Föstudagur 28.06.2013 - 19:27 - FB ummæli ()

Þjóðmenning fær viðurkenningu

Eins og forsætisráðherra er ég mikill áhugamaður um þjóðmenningu.  Ég hef hins vegar líka yndi af því að kynna mér og njóta menningar annarra þjóða og finnst fátt skemmtilegra.    Hér á eftir fer ræða sem ég flutti á Alþingi í gær, fimmtudaginn 27. júní 2013 sem varðar íslenska þjóðmenningu.  

Þær ánægjulegu fréttir hafa borist að Manntal Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 hefur verið samþykkt á lista UNESCO Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna yfir minni heimsins. Á lista UNESCO eru nú um 300 merk skjöl en tilgangurinn með listanum er að tryggja betur að slíkur menningararfur sé skráður og varðveittur og aðgengilegur öllum.

Þetta minnir okkur þingmenn á hvað Íslendingar eiga mikil menningarverðmæti og hvað þau eru mikilvæg fyrir okkur sem þjóð meðal þjóða og hve mikil ábyrgð hvílir á okkur að vernda þau og jafnframt að leyfa fólki að njóta þeirra. Manntalið frá 1703 er elsta nákvæmasta manntal sem enn er varðveitt í heiminum og algjör dýrgripur og mikilvægur hluti af þjóðmenningu okkar. Þar er getið nafns, aldurs og þjóðfélagsstöðu allra íbúa landsins.

Gríðarleg fátækt og örbirgð var í landinu á þessum tíma og Danakonungur fékk þá Pál og Árna til að gera manntalið og síðan jarðabók til þess að hægt væri að gera sér grein fyrir ástandinu. Það er gaman að fletta upp í manntalinu og reyna að setja sig í spor þeirra sem voru uppi fyrir 300 árum. Með leyfi forseta:

„Á Efrinúpi í Miðfjarðarhreppi býr Engilráð Jónsdóttir, fátæk ekkja, 65 ára að aldri. Þar hefur hún verið til húsa um liðinn vetrartíma og fyrir sig til fæðis lagt það góðir menn henni í Guðs nafni á fyrirfarandi sumri hafa gefið. Á þessum vetri keypti hún gamlan sauð, þrjá fjórðunga fiskjar og nokkra mjólk fyrir járnpott og merarfolald. Einnig fær hún mjólk úr á einni sem hún á sjálf auk þess sem hún á einn hrossakapal 24ra vetra.“

Það er gott að hafa söguna til viðmiðunar þegar við metum stöðu okkar í dag og minnir okkur á að ef til vill má stundum nota vægari orð þegar við kvörtum undan lífskjörum í landinu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Elín Hirst
Alþingismaður

Elín er fædd í Reykjavík 4. 9. 1960.
RSS straumur: RSS straumur