Þriðjudagur 03.02.2015 - 14:21 - FB ummæli ()

Skipting eigna – hvar er Ísland í röðinni?

Skipting auðsins á Íslandi hefur verið til umræðu að undanförnu. Það er gagnlegt, því eignaskiptingin er hér, eins og annars staðar, mun ójafnari en tekjuskiptingin.

Fjármálaráðuneytið birti í gær tölur úr skattframtölum um eignaskiptinguna á Íslandi (sjá hér og hér). Hagstofan er með talsvert af upplýsingum um þetta á vef sínum (sjá hér). Ég hef birt nokkrar færslur um eignaskiptinguna á bloggi mínu hér á Eyjunni (sjá hér, r, hér og hér).

Lítið hefur þó farið fyrir samanburði á eignskiptingunni á Íslandi og í öðrum vestrænum löndum. Skortur gagna hefur lengi aftrað því, en undanfarið hefur sú staða batnað.

Ofangreindar tölur Hagstofu og fjármálaráðuneytis sýna þó á skýran hátt, að eignaskiptingin á Íslandi er mun ójafnari en tekjuskiptingin. Þær sýna líka að ójöfnuður í eignaskiptingunni á Íslandi hefur aukist mikið á síðasta áratug eða svo.

Athyglisverð ný rannsókn á skiptingu auðsins í heiminum er í skýrslu svissneska bankans Credit Suisse, Global Wealth Report 2014. Þar má finna vísbendingar um skiptingu eigna í ýmsum löndum, í meiri mæli en áður.

Hægt er að bera Ísland saman við ýmis lönd sem eru í þeirri skýrslu. Þannig má til dæmis fá mynd af hlutdeild ríkustu tíu prósentanna og ríkasta eina prósentsins af heildar nettóeignum (eignir að frádregnum skuldum), með þokkalegri vissu. Samt ber að hafa nokkurn fyrirvara á sambærileika gagna á þessu sviði.

 

Mjög mikill ójöfnuður í eignaskiptingunni á Íslandi

Á myndinni hér að neðan eru ofangreindar upplýsingar notaðar til að skoða hvar Ísland er í alþjóðlegum samanburði hvað snertir samþjöppun eigna eða auðs. Við sýnum hlutdeild ríkustu tíu prósentanna og ríkasta eina prósentsins af heildar nettóeignum þjóðarinnar fyrir 29 lönd (færri eru með tölur fyrir ríkasta eina prósentið).

Vísbendingin er sú, að eignaskiptingin á Íslandi sé mjög ójöfn, í samanburði við önnur vestræn ríki. En það á einnig við um hin norrænu löndin, nema helst Finnland.

Eignaskiptingin - alþjóðlegur samanburður

Samanburður á hlutdeild stóreignafólks (hæstu tíu prósentanna og hæsta eina prósentsins) af heildareignum (að frádregnum skuldum).

Heimildir: Credit Suisse 2014; Hagstofa Íslands og Fjármálaráðuneytið

 

  • Ísland er með þriðja mesta ójöfnuðinn í eignaskiptingunni, ef miðað er við hlutdeild eignamestu tíu prósentanna (ljósu súlurnar). Ríkustu tíu prósentin eiga um 70,7% auðsins á Íslandi.
  • Fjármálaráðuneytið sýnir að ríkustu fimm prósentin áttu um frá 48% til 56% hreinna eigna á árunum 2009 til 2013.
  • En ef einungis er litið á efsta eina prósentið (dökku súlurnar á myndinni) þá er Íslandi með 6.-7. mesta ójöfnuðinn, með Noregi. Svíar og Danir eru með enn stærri hlut efsta prósentsins en Ísland, en Finnland er með mun minni ójöfnuð á þessu sviði.
  • Um árið 2000 var Ísland að öllum líkindum með jöfnustu eignaskiptinguna á Norðurlöndum (sjá hér og hér).
  • Ójöfnuður í eignaskiptingunni jókst mikið á Íslandi í aðdraganda hrunsins, mun meira en á hinum Norðurlöndunum, en hefur haldist tiltölulega mikill áfram, þrátt fyrir að tekjuskiptingin hafi orðið mun jafnari eftir hrun (sjá hér).

Það vekur auðvitað athygli að Norðurlöndin skuli vera með eignaskiptingu sem er í ójafnari kantinum, ekki langt frá Bandaríkjunum, því þessi lönd eru þekkt af því að vera með einna jöfnustu tekjuskiptinguna. Þetta misræmi milli skiptingar eigna og tekna hefur þó lengi verið þekkt meðal fræðimanna á þessu sviði.

Á því eru nokkrar skýringar (sjá t.d. hér).

Norrænu velferðarríkin jafna tekjuskiptinguna mikið, án þess að jafna eignaskiptinguna sérstaklega. Veglegri velferðarríki eru stundum einnig talin leiða til þess að fólk spari minna (fyrir lífeyri eða húseignum), sem eykur ójöfnuð eignaskiptingar.

Á Íslandi og í Noregi er séreign húsnæðis þó mikil og ætti eignaskiptingin þar að vera jafnari fyrir vikið. En þá skiptir máli hversu mikið fólk skuldar í fasteignum sínum og á Íslandi er það mikið (sem dregur úr jöfnunaráhrifum séreignastefnunnar).

Á Norðurlöndum er stórfyrirtækjum sýnd mikil tillitssemi, sem hefur til lengri tíma auðveldað samþjöppun eignarhalds á atvinnulífinu, ekki síst í Svíþjóð. Oft tengist þetta mikilvægi viðkomandi fyrirtækja sem útflutningsatvinnugreina.

Þessar tölur varpa að mörgu leyti nýju ljósi á Ísland – og raunar á hin Norðurlöndin líka.

Hinn frægi norræni jöfnuður, sem er einkennandi fyrir tekjur og almenn lífsgæði, nær ekki til eignaskiptingarinnar í sama mæli.

 

——————————————-

Skýringar: Miða er einkum við tímabilið 2008 til 2013 (tölur fyrir Ísland eru frá 2013).

Rétt er að hafa í huga að inn í þessar tölur vantar eignir í erlendum skattaskjólum, sem þýðir að eignir eignamestu hópanna eru sérstaklega vantaldar. Einnig eru fjáreignir eins og hlutabréf talin á nafnvirði en ekki á markaðsvirði, sem einnig vantelur sérstaklega eignir efnaðasta fólksins.

Inn í íslensku tölurnar vantar lífeyriseignir. Eignir í lífeyrissjóðunum dreifast nokkuð jafnt á ólíka tekjuhópa, vegna skylduaðildarinnar. Hins vegar er séreign meiri hjá tekjuhærri og eignameiri hópum (lágtekjufólk safnar síður séreign) og felst því líka vanmat á eignum þeirra ríku með því að undanskilja séreignalífeyrinn. Lífeyriseignir eru óvenju miklar á Íslandi og draga því úr neikvæðri eiginfjárstöðu, en áhrifin á skiptingu eigna eru óljósari.

Matið á eignum efnaðasta fólksins sem í ofangreindum tölum felst er því án efa varfærnislegt.

Löndin sem eru borin saman hér eru þau sem Credit Suisse segir vera með áreiðanlegri upplýsingar, en í skýrslu þeirra eru áætlaðar tölur fyrir mun fleiri lönd. Í þeim hópi eru mörg lönd t.d. frá Asíu og víðar, sem eru sum með mikla hlutdeild hæstu hópanna – þ.e. með mikinn ójöfnuð í eignaskiptingu. Ef þau væru talin með myndi fjölga í hópi þeirra landa sem eru með ójafnari eignaskiptingu en Ísland – hins vegar eru á myndinni helstu löndin sem viðalla jafna berum okkur saman við.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar