Miðvikudagur 20.05.2015 - 12:36 - FB ummæli ()

Ómarktæk könnun SA-manna

Samtök atvinnulífsins (SA) kynntu í gær nýja könnun sem þeir gerðu meðal aðildarfélaga samtaka sinna.

SA segir könnunina sýna, að ef gengið yrði að kröfum Starfsgreinasambandsins (SGS) þá muni koma til uppsagna starfsfólks í öðru hverju fyrirtæki.

Með reiknikúnstum fá þeir svo út að um 16 þúsund manns muni missa vinnuna.

Sextán þúsund manns!

Ef þetta væri rétt þá myndi atvinnuleysið í haust verða mun meira en mest varð eftir hrun, eða um 13% (það varð hæst um 9% á árinu 2009).

Þessi fullyrðing SA-manna vekur því stórar spurningar um marktækni þessarar könnunar. Nánari skoðun sýnir raunar að hún er með öllu ómarktæk.

SA-menn spyrja sína eigin meðlimi, sem allir eru í kjarabaráttu við starfsfólk sitt, um hugsanlegar afleiðingar ef þeir þurfa að gefa talsvert eftir til láglaunafólks.

Áður en farið var af stað með könnunina birtu SA og Seðlabankinn nokkrar “fréttatilkynningar” um að til uppsagna kynni að koma ef gengið yrði að háum kjarakröfum yfir línuna. Verðbólga myndi líka fara úr böndum.

Síðan var hringt í meðlimi SA og þeir spurðir hvort það sé ekki svo!

 

Misnotkun könnunar í áróðursskyni

Þetta er óvenju kaldrifjuð misnotkun könnunar í áróðursskyni.

Svarendur sem hafa mikinn hag af tilteknum svörum við spurningunum eru spurðir, eftir að hafa verið hitaðir upp og brýndir um “rétt svör”.

Auðvitað er ekki hægt að útiloka einhverjar uppsagnir og eitthvað aukna verðbólgu í kjölfar talsverðra kauphækkana hjá launafólki öllu.

Það er hins vegar hvorki sjálfsagt né óhjákvæmilegt að útkoman verði sú sem SA segir.

SGS er einkum að berjast fyrir hækkunum til láglaunafólks. Hækkanir sem þeir fá þurfa alls ekki að ganga upp alla línuna á almennum markaði í sömu hlutföllum. Hækkun til hærri hópa gæti verið innan marka hagvaxtarins á mann sem spáð er (um 4,5% í ár) og þá verða þensluáhrif lítil eða engin.

Jafnvel þó hækkun yfir línuna yrði eitthvað meiri en vöxtur þjóðarframleiðslu á mann (sem virðist ætla að vera með mesta móti á næstu þremur árum) þyrfti ekki að koma til mikillar verðbólgu né víðtækra fjöldauppsagna. Svigrúm til að mæta kauphækkunum með styttingu vinnutíma (framleiðniaukningu) og lækkun aukagreiðslna er víða mikið.

Þessi könnun SA-manna er einfaldlega hlutdrægt og hagsmunadrifið inngrip í kjarasamninga.

Hún segir því lítið um afleiðingar af væntanlegum kjarasamningum við SGS. Nema helst að atvinnurekendur vilja sem minnst gefa eftir af hagnaði fyrirtækja og arðgreislum til að hækka kaupið.

Það lá þó þegar fyrir. Dæmisögurnar frá HB Granda og fjármálafyrirtækjunum segja sennilega allt sem segja þarf um það.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar