Þriðjudagur 24.09.2013 - 20:26 - FB ummæli ()

Minningargrein um góðan vin

Grein sem birtist í DV 21. september 2013

Við þurftum því miður að láta aflífa hundinn okkar, Erró, fyrir skömmu. Það var afar sár reynsla, ekki bara fyrir okkur hjónin heldur alla í fjölskyldunni. Þrátt fyrir að börnin séu löngu flutt að heiman þá var Erró einn af fjölskyldunni. Barnabörnin höfðu líka tekið ástfóstri við þessa stóru loðnu skepnu. Erró varð því miður ekki nema tæplega sex ára gamall.

Erró var afar duglegur hundur og mikill göngu- og fjallagarpur. Hann var af þýsku fjárhundakyni og þurfti mikla hreyfingu og krefjandi verkefni til að fást við. Hann var til dæmis meistari í sporaleit og óralangar gönguskíðaferðir í Bláfjöllum og Heiðmörk voru í miklu uppáhaldi hjá honum.

Þýski fjárhundurinn hefur genetískt sterkt varðhundaeðli. En þrátt fyrir að Erró gelti hátt og mikið um leið og einhver nálgaðist húsið okkar, var hann í raun mikið ljúfmenni. En þegar hann brá sér í hlutverk varðhundsins fannst fólki hann hins vegar ekki sérlega árennilegur. Erró hafði þá kolröngu sýn á tilveruna að raðhúsalengjan sem við búum í og næsta nágrenni tilheyrði honum einum og fjölskyldu hans. Þetta svæði fannst honum að hann yrði að vernda. Ég veit að elskulegir nágrannar mínir þurftu stundum að taka á honum stóra sínum þegar þeir komu heim til sín og Erró stóð geltandi og gólandi, eins og þeir væru einhverjir innbrotsþjófar.

Frægur hundur

Þess á milli var Erró mikill öðlingur og mjög hændur af mannfólki. Hann vildi helst helst kúra þétt að eigendum sínum uppi í sófa eða liggja á gólfinu við fætur þeirra. Hann elskaði líka að fá að fara með í bílinn því þá gat verið nálægt húsbændum sínum.

Erró var nokkuð frægur af hundi að vera, en sem betur fer af góðu einu. Myndir af honum hafa birst bæði í dagblöðum og tímaritum og hann kom meira að segja fram í sjónvarpsþættinum Sjálfstætt fólk hjá Jóni Ársæli.

En hvað gerðist? Af hverju þurfti að svæfa þennan góða vin. Erró var stór. Hann slagði hátt í 50 kíló. Fyrir nokkrum mánuðum fórum við að taka eftir því að hann var orðinn haltur. Dýralæknirinn úrskurðaði að hann væri með slitið liðband og hann fór í stóra aðgerð þar sem gert var við meiðslin. Eftir aðgerðina fylgdu sannkallaðir hundadagar fyrir Erró, því þessi mikli höfðingi var draghaltur og kvalinn eftir aðgerðina, og þurfti auk þess að burðast með stóran „lampaskerm“ um höfuðið til þess að koma í veg fyrir að hann sleikti sárið. Hann gat sig lítið hreyft því lampaskermurinn rakst alls staðar utan í og lá að mestu fyrir. Samt fór hann daglega í göngutúra til endurhæfingar en þeir máttu bara vera mjög stuttir. En svo kom annað áfall. Rúmum sex vikum eftir uppskurðinn, þegar vinstri löppin var farin að jafna sig þá brást liðbandið á hægri fæti. Líklega hefur hann ekki þolað álagið af því að þurfa að bera þetta stóra dýr á meðan vinstri löppin var ónothæf. Nú var Erró orðinn afturlappalaus og gat ekki gengið.

Tómlegt í húsinu

Það voru þung spor að fara með Erró upp á Dýraspítalann í Víðidal. Það hjálpar þó við þessar aðstæður að starfsmenn þar eru alveg yndislegt fólk og sannir dýravinir. Erró var brenndur og aska hans hvílir nú í garðinum hér heima. Það er afskaplega tómlegt hér í húsinu. Búið er að pakka saman öllum þeim eigum sem tilheyrðu Erró. Ótal hálsólum, sérstakri jólaól, hundamat og skálum, hundasjampóum og hundamottum, auk búrsins sem hann svaf alltaf í og er risastórt. Þar fann hann til öryggis og svaf vært allar nætur.

Eina litla sögu má ég til með að segja af Erró svona því hann var svo gáfaður. Hann skildi mjög mörg töluð orð. Það orð sem hafði hvað mest áhrif á hann var „bíll“. Þegar hann heyrði það þá spenntist hann upp af gleði og lét ófriðlega þar til að eigendurnir voru tilbúnir. Það gat verið mjög óþægilegt að hafa þetta 50 kílóa, yndislega, loðna flykki flaðrandi upp um mann þegar maður var að hafa sig til, með öllum hárunum og hundaslefinu sem því fylgdi. Því var oft brugðið á það ráð að nota ensku, til að plata hann svolítið, svo að allt myndi ekki um koll keyra. „We are going to car“ sögðum við og Erró var hinn rólegasti, en ef við sögðum „við erum að fara í bílinn“ þá varð hann hamslaus af gleði og tilhlökkun. Blessuð sé minning okkar fallna félaga.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Elín Hirst
Alþingismaður

Elín er fædd í Reykjavík 4. 9. 1960.
RSS straumur: RSS straumur