Greinin birtist fyrst í helgarblaði DV, 30. ágúst 2013.
Sjaldan hef ég fyllst eins miklum eldmóði eins og í svokölluðu „traktorsmáli“. Þannig var að Bjarni Guðmundsson prófessor við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri hringdi í mig. Hann var að skrifa bók um um fyrstu vélarnar sem leystu mannshöndina af hólmi í landbúnaði hér á landi snemma á síðustu öld. Eitt af því sem sögulegast er í því sambandi var þegar fyrsti traktorinn kom til Íslands, en hann var alltaf kallaður Akranestraktorinn. Ég hafði áður minnst á það við Bjarna að í minni ætt væri alltaf talað um það að langafi minn í föðurætt, Stefán B. Jónsson, hefði flutt inn þennan traktor, en í flestum heimildum segir aðeins að Þórður Ásmundsson, hinn stórhuga kaupmaður Akranesi, hafi keypt fyrsta traktorinn, en hvergi er minnst á þátt langafa. Það sárnaði okkur í fjölskyldunni að sjálfsögðu. Bjarni spurði mig nú hvort það væri nokkur leið fyrir mig að finna heimildir sem sönnuðu mál, þannig að sagan væri rétt rituð í bókinni sem hann hafði í smíðum.
Stefán B. Jónsson var mikill framfaramaður í sinni tíð. Hann fór ungur vestur til Kanada en ákvað svo að snúa aftur til Íslands og kenna löndum sínum alla þá nýju tækni sem hann hafði kynnst í Ameríku. Svo heppilega vildi til að þegar ég var að gera heimildamynd mína um Vesturfarana árið 2008 þá fékk ég í hendur mikið magn af gömlum skjölum sem höfðu tilheyrt honum og höfðu varðveist í fjölskyldunni. Skjölunum frá langafa hafði ég komið fyrir í fjórum nokkuð stórum plastkössum niðri í geymslu. Eftir símtalið frá Bjarna, þar sem hann sagði mér að hann væri meðal annars að fjalla um komu Akranestraktorsins, var mér hlaupið mikið kapp í kinn. Ég var staðráðin í að rétta hlut langafa míns ef nokkur kostur væri.
Koma Akranestraktorsins árið 1918 var gríðarlegt framfaraspor í íslenskum landbúnaði. Nú gátu vélar loksins leyst menn frá hinum ýmsu verkum, sem leiddi til framfara á mörgum öðrum sviðum líka.
En aftur að leitinni miklu að heimildum sem sönnuðu frumkvæði og þátt langafa míns í þessu máli. Eftir símtalið við Bjarna dró ég fram plastkassana með skjölum langafa, ákveðin í að fara í gegnum hvert einasta bréf og pappírssnifsi sem þar var að finna, þótt það tæki mig marga dag.
Í kössunum var mikið af einkabréfum og vinnuskjölum frá því að Stefán bjó í Ameríku, sem og ýmis tímarit sem hann gaf út bæði í Kanada og á Íslandi. Svo voru þarna ógrynni af viðskiptapappírum frá Íslandi enda maðurinn umsvifamikill í gegnum tíðina. Mér féllust eiginlega hendur. Kannski hafði ég reist mér hurðarás um öxl í þetta skiptið?
Fyrsti dagur leitar minnar að uppruna traktorsins skilaði engu. Traktorinn kom til landsins haustið 1918 svo líklega hafði hann verið pantaður snemma árs 1918 eða seint á árinu 1917. Á degi tvö rakst ég hins vegar á bréfabók frá 1916 sem geymdi afrit af viðskiptabréfi á ensku sem Stefán hafði skrifað. En því miður fann ég engar slíka bréfabækur frá 1917 eða 1918. En þegar ég var að leggja bréfabókina frá 1916 frá mér sá ég allt í einu að Stefán hafði skrifað eitthvað í bókina á röngunni, líklega til að nýta pappírinn. Og viti menn þar var komið hið mikilvæga bréf dagsett 15. október 1917, sem færði sönnur á Stefán B. Jónsson pantaði fyrst traktorinn hjá Avery Company í Peoria í New York. Traktorinn kom síðan með Gullfossi til Reykjavíkur 12. ágúst 1918, samkvæmt dagbók Stefáns, sjálfan Akranestraktorinn. Ég réð mér ekki fyrir kæti, enda orðin heldur vondauf um að mér tækist ætlunarverk mitt.
Nýlega kom svo út glæsileg bók eftir Bjarna Guðmundsson á Hvanneyri sem heitir Frá hestum til hestafla. Þar fær Stefán B. Jónsson svo sannarlega að njóta þess heiðurs sem honum ber.