Þriðjudagur 3.4.2018 - 10:32 - FB ummæli ()

Börnin þarfnast breytinga!

Á undanförnum árum hefur samfélag okkar gengið í gegnum breytingar sem hafa haft víðtæk áhrif á fjölskyldugerð og uppeldisaðstæður barna. Þetta er sambærileg þróun og hefur átt sér stað í öðrum vestrænum ríkjum. Margbreytileiki fjölskyldugerðar og hreyfanleiki í þeim skilningi að börn geta átt marga ólíka aðila sem gegna foreldra- og systkinahlutverki á bernskuskeiði sínu, hefur skapað nýjan veruleika sem horfast verður í augu við.  Þessu til viðbótar hafa breytingar á sviði margmiðlunar og samskiptatækni haft djúpstæð áhrif á félagsleg tengsl og samneyti, vissulega skapað tækifæri til þroska fyrir börnin en líka ógnir og ný úrlausnarefni sem takast verður á við ef ekki á illa að fara. Þróunin í þessum efnum er hröð og það er í senn skylda og áskorun fyrir foreldra og samfélagið allt að bregðast við henni til þess að tryggja börnum okkar eins hagfellda útkomu eins og frekast er kostur.

 

Meira fjármagn í börn er besta fjárfestingin

Mörgum börnum sem er hætta búin í því ölduróti sem að ofan greinir eru í viðkvæmri stöðu og sum njóta alls ekki þess atlætis og umönnunar sem tryggir þroskavænleg uppvaxtarskilyrði og vernd frá áföllum á bernskuárum. Hraði og krefjandi margmiðlunartækni nútímans getur ógnað tengslum við uppalendur sem eru hverju barni nauðsynleg. Gáum við ekki að okkur getur geðheilbrigði barna versnað og ýmsar vísbendingar benda til þess að þetta hafi þegar gerst, sbr. fjölgun ungs fólks á örorku vegna geðheilbrigði. Það er ekki einungis réttur barnsins að samfélagið bregðist við þessari þróun heldur er það skynsamlegt fyrir okkur sem þjóð að verja auknu fjármagni í þessi verkefni. Ekki síst í ljósi rannsókna sem leitt hafa í ljós að hver króna sem við ráðstöfum til að bæta hag barna sparar að minnsta kosti átta krónur síðar á lífsleiðinni – sé einungis litið til fjármagns.

 

Þurfum „snemmtæka íhlutun“

Hugtakið „snemmtæk íhlutun“ felur í sér tvíþætta merkingu. Annars vegar að börn fái aðstoð og hjálp sem fyrst á lífsleiðinni. Hins vegar að liðsinnið sé veitt áður en vandamálið ágerist með skaðlegum afleiðingum sem geta verið óafturkræfar.

Ein stærsta áskorun stjórnmálanna er að ávarpa þetta viðfangsefni með það fyrir augum að fanga börn í áhættu áður en það er um seinan, bregðast við með viðeigandi hætti og tryggja þeim stuðning og nauðsynlega þjónustu svo þau geti tekið virkan þátt í samfélaginu, námi, tómstundum og menningarstarfsemi á hverjum tíma, frá bernsku til fullorðinsára. Í því skyni að treysta þessi markmið þarf að endurskoða velferðarkerfi okkar svo unnt sé að bregðast við erfiðleikum barna með viðeigandi hætti og tafarlaust þegar þeir gera vart við sig.

 

Aukum samvinnu milli kerfa og brjótum niður ósýnilega múra

Forsendur slíkrar snemmtækrar íhlutunar eru að stofnanir samfélagsins sem koma að málefnum barnaleggi sig fram við að brjóta niður ósýnilega múra á milli ólíkra málaflokka, stjórnsýslustiga og stofnana og tryggja þverfaglega nálgun og samstarf allra sem bera ábyrgð gagnvart börnum. Frjáls félagasamtök hafa í mörgum tilvikum stoppað upp í götin í velferðarkerfinu með margháttuðum stuðningi við börn. Fram þarf að fara markviss umræða um verkaskiptingu og samstarf hins opinbera hjálparkerfis og frjálsra félagasamtaka um fyrirkomulag snemmtækrar íhlutunar. Mikilvægt er að í þessu samhengi sé hugsað út fyrir ramma hefðbundins þankagangs.

 

Náum samstöðu um breytingar

Undanfarið hef ég átt fundi með fjölmörgum félagasamtökum og einstaklingum um það sem að ofan greinir. Það hefur sannfært mig um að rétt sé að hefja formlega ferli sem miðar að því að innleiða í auknu mæli snemmtæka íhlutun í málefnum barna, þörf er á samhæfingu og samstarfi stofnana samfélagsins.

Sem ráðherra málefna barna og barnafjölskyldna tel ég rétt að endurskoða gildandi lagaumhverfi með það fyrir augum að styrkja stöðu barna, tryggja í auknu mæli snemmtæka íhlutun, treysta rétt barnsins í málsmeðferðinni sem og að bæta umgjörð barnafjölskyldna. Samhliða þessu er nauðsynlegt að endurskoða verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, einkum með hliðsjón af forvörnum, aðgerðum til að koma í veg fyrir ofbeldi gegn börnum og ennfremur ábyrgð á sérhæfðum úræðum fyrir börn og fjölskyldur.

Við þessa vinnu verður leitað fyrirmynda hjá þeim ríkjum sem fremst standa, enda óþarft að finna upp hjólið. Við erum fámenn, vel menntuð og fjársterk þjóð í alþjóðlegum samanburði og því eru góðar líkur á að okkur takist að komast í fremstu röð þjóða sem tryggja réttindi barna og velferð þeirra til framtíðar.

 

(Þessi grein birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. apríl 2018)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 7.10.2017 - 00:14 - FB ummæli ()

Eftirlaun og atvinnuþátttaka

Talsverðar breytingar urðu á lífeyriskerfinu um síðustu áramót. Ýmislegt jákvætt hefur áunnist með þessum breytingum en það eru þættir sem þarf að lagfæra. Einn af þeim þáttum sem þarfnast breytinga er sú staðreynd að nýja kerfið er atvinnuletjandi fyrir þá sem komnir eru á eftirlaun. Þetta er þáttur sem mikilvægt er að breyta.

 

Við eldumst öll og sem betur fer eldast mörg okkar mjög vel og halda starfsorku langt fram yfir lífeyrisaldur. Það er sorglegt þegar samfélagið lítur svo á að um leið og fólk komist á lífeyrisaldur þá sé þeirra hlutverk það eitt að bíða eftir endalokunum. Við þurfum að virkja þennan hóp, þeir sem vilja vinna eiga að geta það og allir hvatar þurfa að vera í þá átt.

 

Virkjum fólk til vinnu

Margir sem komnir eru á eftirlaun vilja áfram vera hluti af íslenskum vinnumarkaði en gera það ekki vegna þess hve lág mörk eru fyrir skerðingum á lífeyristekjum. Mér er ómögulegt að skilja hvernig það getur verið samfélagslega hagkvæmt að einstaklingar sem hafa fulla starfsorku séu fjötraðir heima í stað þess að taka þátt í samfélaginu. Það þjóðhagslega hagkvæmt að virkja fólk til vinnu.

 

Hvati til atvinnuþátttöku

Atvinnuleysi á Íslandi er innan við 2% sem er með því lægsta sem þekkist í heiminum. Það hefur verið mikil spenna á vinnumarkaði undanfarin ár og því er mikið af erlendu starfsfólki sem starfar á Íslandi. Þrátt fyrir að þessir erlendu starfsmenn greiði skatta þá taka þeir oft á tíðum ekki jafn mikinn þátt í íslensku hagkerfi. Tekjur sem eldri borgarar vinna fyrir eflir íslenskt hagkerfi mun meira.  Það má því með sanni segja að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að hvetja til þess að fólk fari í vinnu ef aðstæður leyfa.

 

Aukin atvinnuþáttaka er heilbrigðismál

Í stefnumótun um heilbrigðismál er ævilega lögð áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir. Það er fátt meira fyrirbyggjandi heldur en hvetja til þess að fólk haldi áfram að taka þátt í samfélaginu eftir að það hefur náð eftirlaunaaldri.

 

Forgangsmál að breyta frítekjumörkum

Þeir sem komnir eru á lífeyrisaldur eru einstaklingarnir sem mótuðu þá nútíð sem við lifum og störfum í. Við eigum að bera virðingu fyrir þessu. Það á að nýta krafta þessa hóps og virkja til þátttöku á íslenskum vinnumarkaði. Framsókn leggur áherslu á að það verði eitt af fyrstu verkefnum nýrrar ríkisstjórnar að breyta frítekjumörkum þannig að eldra fólk sjái hag í því að fara út á vinnumarkaðinn.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 28.9.2017 - 13:41 - FB ummæli ()

Grunnbreytingar sem snúa að byggðamálum

Það er þjóðhagslega mikilvægt að hafa öfluga byggð allt í kringum landið. Eftir efnahagshrunið varð landsbyggðin fyrir meiri blóðtöku í formi tapaðra opinberra starfa en höfuðborgarsvæðið, það var dregið meira úr stuðningi við menningartengda starfsemi á landsbyggðinni, meira var skorið niður hjá ýmsum heilbrigðisstofnunum o.s.frv. Nú þegar góðæri ríkir í hagkerfinu erum við því miður að sjá sömu þróun halda áfram. Það segjast allir vera sammála um að mikilvægt sé að snúa þessari þróun við og ég trúi því að víðtækur vilji sé til þess. En af hverju gerist það ekki?

Mikil gagnrýni hefur komið fram á byggðastefnu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Svo mikil að ákveðnir þingmenn eru þegar farnir að hlaupast undan eigin fjárlagatillögum í aðdraganda kosninga.

Fjárlagagerð ríkisins var nýlega breytt og höfðu margir áhyggjur af því að nýja vinnulagið myndi sjálfkrafa veikja dreifðar byggðir landsins. Verið væri að færa ráðuneytum aukið vald og minnka möguleika lýðræðislegra kjörinna fulltrúa til að hafa áhrif. Undirritaður var einn þeirra sem hafði áhyggjur af þessu og Framsóknarflokkurinn lagði til ýmsar breytingar til að tryggja stöðu hinna dreifðu byggða. M.a. var samþykkt að fjárlagafrumvarp hvers árs skyldi fara í sérstaka byggðaúttekt sem unnin væri af Byggðastofnun. Hugsunin var sú að Byggðastofnun ynni þvert á málaflokka, væri virkur aðili við fjárlagagerðina og veitti aðhald í ólíkum málaflokkum. Þannig væri hægt að koma í veg fyrir að tillögur sem hefðu mjög byggðaraskandi áhrif væru lagðar fram. Byggðastofnun hefur sjálf sagt að markmið þeirrar hugsunar sem lýst er í lögum um opinber fjármál sé ekki að nást.

Það er algert lykilatriði að ráðast í grunnbreytingar sem snúa að byggðamálum.

  • Það verður að ráðast í breytingar á lögum um opinber fjármál. Þar verður að tryggja að byggðamál komist að á fyrri stigum fjárlagagerðar. Lýðræðislega kjörnir fulltrúar verða líka að hafa óskerta möguleika til að þess að koma stefnu sinni til framkvæmda í gegnum fjárlagafrumvarpið.
  • Það verður að koma á þeirri vinnureglu að lagafrumvörp, reglugerðir og aðrar stjórnvaldsaðgerðir séu metnar út frá áhrifum á byggðir landsins áður en þær eru lagðar fram. Hefði slíkt vinnulag verið til staðar þá hefðu skelfilegar tillögur ríkisstjórnarinnar til lausnar á vanda sauðfjárræktarinnar aldrei litið dagsins ljós.

Ég er sannfærður um að þessar breytingar myndu oft á tíðum koma í veg fyrir það að vinstri höndin viti ekki hvað sú hægri er að gera þegar kemur að byggðamálum.

Gleymum því síðan aldrei að almennar byggðaaðgerðir efla ekki einungis dreifbýl svæði landsins heldur fær ríkissjóður og þjóðin öll ávinninginn margfalt til baka í aukinni verðmætasköpun og gjaldeyristekjum.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 23.4.2016 - 22:26 - FB ummæli ()

Dýrafjarðargöng fyrir kosningar!

Í því ágæta blaði Vestfirðir sem ritstýrt er af Kristni H. Gunnarssyni fyrrverandi alþingismanni birtist nýverið frétt undir yfirskriftinni „Óvissa um Dýrafjarðargöng“. Í umræddri frétt er látið liggja að því að einhver óvissa sé uppi um það hvort framkvæmdir við Dýrafjarðargöng hefjist á næsta ári líkt og áætlanir gera ráð fyrir.

Ólína Þorvarðardóttir var fljót að grípa boltann frá Kristni H. Gunnarssyni á lofti og heldur því fram í bloggfærslu  á Eyjunni að sannleikurinn sé sá að aldrei hafi staðið til að hefja framkvæmdir við Dýrafjarðargöng á næsta ári.

 

Hefur það áhrif að flýta kosningum?

Þessa ljósmynd tók ég sl. fimmtudag en þá ók ég um Hrafnseyrarheiði á leið minni frá Þingeyri á Bíldudal. Dýrafjarðargöng munu leysa af hólmi veginn yfir Hrafnseyrarheiði.

Þessi ljósmynd sýnir snjóalög á Hrafnseyrarheiði á sumardaginn fyrsta (21. apríl 2016). Þann dag ók ég um Hrafnseyrarheiði á leið frá Þingeyri á Bíldudal. Dýrafjarðargöng munu leysa af hólmi veginn yfir Hrafnseyrarheiði.

Staðreyndin er sú að til stendur að bjóða Dýrafjarðargöng út í haust þannig að framkvæmdir geti hafist á næsta ári en hefur það áhrif að flýta kosningum.

Það liggur í raun ekkert á að kjósa en stjórnarandstaðan hefur hinsvegar lagt ríka áherslu á að kjósa helst strax. Undirritaður hefur verið talsmaður þess að ríkisstjórnin klári mikilvæg verkefni sem liggja fyrir áður en boðað verður til kosninga og það er ánægjulegt að sjá að fleiri eru farnir að sjá mikilvægi þess að svo verði.

Samgönguáætlun. Samgönguáætlun fyrir árin 2015-2018 gerir ráð fyrir því að ráðist verði í Dýrafjarðargöng á næstu árum. Áður en kosningum verður flýtt þá skulum við klára að afgreiða samgönguáætlun sem mælt var fyrir í síðustu viku.

Fjárlög 2017. Það verður væntanlega gert ráð fyrir fjármagni í Dýrafjarðargöng í samræmi við samgönguáætlun fyrir næsta ár. Áður en kosningum verður flýtt þá skulum við klára að afgreiða fjárlög fyrir árið 2017 og tryggja þannig fjármagn til verkefnisins á næsta ári.

Útboð á Dýrafjarðargöngum. Það hefur verið rætt um það að verkið verði boðið út í haust. Það liggur fyrir fyrirspurn frá mér um þetta í þinginu þar sem spurt er hvenær ráðgert sé að bjóða út verkið. Ráðherra samgöngumála hefur ekki sagt annað en til standi að hefja framkvæmdir á næsta ári en við skulum fá formlegt og opinbert svar við þessari fyrirspurn. Áður en kosningum verður flýtt þá skulum við sammælast um að búið verði að bjóða út Dýrafjarðargöng!

Það stendur ekki annað til hjá núverandi ríkisstjórn en að framkvæmdir hefjist á næsta ári en þegar þeir sem hæst hafa um að flýta verði kosningum eru síðan farnir að gagnrýna þau áhrif sem það kunni að hafa þá er manni óneitanlega brugðið. Þeir sem hafa áhyggjur af því að kosningar hafi áhrif á þetta verkefni ættu að sammælast um að klára ofangreinda þætti áður en gengið verður til kosninga. Til er ég! Enda mikill áhugamaður um að Dýrafjarðargöng komist af stað og enginn sérstakur áhugamaður um að flýta Alþingiskosningum nema að mikilvægum verkefnum sé lokið áður.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 13.4.2016 - 22:18 - FB ummæli ()

Jökulsárlón – SOLD!

800px-Jökulsárlón_lagoon_in_southeastern_IcelandJökulsárlón sem eru ein af helstu náttúruperlum Íslands voru seld á uppboði í dag. Jökulsárlón hafa á undanförnum árum verið einn fjölfarnasti og vinsælasti ferðamannastaðurinn hér á landi en þau eru m.a. í 2. sæti á vefsíðunni Tripadvisor yfir þá staði sem taldir eru mest spennandi að heimsækja á Íslandi. Kaupendahópurinn samanstendur af erlendum fjárfestum með félag skráð á Evrópska efnahagssvæðinu. Ekki fást frekari upplýsingar um samsetningu hópsins né hvort kaupendurnir séu raunverulega staðsettir innan EES. Ekkert liggur fyrir um hvað hópurinn ætlar sér með kaupunum né hvaða áhrif það kunni að hafa á svæðið.  Lögfræðistofan X sem kemur fram fyrir hönd kaupenda vildi ekki veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.

Svona gæti frétt hljómað í fjölmiðlum eftir einungis 40 daga ef marka má fréttir í fjölmiðlum í dag.

Það hafa verið ótrúlega litlar umræður um þetta en það er ljóst að ekkert mál ætti að vera stærra næstu vikurnar. Nú er mikilvægt að fólk úr öllum áttum taki höndum saman! Stjórnvöld verða einfaldlega að leita allra mögulegra leiða til að koma í veg fyrir að þetta gangi í gegn.

 

jokulsarlon

Á vefsíðunni Tripadvisor er Jökulsárlón í 2. sæti yfir þá staði sem taldir eru mest spennandi hér á landi.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 1.4.2016 - 09:33 - FB ummæli ()

Jóhönnustjórnin – Stjórnarskrá ver kröfuhafa!

Í Kastljósi í gærkvöldi ræddu Vigdís Hauksdóttir og Steingrímur J. Sigfússon um endurreisn bankanna í tíð síðustu ríkisstjórnar. Steingrímur lét að því liggja að ekki væri ástæða til að fara ofan í það hvernig staðið var að endurreisn bankanna á síðasta kjörtímabili þar sem komið hefði út sérstök skýrsla um endurreisn bankanna og farið hefði fram umræða um hana á Alþingi. Ég man vel eftir þessari umræðu vegna þess að hún fór fram 1. júní 2011, en það var daginn sem ég gekk til liðs við Framsóknarflokkinn.

En hvað var sagt við umræður um áðurnefnda skýrslu?

Lilja Mósesdóttir sem á síðasta kjörtímabili var ein af okkar öflugustu þingmönnum þegar kom að efnahagsmálum og baráttunni við erlenda kröfuhafa hafði m.a. þetta að segja í þessari umræðum:

“…Þegar ég ákvað stuttu fyrir kosningar 2009 að bjóða mig fram fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs trúði ég að forystu VG væri best treystandi til að reisa við efnahagslífið með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Aldrei grunaði mig að formaður VG myndi ásamt forystu Samfylkingarinnar verða uppvís að því að gæta hagsmuna erlendra kröfuhafa, eins og Breta, Hollendinga og vogunarsjóða, í Icesave-málinu og nú við endurreisn bankakerfisins….Skjaldborg um bankanna skapar ekki velferð og hagvöxt. Það gerir hins vegar skjaldborg um heimilin og fyrirtækin. Endurreisn bankakerfis á forsendum vogunarsjóða en ekki hagsmuna almennings er vinstri stjórn til ævarandi skammar…”

 

Í þessari umræðu spurði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þáverandi fjármálaráðherra Steingrím J. Sigfússon að eftirfarandi spurningu:

“…Hefði ekki verið ráð að nota tækifærið sem gafst á meðan þessi eignasöfn voru lágt metin á heimsmarkaðsverði og láta íslenskan almenning og fyrirtæki njóta góðs af því, þau áttu inni vegna þeirra áhrifa sem efnahagskrísan hafði valdið?”

Þá svaraði Steingrímur J. Sigfússon þáverandi fjármálaráðherra :

“…Ég veit ekki hversu rækilega þarf að reyna að útskýra að slíkt sé ekki hægt í svona ferli þegar menn verða að ganga út frá grundvallarreglunum sem ég hef farið yfir hér, þegar stjórnarskrá er í gildi þar sem eignarréttur er til staðar og varinn og verndaður og þegar stjórnvöld í ofanálag hafa heitið því að viðhafa sanngjarna málsmeðferð í svona uppgjöri….”

 

Skýrara verður það ekki. Jöhönnustjórnin taldi að ekki væri hægt að gera það sem Framsóknarflokkurinn vildi gera. Það var nefnilega búið að lofa kröfuhöfum “sanngjörnu” uppgjöri!!

 

Er nema von að Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar hafi nýverið skrifað bréf til flokksmanna þar sem hann sagði m.a. að forgangsröðun í þágu kröfuhafa hafi verið ein af mistökum síðasta kjörtímabils. Er ekki kominn tími til að fá öll spilin á borðið og kanna hvað það var sem réði för þegar farið var gegn almenningi og kröfuhöfum lofað að ekki yrði tekið á þeim?

Ríkistjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks snéri strax af þessari braut. Byrjað var á því að afnema undanþágu fallinna fjármálafyrirtækja frá því að greiða bankaskatt og í framhaldinu hófst vinna sem miðaði að því að innlendar eignir þrotabúanna yrðu afhentar Íslendingum. Það er sérstakt að hlusta á þingmenn úr röðum núverandi stjórnarandstöðu setja uppgjör ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks við kröfuhafana sem eina af ástæðum þingrofstillögu sinnar. Umræðurnar verða hinsvegar kærkominn vettvangur til að ræða breytta stefnu og þá staðreynd að erlendir kröfuhafar eru að færa ríkissjóði hundruði milljarða. Nokkuð sem kallað var poppúlismi fyrir síðustu kosningar.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 11.12.2015 - 20:43 - FB ummæli ()

Söguritun Samfylkingarinnar

Samfylkingin rær nú lífróður með það að markmiði að endurskrifa söguna varðandi gjafmildi þeirra við erlenda kröfuhafa. Þingflokksformaður Samfylkingarinnar er mikill meistari í þessum efnum. Hann gerir enn á ný tilraun á facebook síðu sinni í dag til að draga upp nýja mynd af sögu þessara mála og ver formann sinn.

Framsókn var eini flokkurinn sem sagði að það yrði að taka á erlendum kröfuhöfum. Sigmundur Davíð var ítrekað ásakaður um popúlisma þegar því var haldið fram að hægt væri að krefja erlenda kröfuhafa um að láta fjármagn af hendi.

Staðreyndin er sú að Samfylkingin reyndi ítrekað á síðasta kjörtímabili að auka skuldir Íslendinga í þeim tilgangi að greiða erlendum kröfuhöfum fjármagn sem þeir áttu engan rétt á. Þetta sáum við í Icesave málinu og þetta var líka hugmyndin þegar kom að lausn snjóhengjuvandans. í grein sem Árni Páll birti í Fréttablaðinu á árinu 2012 og bar yfirskriftina „Að brjótast út“ viðraði Árni Páll hugmyndir Samfylkingarinnar í málinu en þar sagði hann m.a.

“Ein leið í þessu efni væri sú að í aðildarviðræðunum yrði samið um að evrópski Seðlabankinn myndi veita fyrirgreiðslu til að unnt yrði að fjármagna útflæðið allt strax í upphafi eða á fárra ára tímabili, með endurgreiðslu yfir lengra tímabil. Slík lausn myndi væntanlega valda því að krónan félli minna en ella við afnám haftanna og greiða fyrir því að rétt verð fengist á hana fljótt, svo auðveldara væri að ganga beint inn í ERM II og taka upp evru án vandkvæða í kjölfarið.

Hugmyndin var  að fara grísku leiðinu og taka erlent lán til að greiða út snjóhengjuna til erlendra kröfuhafa. Forystumenn Samfylkingarinnar kalla eftir því að hlustað sé á þá. Sagan sýnir okkur að það er þjóðhagslega óskynsamlegt að hlusta á Samfylkinguna þegar kemur að þessum málum og enn síður þegar lagt er upp með sagnaritun sem á enga stoð í raunveruleikanum.  Það er ekki nema von að menn séu farnir að velta því fyrir sér að koma naktir fram en ef einhver er berstrípaður þá er það Samfylkingin í málum sem snúa að erlendum kröfuhöfum.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 23.11.2015 - 10:52 - FB ummæli ()

Fjárlög og fjármagn til byggðamála

Fjárlög og fjármagn til byggðamála

Til að Ísland standi undir velferð íbúanna verður landið að vera sem mest í byggð. Til að afla tekna af ferðamennsku og náttúruauðlindum, svo dæmi séu tekin, verður byggðin að vera traust sem víðast um landið. Á árunum eftir hrun varð landsbyggðin fyrir meiri blóðtöku í formi tapaðra opinberra starfa en höfuðborgarsvæðið. Tek undir með formanni byggðaráðs Skagafjarðar um að það þurfi að veita auknu fjármagni til byggðamála en það þarf meira til.

Byggðaúttekt á fjárlagafrumvarpi

Undirritaður lagði til við fjárlaganefnd Alþingis árið 2010, ásamt Kristjáni Þór Júlíussyni þingmanni Sjálfstæðisflokksins, að gerð yrði úttekt á byggaðáhrifum fjárlagafrumvarpsins áður en það yrði samþykkt. Ástæða tillögunnar var sú að veruleg hætta væri á því að mörg byggðalög þyldu ekki þann gríðarlega niðurskurð sem boðaður var í fjárlögum enda af litlu að taka vegna mikillar fólksfækkunar og neikvæðs hagvaxtar undanfarin ár. Þá var það einnig að gerast  að ráðuneytin og síðan undirstofnanir, hver í sínu horni, voru að vinna hagræðingartillögur án þess að neinn væri með yfirsýn yfir heildaráhrifin. Niðurstaða úr þessari úttekt kom ekki fyrr en í apríl 2013 og sýndi því miður að þessar spár höfðu orðið að veruleika.

Fjárlaganefnd Alþingis hefur haft til umfjöllunar frumvarp um opinber fjármál en þar er verið að móta nýjan ramma utan um það hvernig fjárlagafrumvarp er unnið. Við vinnslu málsins ákvað fjárlaganefnd að leggja til breytingar sem fela það í sér að fjárlagafrumvarp hvers árs skal fá sérstaka byggðaúttekt sem unnið verður af Byggðastofnun áður en frumvarpið er lagt fram.

 

Fjárlög 2016 – Það þarf aukið fjármagn til byggðamála

Ég er sannfærður um að fjárlagafrumvörp sl. 10 ára myndu falla á slíkri úttekt enda hefur þjónustu víða á landsbyggðinni hrakað jafnt og þétt. Skilningur fyrir mikilvægi öflugrar byggðar fer vaxandi. Í ljósi þeirrar breyttu hugsunar sem lögð er til við vinnslu fjárlaga þá er mikilvægt að við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2016 þá verði byrjað að rétta kúrsinn og veitt verði auknu fjármagni til byggðamála. Brotthættar byggðir eru einn af þeim liðum sem þarf á auknu fjármagni að halda.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 31.10.2015 - 10:13 - FB ummæli ()

Það skiptir máli hverjir stjórna landinu!

Það þarf engin orð… Myndbandið talar sínu máli..

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar gerir ráð fyrir að erlendir kröfuhafar láti af hendi um 500 milljarða. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur reyndi að ríkisvæða sambærilegar fjárhæðir frá erlendum kröfuhöfum gegnum Icesave. Mismunurinn gerir u.þ.b. 8 milljónir á hvert heimili á Íslandi. Munurinn verður ekki mikið skýrari.

Svo segja menn að það skipti ekki máli hverjir stjórni landinu!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.10.2015 - 12:32 - FB ummæli ()

Íslandsbanki ríkisbanki – Mistökin og framtíðin

Nú berast fréttir af því að kröfuhafar Glitnis leggi til að eignarhlutur í Íslandsbanka renni til ríkisins og það verði hluti af stöðugleikaframlagi. Þessar fréttir verða að skoðast í því ljósi að þetta eru tillögur frá kröfuhöfunum sjálfum og eiga stjórnvöld eftir að taka afstöðu til þeirra. En ljóst má vera að þeir leggja þetta til þar sem ekki er mögulegt að uppfylla ströng stöðugleikaskilyrði með öðrum hætti.

Íslandsbanki var upphaflega stofnaður sem einkabanki og rekinn sem slíkur þar til árið 2008 þegar hann var ríkisvæddur með neyðarlögunum. Ríkisstjórn Vinstri Grænna og Samfylkingar ákvað síðan að afhenda kröfuhöfum bankann á síðasta kjörtímabili.

Þessar nýju fréttir vekja óneitanlega upp spurningar um af hverju Íslandsbanki var afhentur kröfuhöfum á síðasta kjörtímabili? Það var greinilega ekki hugsunin að taka fast á þessum málum og verja hagsmuni Íslands. Eða voru menn kannski að hugsa um að láta kröfuhafana eiga bankanna tímabundið? Ef sú var raunin þá hlýtur að þurfa að gera úttekt á því hvað verðmæti bankans jókst frá þeim tíma til dagsins í dag.

Nóg um það en nú þarf að horfa til framtíðar og læra af mistökum sem gerð voru á síðasta kjörtímabili.

 

Samfélagsbanki í eigu almennings!

Vandi síðustu ríkisstjórnar var að hún stillti sér upp með fjármálakerfinu og kröfuhöfum í stað þess að standa með almenningi. Bankakerfið er til fyrir heimili og fyrirtæki landsins en ekki öfugt. Verði þetta raunin þá er ljóst að ríkið á tvo af þremur stærstu bönkunum og í framhaldinu þá er nauðsynlegt að móta stefnu fyrir bankakerfið með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Það verður að fá fleiri að þeirri vinnu heldur en „reynda“ bankamenn.

Það er mikilvægt að annar þessara banka verði að stórum hluta í eigu almennings í landinu. En í stað þess að ríkið eitt eigi bankann þá ættum við að skoða þann möguleika að allir Íslendingar geti beint og milliliðalaust eignast hlut í öðrum þessara banka. Um hann verði í framhaldinu mótuð stefna með að það markmiði að bjóða sem hagkvæmasta þjónustu og tryggja hagsmuni almennings. Í raun ætti að skoða þann möguleika að afhenda almenningi hluta bankans gegn skýrum skilyrðum og á hagstæðum kjörum. Verði þetta skoðað þá þarf hinsvegar að móta mjög skýrar og gegnsæjar reglur sem tryggja að ekki sé um að ræða aðkomu fárra útvaldra og að ekki sé hægt að framselja hlutina í von um skyndigróða. Ef vel tekst til þá gæti stofnun á slíkum samfélagsbanka orðið skynsamleg aðgerð bæði efnahagslega og lýðræðislega.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Ásmundur Einar Daðason
Félags- og barnamálaráðherra
RSS straumur: RSS straumur