Föstudagur 01.01.2016 - 15:42 - FB ummæli ()

Glæsilegur viðskilnaður Ólafs Ragnars

Nú þegar Ólafur Ragnar Grímsson hefur lýst því yfir, með afgerandi hætti, að hann muni ekki bjóða sig aftur fram til embættis forseta Íslands er við hæfi að líta til baka.

Ólafur Ragnar hefur verið óvenju sterkur forseti í sögu íslenska lýðveldisins. Hann gerbreytti forsetaembættinu og varð virkari á vettvangi þjóðmála en áður hafði tíðkast.

Hann varð öflugur þjóðarleiðtogi er lét mikilvæg samfélagsmál, alþjóðamál og umhverfismál til sín taka og var óhræddur við að láta brjóta á sér, jafnvel hina stærstu brimskafla.

Þannig breytti Ólafur Ragnar forsetaembættinu úr ópólitísku og hægfara sameiningartákni í virka forystu fyrir þjóðina, á völdum sviðum.

Vigdís lagði áherslu á tunguna, umhverfismál og menningu en Ólafur hefur gert Norðurslóðamál og sjálfbæra orkunýtingu að sínum stóru málum, auk þess að vera óhræddur við að tjá sig um mikilvæg umbótamál í samfélaginu, jafnvel í óþökk stjórnmálamanna.

Þannig hefur hann verið sjálfum sér samkvæmur, frá fyrsta áramótaávarpi til þess síðasta, við að benda á þá vömm og skömm að eldri borgara og öryrkja séu skildir eftir í kjaraþróun og að sárri fátækt sé viðhaldið í landinu, þó þjóðin gæti vel unnið bug á þeim meinsemdum.

Þó ég hafi ekki verið ánægður með allt það sem Ólafur Ragnar hefur fitjað uppá í valdatíð sinni, þá hef ég ítrekað dáðst af hæfni hans og útsjónarsemi.

Það er mikilvægt fyrir þjóð að eiga leiðtoga sem hægt er að líta upp til.

Ólafur Ragnar hefur verið þannig leiðtogi. Í senn sterkur á vettvangi stjórn- og þjóðmála og góður fulltrúi menningar, mennta og samfélagslegra umbóta.

Ólafur forseti getur því litið glaður um öxl. Hans verk eru mikil að vöxtum og flest vel unnin. Hann getur þó, ekki síður en Vigdís forseti, áfram gegn mikilvægu hlutverki sem liðsmaður góðra mála, bæði hér og erlendis.

Það er því þakkarvert að Ólafur Ragnar skuli hafa lýst sig fúsan til að taka áfram með okkur í árarnar á þjóðarskútunni, þegar þörf verður á.

Ég óska lesendum síðunnar farsældar á nýju ári.

 

Síðasti pistill:  Óreiðan í einkageiranum

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar