Fimmtudagur 01.11.2018 - 21:05 - Rita ummæli

Svikalogn

Svikalogn hefur ríkt í gjaldmiðilsmálum Íslendinga. Harkalegt fall krónunnar fyrir skömmu rifjaði þá staðreynd upp að stöðugleiki er nánast ómögulegur á minnsta sjálfstæða myntsvæði í veröldinni.

Það eitt að fjárfestingabankinn risavaxni Goldman Sachs ákvað að losa sig við íslenskar krónur orsakaði meðal annars hina miklu lækkun á gengi krónunnar í október, sem varð til þess að Seðlabanki Íslands greip inn í og keypti krónur til að hægja á fallinu.

Ástæðurnar var ekki að finna nema að óverulegu leyti hér heima. Það að ákvörðun bandarísks banka um að losa krónur geti valdið harkalegu gengisfalli sem skilar sér beint í verðhækkunum, hærri vöxtum og hækkun lána, verðtryggðra og óverðtryggðra, er beinlínis háskalegt fyrirkomulag sem á sér enga réttlætingu.

Gengissveiflur brotna beint á almenningi í landinu og litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem eru ekki í aðstöðu til að halda reikninga sína á erlendri grundu. Þannig er það staðreynd að 10% lækkun á gengi krónunnar skilar sér í 5% hækkun á höfuðstól verðtryggðra lána. Þetta er fráleit tilhögun mála. Ekkert mál er mikilvægara né stærra er varðar hagsmuni landsmanna en breytingar á gjaldmiðilsmálum.

Stjórnvöld stinga höfðinu í sandinn og neita að ræða þetta mesta hagsmunamál okkar tíma. Íhaldssöm ríkisstjórn um óbreytt ástand á öllum sviðum er ófær með öllu til að takast á við þetta úrlausnarefni, svo brýnt sem það er.
Þessi samsteypa íhaldssamra flokka til hægri og vinstri er baneitruð blanda, sem skilar sér til dæmis í því að stjórnarskrá fólksins verður ekki innleidd og fullkomið aðgerðarleysi ríkir í gjaldeyris- og myntmálum.

Svikalognið varir ekki lengi. Frekara fall íslensku krónunnar mun rjúfa þá stöðu og draga enn á ný fram þá staðreynd að beinn kostnaður samfélagsins við að halda krónunni úti, í formi vaxtamunar, eru rúmir 200 milljarðar króna á ári.

Það munar um minna og mætti bæta kjör ansi margra fyrir þá upphæð og ráðast í stórkostlega uppbyggingu í innviðum og velferðarkerfi landsins, sem meðal annars vegna óheyrilegs kostnaðar við krónuna drabbast niður ár frá ári.

Stærsta óleysta úrlausnarefni samtímans er íslenski kerfisbresturinn sem felst í smæð myntsvæðisins. Því er ekki verið að sinna sem sakir standa en ef fer sem horfir verður það mál málanna í næstu kosningum.

Leiðari Suðra, héraðsblaðs, 1. nóvember. www.fotspor.is

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Björgvin Guðni er ritstjóri Suðra, landshlutablaðs Vefpressunnar.

Björgvin sat á Alþingi fyrir Samfylkinguna á árunum 2003 til 2013 og var viðskiptaráðherra á árunum 2007 til 2009.
RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir