Í skýrslu okkar Indriða H. Þorlákssonar, Sanngjörn dreifing skattbyrðar, sem kom út í síðustu viku, er útfærð víðtæk umbótaáætlun í skattamálum, sem miðar að því að gera skattkerfið bæði sanngjarnara og skilvirkara.
Þar eru meðal annars útfærðar tillögur um að vinda ofanaf þeirri miklu skattatilfærslu sem orðið hefur á Íslandi á síðustu tveimur áratugum eða svo, þar sem skattbyrði var færð af tekjuhæstu og eignamestu hópunum yfir á milli og lægri tekjuhópa, hlutfallslega mest á tekjulægsta hópinn.
Tillögurnar gera ráð fyrir að allir sem eru með tekjur undir um 900 þúsund krónum á mánuði fái lækkaða staðgreiðslu, mest um 20 þúsund krónur á mánuði fyrir fullvinnandi lágtekjufólk og lífeyrisþega. Um 90% framteljenda fá skattalækkun samkvæmt útfærslum okkar. Þeir sem eru með tekjur frá 900 til 1300 þúsund fá litlar sem engar breytingar á skattbyrði sinni.
Skattar hækka hins vegar fyrst og fremst hjá þeim sem eru með 1.300 þúsund krónur í tekjur á mánuði og yfir, en það eru tekjuhæstu 5% framteljenda.
Sýnt er í skýrslunni hvernig þetta má framkvæma á einfaldan hátt (sjá skýrsluna hér).
Raunveruleg skattbyrði Evrópuþjóða
Í viðauka skýrslunnar eru birtar ýmsar mikilvægar upplýsingar um skattbyrði og samanburð á skattbyrði á Íslandi og í öðrum vestrænum löndum.
Þar má meðal annars sjá að skattbyrði lágtekju- og meðaltekjufólks á Íslandi er nú ein sú hæsta í Evrópu – einmitt fyrir tilstilli Stóru skattatilfærslunnar.
Ísland er með 3.-4. hæstu skattbyrðina í tekjutíundarhópum II til VIII.
Í allra lægstu tekjutíundinni (þar sem eru einkum námsmenn á aldrinum 16-20 ára sem einungis vinna hlutastörf og eru að mestu undir skattleysismörkum) er Ísland ekki eins ofarlega.
En þegar tekjur fólks eru komnar upp fyrir skattleysismörkin (nú um 150.000 kr. á mánuði) þá tekur við þriðja til fjórða hæsta skattbyrði í Evrópu.
Sú útkoma helst upp að tekjuhæstu tíundinni en þar er skattbyrðin á Íslandi ekki nærri eins ofarlega í samanburði við aðrar Evrópuþjóðir. Hátekjufólki er sérstaklega hlíft á Íslandi.
Á myndinni hér að neðan má sjá skattbyrði í annarri tekjutíund (þegar komið er upp fyrir námsmenn og fleiri sem einkum vinna hlutastörf eða hluta úr árinu).
Myndin er dæmigerð fyrir skattbyrði bæði lágtekju- og miðtekjufólks í Evrópu og sýnir stöðu Íslands í þeim hópum.
Fyrir tveimur áratugum var skattbyrði á Íslandi umtalsvert lægri en á öllum hinum Norðurlöndunum.
Norrænu þjóðirnar voru með hærri skattbyrði en Ísland vegna þess að þær vörðu meiri útgjöldum til velferðarmála en Íslendingar.
En eru Íslendingar þá að fá meiri bætur og þjónustu frá opinberu velferðarkerfunum en hinar norrænu þjóðirnar í dag (að Dönum undanskildum)?
Nei, það er því miður ekki reyndin. Opinber velferðarútgjöld á Íslandi eru langt fyrir neðan meðallag OECD-ríkjanna (sjá hér).
Sú tíð að skattbyrði sé lág á Íslandi er semsagt liðin, eftir að Stóra skattatilfærslan breytti stöðu alls þorra almennings hér til hins verra.
En við erum nú með háa skattbyrði án þess að velferðarútgjöldin séu sérstaklega rausnarleg hér á landi.
Tekjuhæstu- og eignamestu hóparnir voru hins vegar þeir sem fengu verulega bætt stöðu með minni skattbyrði en áður hafði verið, eins og sýnt er í skýrslunni.
Tillögur okkar Indriða miða að því að lagfæra þessa stöðu, öllum þorra almennings til hagsbóta – og við sýnum hversu auðvelt er að framkvæma þær umbætur.
Gögnin á myndinni koma úr lífskjarakönnun evrópsku hagstofunnar (Eurostat) og liggja opinber skattagögn yfirleitt til grundvallar. Tölurnar sýna greidda beina skatta sem hlutfall heildartekna fyrir skatta, að teknu tilliti til álagningar og allra löglegra frádráttarliða. Þó vantar hluta fjármagnstekna í efsta tekjuhópinn.
Fyrri pistlar