Sunnudagur 01.10.2017 - 07:00 - Lokað fyrir ummæli

Uppnám og óvissa korteri fyrir kosningar

Upplausnarástand íslenskra stjórnmála áratuginn eftir hrun nær nýjum hæðum í aðdraganda skyndikosninganna í lok október. Nýtt framboð fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins setur hægri vænginn í uppnám og er líklegt til að hafa veruleg áhrif á úrslit kosninga. Takist Sigmundi Davíð og félögum að fá öflugt fólk til liðs við sig getur flokkur hans orðið skæður keppinautur bæði Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins, auk þess að sundra framsóknarmönnum kljúfa flokkinn í tvennt.
Staðan á miðjunni og yfir til vinstri er áfram mörkuð mörgum flokkum sem keppa um það fylgi sem Samfylkingin hafði árin 1999-2009 þegar flokkurinn fékk á bilinu 27-31% fylgi í fernum kosningum. Til dæmis var hann sá stærsti í Suðurkjördæmi í kosningunum 2003 og 2009. Nú skiptast atkvæði sósíaldemókrata og frjálslyndra kjósenda á nokkra flokka með þeim afleiðingum að enginn þeirra virðist ætla að ná því að verða kjölfesta nýrrar stjórnar.
Vinstri grænir njóta upplausnarinnar til hægri og frá miðju til vinstri. Þeir ganga sameinaðir til kosninga með öflugan formann sem nýtur almennra vinsælda. Það ber þó að hafa í huga að flokkurinn hefur oft mælst í hæstu hæðum í aðdraganda kosninga en ekki uppskorið í samræmi við það á kjördag. Það gæti breyst nú þegar upplausnin virðist í algleymingi hjá keppinautunum og hart er sótt að Sjálfstæðisflokknum.
Uppnámið og óvissan í aðdraganda kosninga gefur afar veika von um að það takist að mynda sterka ríkisstjórn sem hefur burði til að sitja út kjörtímabilið. Fari sem margir spá að Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur fari saman í stjórn mun næða um það samstarf frá fyrsta degi. Enda blasir við að slík ríkisstjórn yrði verulega umdeild innan Vinstri grænna, sem munu líkast til kappkosta við að ná þriðja flokknum með inn í slíka stjórn, til að auka breiddina og byggja sér skjól fyrir því sem koma skal.
Líkast til mun það taka nokkrar kosningar enn að koma á stöðugleika og jafnvægi í stjórnmálunum á ný. Sósíaldemókratar þurfa að sameinast aftur og átökin á miðjunni að ganga yfir og finna sér farveg. Hvernig hinn aldar gamli Framsóknarflokkur kemur út úr því stríðsástandi sem ríkir innan flokksins er erfitt að segja til um nú, en hann gæti átt lengi um sárt að binda. Líkt og Samfylkingin nú eftir átök innan flokks sem sópuðu burt trausti fólks á flokknum.
Viðspyrna Samfylkingarinnar gæti falist í því að nýir frambjóðendur flokksins færi hann aftur nær miðju og endurheimti þá breidd sem flokkurinn áður hafði og var grunnurinn að tíu ára tímabili hans sem raunverulegs mótvægis við Sjálfstæðisflokkinn. Það er bæði þörf fyrir og eftirspurn eftir breiðum félagshyggjusflokki sósíaldemókrata.
Mögulega verður óreiðan á stjórnmálasviðinu nú til þess að flokkar og framboð sameinist á ný á næsta kjörtímabili en flest bendir til þess nú að fleiri og smærri flokkar eigi sæti á þingi að loknum kosningum en nokkru sinni fyrr.

Flokkar: Óflokkað

»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Björgvin Guðni er ritstjóri Suðra, landshlutablaðs Vefpressunnar.

Björgvin sat á Alþingi fyrir Samfylkinguna á árunum 2003 til 2013 og var viðskiptaráðherra á árunum 2007 til 2009.
RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir