Föstudagur 27.04.2018 - 14:40 - Lokað fyrir ummæli

Aukinn ójöfnuður grefur undan samfélagssáttmálanum

Það er jafn mikil þörf á því að halda hátíðlegan alþjóðlegan baráttudag vinnandi fólks á 1. maí nú og þegar fyrsta kröfugangan á Íslandi var gengin þennan dag árið 1923. Kjör, aðbúnaður og réttindi almennings hafa vissulega tekið stakkaskiptum á þeirri öld sem liðin er síðan samtakamáttur fólksins skilaði fyrstu verkalýðsflokkunum í ríkisstjórnir vestan hafs og austan. Hinsvegar hefur ójöfnuðurinn sjaldan verið meiri.

Auðurinn færist enn á ný á færri hendur. Misskipting eykst og ægivald örfárra stórfyrirtækja færist í aukana. Þá sækja tækniframfarir og gervigreindarþróun að fjölda starfa og starfsstétta um allan heim. Við því þarf að bregðast á vettvangi stéttarfélaga og stjórnmálaflokka verkalýðsins.

Barattudagurinn alþjóðlegi minnir okkur einnig á að samtakamáttur alls vinnandi fólks er án landamæra og starfsstétta. Hagsmunir fólksins gegn stórkapítalinu eru sameiginlegir þvert á lönd og álfur.

Ótrúlegt er til þess að hugsa að fyrir liðlega átta áratugum stóð barátta verkalýðsflokkanna og stéttarfélaga um grundvallarmannréttindi á borð við vökulög á fiskiskip og almannatryggingar fyrir alla landsmenn. Þetta þykja okkur sjálfsögð grundvallarréttindi í dag, en þau kostuðu blóð, svita og tár vinnandi fólks á þeim tíma.

Þróun í átt til aukinnar misskiptingar hefur verið hröð á liðnum árum. Kjararáð vísar veginn með hreint kostulegum hækkunum á bæði kjörna fulltrúa og forstjóra opinberra stofnana og fyrirtækja. Í skjóli ráðsins hækka fyrirtæki, mörg í eigu almennings í gegnum lífeyrissjóðina, laun forstjóra og stjórnenda upp úr öllu siðlegu valdi.

Mikill munur á launum þeirra lægstu og hæstu er siðferðislega óverjandi og grefur undan samfélagssáttmálanum. Þegar launamunur á forstjóranum og þeim sem strita á gólfinu er orðinn tí- og tuttugufaldur er vitlaust gefið, svo mildilega sé mælt.

John Rawls var einn fremsti stjórnspekingur síðustu aldar og hafði kenning hans um réttlæti mikil og góð áhrif á baráttu fyrir auknum jöfnuði þegar hún kom út í bók hans Kenning um réttlæti árið 1972. Kjarninn í kenningu Rawls er sá að allur ójöfnuður sé einungis réttlætanlegur verði hann til þess að bæta kjör þeirra sem verst eru settir.

Þetta er róttæk sáttmálakenning um að ríkisvaldinu skuli beitt til þess að bæta kjör, réttindi og aðstæður þeirra sem minna mega sín. Réttlætanlegt sé að færa tekjur og eignir frá þeim efnameiri til hinna efnaminni í nafni réttlætisins. Að fjöllin megi ekki vera tignarlegri en svo að dalirnir blómstri.

Þessi kjarnyrta kenning er gott leiðarljós á alþjóðlega baráttudeginum á 1. maí í næstu viku og vonandi er að sem flestir taki þátt í kröfugöngum og samkomum stéttarfélaganna. Samtakamátturinn einn skilar bættum kjörum og betra samfélagi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Björgvin Guðni er ritstjóri Suðra, landshlutablaðs Vefpressunnar.

Björgvin sat á Alþingi fyrir Samfylkinguna á árunum 2003 til 2013 og var viðskiptaráðherra á árunum 2007 til 2009.
RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir