Miðvikudagur 25.05.2016 - 04:44 - FB ummæli ()

Sjálfstæðismenn klofna

Stofnun Viðreisnar í dag virðist hafa verið vel skipulögð og vel heppnuð. Stofnfundurinn í Hörpu var fjölmennur og áhugi og ákveðni virtist skína úr hverju andliti.

Það er eitthvað að gerast þarna!

En enginn fjölmiðill sem ég hef séð bendir þó á það sem er stærsti fréttapunkturinn við þennan fund.

Þarna klofnaði Sjálfstæðisflokkurinn í fyrsta sinn síðan Sverrir Hermannsson klauf flokkinn með stofnun Frjálslyndaflokksins árið 1998 og setti réttlátara kvótakerfi, umhverfisvernd og velferðarkerfið á dagskrá. Allt mál sem þáverandi forysta Sjálfstæðisflokksins (þ.e. Davíð Oddsson) vildi lítið með hafa.

Albert Guðmundsson hafði áður klofið flokkinn árið 1987 og tekið rúman fjórðung fylgisins með sér.

Fyrsti formaður Viðreisnar var kosinn Benedikt Jóhannesson. Hann hefur ekki aðeins verið áhrifamikill Sjálfstæðismaður um langt skeið, heldur er hann einnig af Engeyjarættinni, sem lengst af var áhrifamikill hluti af valdakerfi Sjálfstæðismanna.

Bjarni Benediktsson er af sömu ætt, þó hann hafi líklega meira af eyjunni Tortólu en Engey að segja nú til dags.

Auk Benedikts eru margir fyrrverandi Sjálfstæðismenn áberandi í stjórn Viðreisnar og í hópi fundarmanna. Sumir þeirra hafa verið áhrifamenn í flokknum. Þarna er einnig nýtt áhugasamt fólk.

Þegar stefnumál og áherslur Viðreisnar eru skoðaðar blasir við að þetta eru viðbrögð við þeim harða einstrengingi, þjóðernisrembingi og sérhagsmunaþjónkun sem hefur orðið að megin einkennum hins nýja Sjálfstæðisflokks, sem varð til á tíma Davíðs Oddssonar og Hannesar Hólmsteins (sjá hér).

Viðreisn vill sinna hagsmunum almennings en bara ekki sérhagsmunum ríka fólksins, eins og einkennir Sjálfstæðisflokkinn nú á dögum (sjá hér).

Davíð Oddsson, sem nú kynnir sig sem sérstakan mann “sátta” í forsetaframboði, er sem sagt orsök þessa nýjasta klofnings í Sjálfstæðisflokknum (sjá hér).

Viðreisn er andsvar við þeim óheppilegu breytingum sem “friðarhöfðinginn” einráði Davíð Oddsson gerði á gamla Sjálfstæðisflokknum!

Viðreisn gæti hoggið umtalsverð skörð í fylgi Sjálfstæðisflokksins, sem þegar er í lægri mörkum.

Viðreisn gæti einnig fengið eitthvert fylgi frá ESB-sinnuðu Samfylkingarfólki og gömlum Alþýðuflokksmönnum, sem leggja meiri áherslu á vestræna samvinnu en jafnaðarstefnuna.

Það er sem sagt ekki bara upplausn á vinstri væng stjórnmálanna heldur ekki síður á hægri vængnum.

Það verður forvitnilegt að fylgjast með framvindunni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar