Fimmtudagur 11.10.2018 - 08:23 - Rita ummæli

Ógnir við efnahagslegt fullveldi Íslands

Fyrir áratug horfðu landsmenn ofan í hyldýpi efnahagslegra hamfara sem eiga sér ekki samjöfnuð í síðari tíma sögu okkar. Berlega kom í ljós hve viðkvæmur efnahagur smáríkis er þegar illa árar. Þar skipti mestu að gjaldmiðill landsins svo gott sem missti verðgildi sitt með tilheyrandi hækkunum á verðlagi, verðtryggingu og vöxtum.

Efnahagslegt fullveldi landsins var undir og þar með aðrir þættir þess. Ógnirnar sem tefldu fullveldinu í hættu eru að mestu enn til staðar og því mikilvægt að velta fyrir sér hvernig er hægt að treysta stöðu smáríkis og efla skjól þess, líkt og Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, fjallar um í nýrri bók sinni og er sagt frá í Suðra dag.

Í grundvallaratriðum hefur hin efnahagslega samfélagsgerð ekki breyst að neinu marki síðan 2008 og núverandi ríkisstjórn er mynduð gegn hverskonar kerfisbreytingum. Seðlabankinn grípur vissulega inní gjaldeyrismarkaðinn þegar mestu sveiflurnar eru á krónunni og fjármálafyrirtækin halda sig að mestu á heimavelli. Annað er í grunninn eins og áður var.

Ákvörðun um auka-aðild að Evrópusambandinu, þar sem fjórfrelsið var óhamið innleitt án þess að eiga kost á aðild að Myntbandalaginu, var afdrifarík ákvörðun á margan hátt og ógnar sumpart meira en nokkuð annað efnahagslegu fullveldi þjóðarinnar. Samtímis hefur fátt fært landinu meiri ávinning efnahagslegan og félagslegan en aðildin að EES. Þverbresturinn í fyrirkomulaginu er hinsvegar sá að okkur skortir skjólið.

Það skjól er að finna í aðild að Myntbandalagi Evrópusambandsins. Annaðhvort með því að tengja krónu við evru eða upptöku gjaldmiðilsins. Það er ekki tilviljun að smáríki kjósa almennt að koma gjaldeyrismálum sínum fyrir með þeim hætti. Þannig tengja Færeyingar sína krónu við þá dönsku, sem aftur er bundin evru.

Þetta eru einfaldlega bestu varnirnar og öflugustu skjólin fyrir efnahagslegum ógnum sem geta fyrirvaralítið kollvarpað efnahag lítilla þjóða sem búa við fáar stoðir undir efnahagskerfi sínu.

Svarið við stöðu Íslands er að ljúka aðilarviðræðunum við ESB og leggja samninginn undir þjóðaratkvæði. Þá fyrst getur almenningur í landinu tekið upplýsta ákvörðun um framtíðarfyrirkomulag gjaldeyris- og efnahagsmála þjóðarinnar. Komið upp vörnum sem útiloka að annað eins ástand geti skapast á Íslandi og þegar kerfisbrestur og hlutfallsvandi á milli fjármálakerfis og gjaldmiðils svo gott sem sendi landið fram af bjargbrúninni og steypti undan efnahagslegu fullveldi landsins.

Greinin er leiðari Suðra- landshlutablaðs sem kom út 11.10.18. og má finna á www.fotspor.is

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sjö? Svar:

Höfundur

Björgvin Guðni er ritstjóri Suðra, landshlutablaðs Vefpressunnar.

Björgvin sat á Alþingi fyrir Samfylkinguna á árunum 2003 til 2013 og var viðskiptaráðherra á árunum 2007 til 2009.
RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir