Mánudagur 06.07.2015 - 14:15 - FB ummæli ()

Þjóðverjar greiddu ekki skuldir sínar

Við lok seinni heimsstyrjaldarinnar skulduðu Þjóðverjar öðrum þjóðum meira en 200% af landsframleiðslu. Landið var í rúst og þjóðin lifði hörmungar, vegna þeirra byrða sem þýsk stjórnvöld höfðu lagt á landsmenn og aðrar þjóðir Evrópu með stríðsbrölti sínu.

Þá höfðu nágrannar og sigurvegarar styrjaldarinnar ærin tilefni til að saka Þjóðverja um „mistök“ og „stjórnleysi“ og beita þá hörðum aga og refsingum – eins og gert hafði verið með Versalasamningnum eftir fyrri heimsstyrjöldina.

Þá höfðu verið lagðar óbærilegar skuldabyrðar á þýsku þjóðina, sem hún hafði enga möguleika á að standa undir. Það leiddi til meiri ófarnaðar síðar, meðal annars valdatöku Nasista.

Sigurvegaraþjóðirnar lærðu sína lexíu af þessu og lögðu kapp á að gera Þýskalandi fært að ráða við byrðar sínar eftir seinni heimsstyrjöldina og greiddu þeim götu til nýrrar hagþróunar og framfara – á grundvelli lýðræðis.

Um tíu árum eftir stríðslokin höfðu opinberar skuldir Þjóðverja við aðrar þjóðir lækkað úr meira en 200% í um 20%.

Meðulin voru um 60% skuldaafskrift árið 1953, ásamt verðbólgurýrnum annarra skulda (þeir voru ekki með verðtryggingu skulda).

Þessi gríðarlegi skuldavandi Þjóðverja hvarf því á innan við tíu árum – með hjálp annarra. Hann var stærri en skuldabaggi Grikkja er í dag (um 180% af þjóðarframleiðslu).

Einnig fengu Þjóðverjar Marshall-aðstoð frá Bandaríkjamönnum til að greiða fyrir uppbyggingu atvinnulífs og samfélags.

Franski hagfræðingurinn Thomas Piketty bendir á þetta í kröftugu viðtali við þýska tímaritið Zeit um helgina.

Þjóðverjar fengu sem sagt stóran skammt af því sem þeir nú neita Grikkjum um.

Í staðinn krefjast þeir enn meiri niðurskurðaraðgerða, líkar þeim sem hafa engum árangri skilað í Grikklandi síðustu 5 árin og hafa raunar gert stöðuna sífellt erfiðari.

 

Hagfræði blóðtökunnar ræður för í ESB

Forystumenn Evrópusambandsins hafa sett skynsamlega kreppuhagfræði Keynes til hliðar og fest sig við niðurskurðarhagfræði nýfrjálshyggjunnar.

Keynes kenndi að í djúpri kreppu, þegar eftirspurn vantaði í hagkerfið, þá myndi niðurskurður opinberra útgjalda vinna gegn hagvexti og einungis magna vandann. Það er síendurtekinn dómur reynslunnar, líka í núverandi kreppu.

Sjúklingurinn er veikur og lækning niðurskurðarleiðarinnar felur í sér blóðtöku. Hún leiðir til þess að sjúklingurinn veikist enn meira – og þá er boðuð enn meiri blóðtaka.

Þetta er auðvitað “læknisfræði” miðaldanna! Menn lærðu það síðar að blóðtaka er hættuleg í veikindum.

Hvorki Þjóðverjar né aðrir leiðtogar ESB hirða um hagfræðilexíur Keynes og virðast vera fangar hinnar hættulegu hagfræði blóðtökunnar. Minn gamli lærifaðir frá Oxfordháskóla, Nóbelshagfræðingurinn Amartya Sen, skrifaði góða grein um það í New Statesman í síðasta mánuði (sjá hér).

Leiðin sem þeir bjóða Grikkjum felur í sér áratuga skuldabasl og enn meiri þrengingar til skemmri tíma.

Vonleysið eitt er í boði.

Það kaldhæðnislega er að þetta er í algerri andstöðu við hvernig Þjóðverjar sjálfir voru meðhöndlaðir eftir lok hildarleiksins sem þeir stofnuðu til með heimsstyrjöldinni síðari.

Þjóðverjar fengu mikla niðurfellingu skulda sinna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar