Fimmtudagur 26.10.2017 - 16:00 - Lokað fyrir ummæli

Lækkum fjöllin til að dalirnir blómstri

Félagslegt réttlæti hefur verið eitt helsta viðfangsefni stjórnmálamanna og stjórnmálaheimspekinga allt frá því að stórvirki gríska heimspekingsins Platóns, Ríkið, leit dagsins ljós á tímum forn Grikkjanna. Þá markaði bók bandaríska stjórnspekingsins Johns Rawls, Kenning um réttlæti, ný þáttaskil í stjórnmálaumræðum síðari tíma um réttlæti á meðal þjóða og milli þeirra þegar hún kom út í byrjun áttunda áratugarins. Kjarninn í kenningu Rawls er sá að hverskonar ójöfnuður sé einungis réttlætanlegur verði hann til þess að bæta kjör þeirra sem verst eru settir. Þetta er róttæk sáttmálakenning um að ríkisvaldinu skuli beitt til þess að bæta kjör og aðstæður þeirra sem minna mega sín og draga þannig sem mest má vera úr ójöfnuði. Á þessum forsendum sé réttlætanlegt að færa fjármuni frá þeim efnameiri til hinna efnaminni í nafni réttlætisins.

Að fjöllin megi ekki vera tignarlegri en svo að dalirnir blómstri.

Ójöfnuður getur af sér fátækt og skort á tækifærum til þess að þroska kosti sína. Nýleg bresk rannsókn á afleiðingum fátæktar sem stóð yfir í marga áratugi dregur t.d. fram að fátæktin gengur á milli kynslóða. Börn þeirra sem búa við bág kjör eru ólíklegri til að sækja sér framhaldsmenntun og líklegri til þess að eiga bæði styttra og erfiðara líf en þau sem koma frá þokkalega og vel stæðum heimilum. Þeim skortir skjól og bakland til þess að sækja sér þann ómetnlega auð sem góð menntun er.

Vaxandi ójöfnuður er meinsemd sem grefur undan samfélaginu og sáttmála okkar um það. Því er það eitt brýnasta verkefni þeirrar ríkisstjórnar sem mynduð verður að loknum kosningum að jafna leikinn í samfélaginu. Grípa til aðgerða til að draga úr ójöfnuði.

Hækka dalina þannig að þeir sem minna mega sín geti lifað með reisn og átt gott líf þrátt fyrir örorku, háan aldur eða annað sem kemur í veg fyrir fulla þátttöku á vinnumarkaði.

Kostnaðurinn við örmyntina og margfaldur vaxtakostnaður heimila og fyrirtækja, borið saman við önnur Norður- og Evrópulönd, eykur ójöfnuðinn enn frekar. Þeir sem fleyta rjómann og best hafa það hverju sinni geta komið sínum fjármunum og eignum í skjól erlendis og haft miklar tekjur af vaxtamunaviðskiptum og braski með krónuna. Þetta er afleit staða og óásættanleg.

Því er það órjúfanlegur þáttur af því að bæta lífskjör og auka jöfnuð á Íslandi að stíga raunhæf skref sem tryggja komandi kynslóðum skjól í formi trausts gjaldmiðils og lágra vaxta, þar sem verðtrygging og aðrir plástrar á svöðusár krónunnar heyra sögunni til.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Björgvin Guðni er ritstjóri Suðra, landshlutablaðs Vefpressunnar.

Björgvin sat á Alþingi fyrir Samfylkinguna á árunum 2003 til 2013 og var viðskiptaráðherra á árunum 2007 til 2009.
RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir