Fimmtudagur 29.08.2013 - 21:59 - FB ummæli ()

Af hverju vil ég Reykjavíkurflugvöll

Byggt á grein sem birtist í Fréttablaðinu í mars árið 2013.

Mér brá í brún að heyra ummæli borgarstjóra um Reykjavíkurflugvöll í kvöld.  Þess vegna langar mig að birta aftur hluta úr grein sem ég hef skrifað um málið og lýsir minni afstöðu:
Framtíð Reykjavíkurflugvallar er stórmál sem varðar alla þjóðina. Það getur aldrei orðið einkamál borgaryfirvalda. En hvers vegna á Reykjavíkurflugvöllur að vera áfram í Vatnsmýrinni? Í fyrsta lagi er flugvöllurinn lífæð landsbyggðar við höfuðborgina Reykjavík. Og gleymum því ekki að landsbyggðin er ekki síður mikilvæg höfuðborginni en höfuðborgin landsbyggðinni.
Miðstöð allra samgangna

Reykjavík er höfuðborg allra Íslendinga og hefur mikilvægum skyldum að gegna. Hún er miðstöð allra samgangna í landinu, í lofti, á sjó og á landi. Stjórnsýslan, ráðuneyti og stofnanir eru öll staðsett í Reykjavík. Til stendur að byggja nýtt hátæknisjúkrahús á Landspítalalóðinni og það er mikið öryggismál að hafa flugvöllinn svo skammt frá aðalsjúkrahúsi landsins.

Og ástæðurnar eru fleiri. Það er nóg af öðru góðu byggingarlandi í Reykjavík. Þess vegna er afar einkennilegt að það þurfi endilega að nýta þennan einstaklega verðmæta samgöngu- og þjóðarreit undir íbúðabyggð. Þrátt fyrir ítarlegar athuganir sem miklum opinberum fjármunum hefur verið eytt í á undanförnum árum hafa heldur engir valkostir komið fram sem eru fýsilegir og geta komið í stað flugvallar í Vatnsmýrinni fyrir innanlandsflug. Hólmsheiðin kemur ekki vel út, það að flytja innanlandsflugið alla leið til Keflavíkur þykir mér heldur ekki góð lausn. Þar að auki mun flutningur Reykjavíkurflugvallar kosta þjóðina milljarðatugi, eins og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur bent á. Þannig að rauðu ljósin loga alls staðar.

Í raun eru það ótrúleg forréttindi fyrir alla landsmenn að hafa góðan og öruggan innanlandsflugvöll í hjarta höfuðborgarinnar. Ýmsar erlendar borgir eru eins vel í sveit settar og Reykjavík hvað þetta varðar. Má þar nefna Lundúnaborg sem hefur City-flugvöll í miðborg Lundúna, Boston með Manchester-flugvöll og í Washington D.C. Ronald Reagan-flugvöllinn. Það væri óskandi að borgaryfirvöld í Reykjavík áttuðu sig á mikilvægi staðsetningar Reykjavíkurflugvallar fyrir fólk og fyrirtæki á öllu landinu og ábyrgðina sem fylgir því að stjórna höfuðborg landsins.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Elín Hirst
Alþingismaður

Elín er fædd í Reykjavík 4. 9. 1960.
RSS straumur: RSS straumur