Sunnudagur 26.07.2015 - 14:11 - FB ummæli ()

Sýn Jóns Baldvins á stjórnmálin

Fáir ef nokkrir hafa jafn skýra og rétta sýn á stjórnmálin á Íslandi og Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Alþýðuflokksins sáluga.

Jón Baldvin var í viðtali við Sigurjón M. Egilsson á Sprengisandi í morgun. Þar fór hann yfir meginlínurnar í stjórnmálunum til lengri tíma, orsakir og úrvinnslu hrunsins og horfurnar í Evrópu- og gjaldmiðilsmálunum.

Von er á Jóni aftur í þátt Sigurjóns um næstu helgi til að ræða frekar um stöðu jafnaðarmanna á Íslandi.

Ástæða er til að hvetja fólk til að hlusta á greiningu Jóns Baldvins. Mikið má af honum læra, til að skerpa sýnina á verkefni stjórnmálanna og framtíð íslenska samfélagsins.

Jón Baldvin er raunsæismaður í stjórnmálum og óhræddur við að endurskoða fyrri afstöðu sína, í ljósi reynslu og nýrra raka.

Þrátt fyrir að hafa verið leiðtogi aukinna Evróputengsla Íslendinga á liðnum áratugum hefur hann nú alvarlegar efasemdir um stöðu Evrópusambandsins og segir engar líkur á inngöngu Íslands næstu 5 árin. Það gæti raunar varað lengur, myndi ég segja.

Við verðum því áfram með hina gölluðu íslensku krónu, sem leggur byrðarnar af öllum sveiflum þjóðarbúsins á herðar launafólks – oft með mjög ósanngjörnum hætti. Aðrir, eins og útvegsmenn, geta hins vegar grætt stórlega á slíkum sveiflum og tilheyrandi gengislækkunum.

Sveigjanleg fastgengisstefna er eina leiðin í stöðunni nú, segir Jón Baldvin. Það getur að vísu falist mótsögn í hugtakinu “sveigjanleg fastgengisstefna” (hversu sveigjanleg má hún vera til að hætta að teljast föst?), en það er þó líklega rétt hjá Jóni að sú nálgun sé samt vænlegasti kosturinn í stöðunni.

Meiri festa en nú er, en þó með einhverjum sveigjanleika (vikmörkum).

Tenging krónunnar við Evru, líkt og Danir hafa búið við, gæti þannig komið til greina. Hér hlytu þó væntanlega að vera heldur meiri möguleikar á frávikum (meiri sveigjanleiki en Danir búa við).

Gott væri í öllu falli að fá meiri hömlur á sveiflur krónunnar og betri varnir fyrir almannahag – á kostnað sérhagsmuna. Þetta ættu stjórnvöld og Seðlabankinn að skoða í fullri alvöru.

 

Andstaðan við nýfrjálshyggju nútímans

Jón Baldvin var á fyrri áratugum óþarflega hallur undir almenna frjálshyggjustefnu, sem hann sá sem vænlega leið gegn stöðnuðu fyrirgreiðslukerfi og helmingaskiptastjórnmálum.

Það var ekki fráleit áhersla á þeim tíma.

Síðar kynntist hann bandarísku samfélagi í návígi, sem sendiherra í Washington, og sá skýrlega hversu illa nýfrjálshyggjan og auðmannadekrið leikur bandaríska samfélagið.

Síðan þá hefur Jón Baldvin varað sterklega við fjármálavæðingu og ójafnaðarstefnu nýfrjálshyggjunnar á Íslandi. Efla þarf lýðræðisleg stjórnmál og norræna velferðarstefnu gegn auðræði og ójafnaðarþróun, segir Jón Baldvin.

Ef fleiri vinstri og miðjumenn hefðu jafn skýra sýn á þjóðmálin og Jón Baldvin væru stjórnmálin á Íslandi ekki jafn andlaus og ráðvillt og nú er.

 

Síðasti pistill:  Sjálfstæðismenn vilja veikja Landsspítalann

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar