir mér um að tekjuskiptingin hafi orðið ójafnari og kennir um að ég hafi gert einhverjar reiknivillur.

Allt er það ósatt og hefur verið leiðrétt oftar en einu sinni.

Samt kýs þessi starfsmaður Háskóla Íslands að halda áfram að breiða út ósannindin og reyna að villa um fyrir almenningi.

 

Axel Hall hafnar boðskap Hannesar Hólmsteins

Hagfræðingurinn Axel Hall fjallar um þróun tekjuskiptingar og skattbyrðar á árunum eftir 1995 í þessari bók. Nú ber svo við að Axel fær sömu niðurstöður og ég og samstarfsmaður minn höfum fyrir löngu birt og krufið ofan í kjölinn (sjá t.d. á bls. 16  og kafla 6 og 7 í bókinni „Tekjudreifing og skattar“).

Axel Hall sýnir að tekjuskiptingin varð ójafnari á tímabilinu frá 1995 til 2005, með því að tekjur hinna tekjuhæstu jukust mest allra. Það þýðir auðvitað aukinn ójöfnuður.

En það er ekki allt. Axel Hall sýnir einnig að jöfnunaráhrif tekjuskattkerfisins minnkuðu á tímabilinu (sem einnig jók ójöfnuð) og að skattbyrði einstaklinga hafi aukist vegna rýrnunar persónufrádráttarins (sem þyngir skattbyrði lágtekjufólks mest).

Allt þetta hef ég áður sagt með tilvísunum til traustra opinberra gagna (sjá t.d. hér og hér). Það hafa aðrir innlendir fagaðilar einnig gert.

Öllu þessu hefur Hannes Hólmsteinn hins vegar hafnað, í tugum ef ekki hundruðum ófrægingargreina og kallað villur og skekkjur illa meinandi manns. Birgir Þór Runólfsson og fleiri hafa bergmálað sumar af þessum ófrægingargreinum Hannesar.

En nú hefur mér sem sagt borist óvæntur stuðningur – úr átt frjálshyggjumanna.

Hannes og fleiri hafa ítrekað fullyrt að tekjuskiptingin hafi ekki orðið ójafnari á árunum eftir 1995. Axel Hall hagfræðingur sýnir hið gagnstæða.

Það sama á við um skrif Hannesar um skattbyrði. Axel Hall opinberar einnig staðreyndavillur Hannesar þar.

Raunar hafa erlendir sérfræðingar á sviðinu og virtar hagskýrslustofnanir stutt niðurstöður mínar og samstarfsmanns míns. Málið liggur ljóst fyrir.

Þá er spurningin hvort Hannes Hólmsteinn dregur gríðarlega umfangsmikil villuskrif sín og ófrægingar til baka og biðst afsökunar?

Þar reynir á heilindi þess sem vill láta kalla sig fræðimann.

Hannes er þó hvorki þekktur af heilindum né heiðarleika – og því ekki líklegur til að bæta ráð sitt.

 

Síðasti pistill: Hnignun heilsugeirans – verður eitthvað gert?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar