Fimmtudagur 10.12.2015 - 13:41 - FB ummæli ()

Mótun framtíðar – í boði Trausta Valssonar

Fyrir skömmu kom út bókin Mótun framtíðar: Hugmyndir – skipulag – hönnun, eftir Trausta Valsson, prófessor í skipulagsfræðum við Háskóla Íslands.

Þetta er óvenjuleg bók, eins konar fagleg ævisaga. Trausti gerir grein fyrir námi sínu, þróun hugmynda sinna og starfsferli, í samhengi við hugmyndasögu skipulagsfræðanna og tíðarandann í samfélaginu.

Þetta er mjög gott yfirlit um verk Trausta og þróun hans sem skipulagsfræðings og hönnuðar.

Trausti hefur verið afar hugmyndaríkur hönnuður og sett fram margar stórar skipulagshugmyndir sem sumar hafa lifað lengi. Rótin að því er sú, að Trausti hefur verið ófeiminn við að hugsa út fyrir kassann. Hann hefur því oft rekist á kassakarla, sem hafa átt erfitt með að fara út fyrir hið viðtekna og venjulega.

Frumlegir og frjóir menn menn eins og Trausti eiga oft erfitt uppdráttar í hópum þröngsýnna og íhaldssamra. Þeir eru því oft teknir beinlínis úr umferð eða úthrópaðir sem undanvillingar eða sérvitringar.

Það er hins vegar til marks um lagni Trausta að hann hefur komist upp með að hreyfa meira við því viðtekna en flestir.

Þannig eru enn á dagskrá þjóðmálaumræðunnar margar áratuga gamlar hugmyndir sem upphaflega komu frá honum. Sumar eru jafnvel enn uppspretta átaka.

Stærsta hugmynd Trausta er kanski hugmyndin um að flytja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni út á uppfyllingar á skerjunum í Skerjafirði og taka Vatnsmýrina undir miðbæjarstarfsemi og íbúabyggð. Í leiðinni vildi hann tengja saman gamla miðbæinn og Vatnsmýrina og brúa áfram yfir í Kópavog og Álftanes.

Aðrar stórar hugmyndir eru til dæmis sundabrautin, suðurstrandarvegur, hálendisvegir, þétting byggðar, bætt blöndun vinnustaða og íbúabyggðar, betri nýting strandlengjunnar o.s.frv.

 

Meinsemdir módernismans

Trausti hóf nám sitt í Berlín í höfuðvígi módernismans í byggingalist. Hann fjallar mikið um galla módernismans, hinn kalda og hráa stíl og fjöldablokkir úthverfa, sterílar og vélrænar útfærslur í and Le Corbusier og Walter Gropiusar.

Í framhaldsnámi sínu í Berkley háskólanum í Kaliforníu kynntist hann mýkri hlið hönnunar, klassískari stílum og gildi samþættingar og umhverfisskipulags. Hann setur hina vélrænu og militarísku hönnun Berlínar upp sem andstæðu hinnar mjúku, fjölbreyttu og klassísku hönnun Parísarborgar. París hefur vinninginn í huga Trausta. Flestir myndu taka undir það.

Raunar finnur Trausti modernisma flest til foráttu og kennir honum um mörg mestu skipulagsslys tuttugustu aldarinnar. Reykjavík á sín dæmi um meinsemdir módernismans í löngu stórblokkunum í Breiðholti III og ýmsum hugmyndum fyrr og síðar um að hreinsa burt klassíska gamla byggð og setja andlaus kassaháhýsi þar í staðinn.

Trausti segir það einungis heppni að gamli miðbærinn í Reykjavík hafi ekki verið eyðilagður með slíkum áformum, eins og niðurrifi Torfunnar og byggingu kassaháhýsa þar og víðar í anda Moggahallarinnar í Aðalstræti.

Hugmynd um hraðbraut í gegnum Grjótaþorpið og bygging atvinnuhúsnæðis eftir nær allri norðurströnd Reykjavíkur, með tilheyrandi eyðileggingu útsýnis að sundunum og Esjunni (til dæmis frá Laugarnesi að Elliðaárvogi), eru hugmyndir af þeim toga modernisma og aðgreiningar (zoning) sem Trausta líkar ekki við. Undir það má taka.

Í ljósi harðrar gagnrýni Trausta á meinsemdir módernisma finnst mér svolítið skemmtilegt að ég nýt þess að búa í öðru af einungis tveimur íbúðarhúsum á höfuðborgarsvæðinu sem Trausti Valsson hannaði. Það er reyndar hús í módernískum fúnkis-stíl í rúmum garði, en ekki hávaxið fjölbýlishús í anda Grópíusar. Þetta er hið ágætasta hús þar sem tekst að blanda vel saman garði og byggingu, meira í anda Falling Water hússins sem Frank Lloyd Wright hannaði en í anda Bauhaus hönnuðanna sem Trausti gagnrýnir.

Lexía mín af þessu er sú, að módernismi geti bæði verið góður og slæmur. Klassísk hönnun sömuleiðis. Menn eiga ekki að nálgast og meðhöndla stefnur í hönnun og skipulagningu með einstrengingslegum hætti. Það sama ætti líka að gilda um pólitík.

Kredda og einstrengingur eru alltaf hættuleg hjú.

Bók Trausta Valssonar, Mótun framtíðar, er fróðleg umfjöllun um skipulagsmál og hönnun og gott yfirlit um frjótt og mikið ævistarf. Trausti getur litið stoltur til baka nú þegar hann lætur af störfum við Háskóla Íslands, eftir að hafa náð sjötugsaldri.

Vondi heldur hann þó áfram að hugsa út fyrir kassann og ýfa upp umræðuna um skipulagsmál.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar