Föstudagur 14.12.2018 - 10:16 - Rita ummæli

Krónan og kjörin

Hækkun lægstu launa, breytingar á skattkerfinu og aukið framboð á húsnæði á viðráðanlegu verði eru mikilvægustu baráttumálin í komandi kjarasamingum. Hátt verð á leigumarkaði og skortur á húsnæði fyrir ungt fólk og þá efnaminni eru svartir blettir á velferðarsamfélaginu sem þarf að bæta úr hið bráðasta.

Verkalýðshreyfingin hefur endurnýjað forystuna og stéttarfélög stillt saman strengi. Væntingar eru miklar og vonir félagsmanna standa til þess að nú takist að semja um eitthvað sem má líkja við þáttaskil þjóðarsáttar og byggingu Breiðholtsins á sínum tíma.

Í krónuhagkerfinu er hrópandi aðstöðumunurinn á milli fjármagnseigenda og launafólks. Gegn honum þarf að vinna á meðan almenningur býr við hlekki krónuhagkerfisins. Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við HÍ, benti á það í greininni Bylting í krónulandi í Kjarnanum á dögunum að launafólk væri fast inn í krónunni á meðan fjármagnseigendur geta farið inn og út að vild. Slíkt skapar aðstöðumun og  eignaskipting verður ójafnari fyrir vikið.

Fjármagnið getur þannig vikið sér undan lækkun gengis krónunnar á meðan hún verður til þess að kaupmáttur launa lækkar, fasteignalán hækka og launafólk skuldar meira í krónum mælt. Vítahringur opnast sem erfitt getur verið að loka. Launafólkið gengur undir höggin sem sveiflurnar í hagkerfi sem heldur úti minnsta gjaldmiðli í veröldinni skapar.

Til lengri tíma litið er ekkert hagsmunamál stærra eða mikilvægara fyrir almenning í landinu en breytingar í gjaldmiðilsmálum. Lækkun vaxta og afnám verðtryggingar fylgja sjálfkrafa slíkum breytingum. Kostnaður samfélagsins við krónuna er varlega áætlaður 110 miljlarðar á ári, eða um milljón á ári á hverja fjölskyldu í landinu.

Ráðist var í útreikning á kostnaðinum af Vísbendingu í tilefni af svari fjármálaráðherra til undirritaðs við fyrirspurn á Alþingi fyrir 3 árum, um hver væri áætlaður beinn árlegur vaxtakostnaður íslenskra heimila og fyrirtækja vegna krónunnar, samanborið við vaxtastig alþjóðlegrar myntar á borð við evru.

Í skriflegu svari ráðherra til mín er áætlað að kostnaður heimilanna við krónuna sé á bilinu 0,6 til 1,5 prósent, eða 11 til 29 milljarðar á ári. Samkvæmt Vísbendingu er aukakostnaður þjóðarinnar af því að halda úti íslenskri krónu á bilinu 110 til 130 milljaðar á ári.

Gylfi bendir á að þessi aðstöðu­munur hafi stuðlað að því að eigna­skipt­ingin er ójafn­ari hér á landi en launa­tekju­dreif­ing­in. „Þannig eiga rík­ustu tíu pró­sentin um 70% fram­tal­inna eigna en sam­svar­andi hópur er ein­ungis með nærri 25% heild­ar­tekna fyrir skatta. Bilið á milli ójafn­að­ar­stigs­ins í eigna- og tekju­skipt­ing­unni nú er enn meiri en hann var t.d. á árunum fyrir seinni heims­styrj­öld,“ segir Gylfi í greininni.

Þar til pólitískur meirihluti myndast sem hefur burði og áræði til að takast á við stærsta mál samtímans, gjaldmiðilsmálin, þarf að vinna gegn afleiðingum fyrirkomulagsins með tiltækum ráðum. Komandi kjarasamningar gefa væntingar um að slíkt geti verið í sjónmáli.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 1.11.2018 - 21:05 - Rita ummæli

Svikalogn

Svikalogn hefur ríkt í gjaldmiðilsmálum Íslendinga. Harkalegt fall krónunnar fyrir skömmu rifjaði þá staðreynd upp að stöðugleiki er nánast ómögulegur á minnsta sjálfstæða myntsvæði í veröldinni.

Það eitt að fjárfestingabankinn risavaxni Goldman Sachs ákvað að losa sig við íslenskar krónur orsakaði meðal annars hina miklu lækkun á gengi krónunnar í október, sem varð til þess að Seðlabanki Íslands greip inn í og keypti krónur til að hægja á fallinu.

Ástæðurnar var ekki að finna nema að óverulegu leyti hér heima. Það að ákvörðun bandarísks banka um að losa krónur geti valdið harkalegu gengisfalli sem skilar sér beint í verðhækkunum, hærri vöxtum og hækkun lána, verðtryggðra og óverðtryggðra, er beinlínis háskalegt fyrirkomulag sem á sér enga réttlætingu.

Gengissveiflur brotna beint á almenningi í landinu og litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem eru ekki í aðstöðu til að halda reikninga sína á erlendri grundu. Þannig er það staðreynd að 10% lækkun á gengi krónunnar skilar sér í 5% hækkun á höfuðstól verðtryggðra lána. Þetta er fráleit tilhögun mála. Ekkert mál er mikilvægara né stærra er varðar hagsmuni landsmanna en breytingar á gjaldmiðilsmálum.

Stjórnvöld stinga höfðinu í sandinn og neita að ræða þetta mesta hagsmunamál okkar tíma. Íhaldssöm ríkisstjórn um óbreytt ástand á öllum sviðum er ófær með öllu til að takast á við þetta úrlausnarefni, svo brýnt sem það er.
Þessi samsteypa íhaldssamra flokka til hægri og vinstri er baneitruð blanda, sem skilar sér til dæmis í því að stjórnarskrá fólksins verður ekki innleidd og fullkomið aðgerðarleysi ríkir í gjaldeyris- og myntmálum.

Svikalognið varir ekki lengi. Frekara fall íslensku krónunnar mun rjúfa þá stöðu og draga enn á ný fram þá staðreynd að beinn kostnaður samfélagsins við að halda krónunni úti, í formi vaxtamunar, eru rúmir 200 milljarðar króna á ári.

Það munar um minna og mætti bæta kjör ansi margra fyrir þá upphæð og ráðast í stórkostlega uppbyggingu í innviðum og velferðarkerfi landsins, sem meðal annars vegna óheyrilegs kostnaðar við krónuna drabbast niður ár frá ári.

Stærsta óleysta úrlausnarefni samtímans er íslenski kerfisbresturinn sem felst í smæð myntsvæðisins. Því er ekki verið að sinna sem sakir standa en ef fer sem horfir verður það mál málanna í næstu kosningum.

Leiðari Suðra, héraðsblaðs, 1. nóvember. www.fotspor.is

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.10.2018 - 08:23 - Rita ummæli

Ógnir við efnahagslegt fullveldi Íslands

Fyrir áratug horfðu landsmenn ofan í hyldýpi efnahagslegra hamfara sem eiga sér ekki samjöfnuð í síðari tíma sögu okkar. Berlega kom í ljós hve viðkvæmur efnahagur smáríkis er þegar illa árar. Þar skipti mestu að gjaldmiðill landsins svo gott sem missti verðgildi sitt með tilheyrandi hækkunum á verðlagi, verðtryggingu og vöxtum.

Efnahagslegt fullveldi landsins var undir og þar með aðrir þættir þess. Ógnirnar sem tefldu fullveldinu í hættu eru að mestu enn til staðar og því mikilvægt að velta fyrir sér hvernig er hægt að treysta stöðu smáríkis og efla skjól þess, líkt og Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, fjallar um í nýrri bók sinni og er sagt frá í Suðra dag.

Í grundvallaratriðum hefur hin efnahagslega samfélagsgerð ekki breyst að neinu marki síðan 2008 og núverandi ríkisstjórn er mynduð gegn hverskonar kerfisbreytingum. Seðlabankinn grípur vissulega inní gjaldeyrismarkaðinn þegar mestu sveiflurnar eru á krónunni og fjármálafyrirtækin halda sig að mestu á heimavelli. Annað er í grunninn eins og áður var.

Ákvörðun um auka-aðild að Evrópusambandinu, þar sem fjórfrelsið var óhamið innleitt án þess að eiga kost á aðild að Myntbandalaginu, var afdrifarík ákvörðun á margan hátt og ógnar sumpart meira en nokkuð annað efnahagslegu fullveldi þjóðarinnar. Samtímis hefur fátt fært landinu meiri ávinning efnahagslegan og félagslegan en aðildin að EES. Þverbresturinn í fyrirkomulaginu er hinsvegar sá að okkur skortir skjólið.

Það skjól er að finna í aðild að Myntbandalagi Evrópusambandsins. Annaðhvort með því að tengja krónu við evru eða upptöku gjaldmiðilsins. Það er ekki tilviljun að smáríki kjósa almennt að koma gjaldeyrismálum sínum fyrir með þeim hætti. Þannig tengja Færeyingar sína krónu við þá dönsku, sem aftur er bundin evru.

Þetta eru einfaldlega bestu varnirnar og öflugustu skjólin fyrir efnahagslegum ógnum sem geta fyrirvaralítið kollvarpað efnahag lítilla þjóða sem búa við fáar stoðir undir efnahagskerfi sínu.

Svarið við stöðu Íslands er að ljúka aðilarviðræðunum við ESB og leggja samninginn undir þjóðaratkvæði. Þá fyrst getur almenningur í landinu tekið upplýsta ákvörðun um framtíðarfyrirkomulag gjaldeyris- og efnahagsmála þjóðarinnar. Komið upp vörnum sem útiloka að annað eins ástand geti skapast á Íslandi og þegar kerfisbrestur og hlutfallsvandi á milli fjármálakerfis og gjaldmiðils svo gott sem sendi landið fram af bjargbrúninni og steypti undan efnahagslegu fullveldi landsins.

Greinin er leiðari Suðra- landshlutablaðs sem kom út 11.10.18. og má finna á www.fotspor.is

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 27.4.2018 - 14:40 - Lokað fyrir ummæli

Aukinn ójöfnuður grefur undan samfélagssáttmálanum

Það er jafn mikil þörf á því að halda hátíðlegan alþjóðlegan baráttudag vinnandi fólks á 1. maí nú og þegar fyrsta kröfugangan á Íslandi var gengin þennan dag árið 1923. Kjör, aðbúnaður og réttindi almennings hafa vissulega tekið stakkaskiptum á þeirri öld sem liðin er síðan samtakamáttur fólksins skilaði fyrstu verkalýðsflokkunum í ríkisstjórnir vestan hafs og austan. Hinsvegar hefur ójöfnuðurinn sjaldan verið meiri.

Auðurinn færist enn á ný á færri hendur. Misskipting eykst og ægivald örfárra stórfyrirtækja færist í aukana. Þá sækja tækniframfarir og gervigreindarþróun að fjölda starfa og starfsstétta um allan heim. Við því þarf að bregðast á vettvangi stéttarfélaga og stjórnmálaflokka verkalýðsins.

Barattudagurinn alþjóðlegi minnir okkur einnig á að samtakamáttur alls vinnandi fólks er án landamæra og starfsstétta. Hagsmunir fólksins gegn stórkapítalinu eru sameiginlegir þvert á lönd og álfur.

Ótrúlegt er til þess að hugsa að fyrir liðlega átta áratugum stóð barátta verkalýðsflokkanna og stéttarfélaga um grundvallarmannréttindi á borð við vökulög á fiskiskip og almannatryggingar fyrir alla landsmenn. Þetta þykja okkur sjálfsögð grundvallarréttindi í dag, en þau kostuðu blóð, svita og tár vinnandi fólks á þeim tíma.

Þróun í átt til aukinnar misskiptingar hefur verið hröð á liðnum árum. Kjararáð vísar veginn með hreint kostulegum hækkunum á bæði kjörna fulltrúa og forstjóra opinberra stofnana og fyrirtækja. Í skjóli ráðsins hækka fyrirtæki, mörg í eigu almennings í gegnum lífeyrissjóðina, laun forstjóra og stjórnenda upp úr öllu siðlegu valdi.

Mikill munur á launum þeirra lægstu og hæstu er siðferðislega óverjandi og grefur undan samfélagssáttmálanum. Þegar launamunur á forstjóranum og þeim sem strita á gólfinu er orðinn tí- og tuttugufaldur er vitlaust gefið, svo mildilega sé mælt.

John Rawls var einn fremsti stjórnspekingur síðustu aldar og hafði kenning hans um réttlæti mikil og góð áhrif á baráttu fyrir auknum jöfnuði þegar hún kom út í bók hans Kenning um réttlæti árið 1972. Kjarninn í kenningu Rawls er sá að allur ójöfnuður sé einungis réttlætanlegur verði hann til þess að bæta kjör þeirra sem verst eru settir.

Þetta er róttæk sáttmálakenning um að ríkisvaldinu skuli beitt til þess að bæta kjör, réttindi og aðstæður þeirra sem minna mega sín. Réttlætanlegt sé að færa tekjur og eignir frá þeim efnameiri til hinna efnaminni í nafni réttlætisins. Að fjöllin megi ekki vera tignarlegri en svo að dalirnir blómstri.

Þessi kjarnyrta kenning er gott leiðarljós á alþjóðlega baráttudeginum á 1. maí í næstu viku og vonandi er að sem flestir taki þátt í kröfugöngum og samkomum stéttarfélaganna. Samtakamátturinn einn skilar bættum kjörum og betra samfélagi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 26.10.2017 - 16:00 - Lokað fyrir ummæli

Lækkum fjöllin til að dalirnir blómstri

Félagslegt réttlæti hefur verið eitt helsta viðfangsefni stjórnmálamanna og stjórnmálaheimspekinga allt frá því að stórvirki gríska heimspekingsins Platóns, Ríkið, leit dagsins ljós á tímum forn Grikkjanna. Þá markaði bók bandaríska stjórnspekingsins Johns Rawls, Kenning um réttlæti, ný þáttaskil í stjórnmálaumræðum síðari tíma um réttlæti á meðal þjóða og milli þeirra þegar hún kom út í byrjun áttunda áratugarins. Kjarninn í kenningu Rawls er sá að hverskonar ójöfnuður sé einungis réttlætanlegur verði hann til þess að bæta kjör þeirra sem verst eru settir. Þetta er róttæk sáttmálakenning um að ríkisvaldinu skuli beitt til þess að bæta kjör og aðstæður þeirra sem minna mega sín og draga þannig sem mest má vera úr ójöfnuði. Á þessum forsendum sé réttlætanlegt að færa fjármuni frá þeim efnameiri til hinna efnaminni í nafni réttlætisins.

Að fjöllin megi ekki vera tignarlegri en svo að dalirnir blómstri.

Ójöfnuður getur af sér fátækt og skort á tækifærum til þess að þroska kosti sína. Nýleg bresk rannsókn á afleiðingum fátæktar sem stóð yfir í marga áratugi dregur t.d. fram að fátæktin gengur á milli kynslóða. Börn þeirra sem búa við bág kjör eru ólíklegri til að sækja sér framhaldsmenntun og líklegri til þess að eiga bæði styttra og erfiðara líf en þau sem koma frá þokkalega og vel stæðum heimilum. Þeim skortir skjól og bakland til þess að sækja sér þann ómetnlega auð sem góð menntun er.

Vaxandi ójöfnuður er meinsemd sem grefur undan samfélaginu og sáttmála okkar um það. Því er það eitt brýnasta verkefni þeirrar ríkisstjórnar sem mynduð verður að loknum kosningum að jafna leikinn í samfélaginu. Grípa til aðgerða til að draga úr ójöfnuði.

Hækka dalina þannig að þeir sem minna mega sín geti lifað með reisn og átt gott líf þrátt fyrir örorku, háan aldur eða annað sem kemur í veg fyrir fulla þátttöku á vinnumarkaði.

Kostnaðurinn við örmyntina og margfaldur vaxtakostnaður heimila og fyrirtækja, borið saman við önnur Norður- og Evrópulönd, eykur ójöfnuðinn enn frekar. Þeir sem fleyta rjómann og best hafa það hverju sinni geta komið sínum fjármunum og eignum í skjól erlendis og haft miklar tekjur af vaxtamunaviðskiptum og braski með krónuna. Þetta er afleit staða og óásættanleg.

Því er það órjúfanlegur þáttur af því að bæta lífskjör og auka jöfnuð á Íslandi að stíga raunhæf skref sem tryggja komandi kynslóðum skjól í formi trausts gjaldmiðils og lágra vaxta, þar sem verðtrygging og aðrir plástrar á svöðusár krónunnar heyra sögunni til.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 1.10.2017 - 07:00 - Lokað fyrir ummæli

Uppnám og óvissa korteri fyrir kosningar

Upplausnarástand íslenskra stjórnmála áratuginn eftir hrun nær nýjum hæðum í aðdraganda skyndikosninganna í lok október. Nýtt framboð fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins setur hægri vænginn í uppnám og er líklegt til að hafa veruleg áhrif á úrslit kosninga. Takist Sigmundi Davíð og félögum að fá öflugt fólk til liðs við sig getur flokkur hans orðið skæður keppinautur bæði Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins, auk þess að sundra framsóknarmönnum kljúfa flokkinn í tvennt.
Staðan á miðjunni og yfir til vinstri er áfram mörkuð mörgum flokkum sem keppa um það fylgi sem Samfylkingin hafði árin 1999-2009 þegar flokkurinn fékk á bilinu 27-31% fylgi í fernum kosningum. Til dæmis var hann sá stærsti í Suðurkjördæmi í kosningunum 2003 og 2009. Nú skiptast atkvæði sósíaldemókrata og frjálslyndra kjósenda á nokkra flokka með þeim afleiðingum að enginn þeirra virðist ætla að ná því að verða kjölfesta nýrrar stjórnar.
Vinstri grænir njóta upplausnarinnar til hægri og frá miðju til vinstri. Þeir ganga sameinaðir til kosninga með öflugan formann sem nýtur almennra vinsælda. Það ber þó að hafa í huga að flokkurinn hefur oft mælst í hæstu hæðum í aðdraganda kosninga en ekki uppskorið í samræmi við það á kjördag. Það gæti breyst nú þegar upplausnin virðist í algleymingi hjá keppinautunum og hart er sótt að Sjálfstæðisflokknum.
Uppnámið og óvissan í aðdraganda kosninga gefur afar veika von um að það takist að mynda sterka ríkisstjórn sem hefur burði til að sitja út kjörtímabilið. Fari sem margir spá að Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur fari saman í stjórn mun næða um það samstarf frá fyrsta degi. Enda blasir við að slík ríkisstjórn yrði verulega umdeild innan Vinstri grænna, sem munu líkast til kappkosta við að ná þriðja flokknum með inn í slíka stjórn, til að auka breiddina og byggja sér skjól fyrir því sem koma skal.
Líkast til mun það taka nokkrar kosningar enn að koma á stöðugleika og jafnvægi í stjórnmálunum á ný. Sósíaldemókratar þurfa að sameinast aftur og átökin á miðjunni að ganga yfir og finna sér farveg. Hvernig hinn aldar gamli Framsóknarflokkur kemur út úr því stríðsástandi sem ríkir innan flokksins er erfitt að segja til um nú, en hann gæti átt lengi um sárt að binda. Líkt og Samfylkingin nú eftir átök innan flokks sem sópuðu burt trausti fólks á flokknum.
Viðspyrna Samfylkingarinnar gæti falist í því að nýir frambjóðendur flokksins færi hann aftur nær miðju og endurheimti þá breidd sem flokkurinn áður hafði og var grunnurinn að tíu ára tímabili hans sem raunverulegs mótvægis við Sjálfstæðisflokkinn. Það er bæði þörf fyrir og eftirspurn eftir breiðum félagshyggjusflokki sósíaldemókrata.
Mögulega verður óreiðan á stjórnmálasviðinu nú til þess að flokkar og framboð sameinist á ný á næsta kjörtímabili en flest bendir til þess nú að fleiri og smærri flokkar eigi sæti á þingi að loknum kosningum en nokkru sinni fyrr.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Björgvin Guðni er ritstjóri Suðra, landshlutablaðs Vefpressunnar.

Björgvin sat á Alþingi fyrir Samfylkinguna á árunum 2003 til 2013 og var viðskiptaráðherra á árunum 2007 til 2009.
RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir